Fundargerð 46. fundar Safnaráðs 19. janúar 2006, kl. 11:30-13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík 

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottóson, Sveinn Kristinsson, Karl Rúnar Þórsson og Rakel Halldórsdóttir.

1.      Fundargerð 45. fundar var samþykkt og undirrituð.

2.      Skýrsla framkvæmdastjóra.  Framkvæmdastjóri skýrði frá starfsemi frá síðasta fundi.  Vefsíða Safnaráðs. Greint frá framvindu, áætlað er að vefsíðan verði tilbúin fyrir febrúarlok. Greinargerðir v. styrkja 2005 hafa flestallar borist. Drög að plakati með tilkynningu um styrkveitingu 2006 kynnt. Samþykktar voru nokkrar breytingar. Rætt var einnig um möguleikann á því að Safnaráð veitti einu safni á ári viðurkenningu fyrir vel unnin störf á ákveðnu sviði. Framkvæmdastjóra var falið að skoða hugmyndina nánar. Keyptur hefur verið nýr öflugur skanni, með matara, á skrifstofu Safnaráðs v. umfangs skjalavinnslu hjá Safnaráði. Formaður og framkvæmdastjóri, ásamt Ragnheiði H. Þórarinsdóttur, sérfræðingi hjá Lista- og safnadeild menntamálaráðuneytis munu sækja málstofu um norræna samvinnu safna í Osló 25.-27. janúar n.k. Samþykkt var að láta gera lógó fyrir Safnaráð og var framkvæmdastjóra falin verkstýring.

3.      Útgáfa 2006. Rit frá ABM-utvikling voru kynnt. Rætt var um möguleika á þýðingu rita frá ABM-utvikling á íslensku í samvinnu Safnaráðs og höfuðsafnanna. Einnig var rætt um möguleikann á því að prufukeyra gagnlegar bækur um safnamál á erlendum málum með því að bjóða þær til sölu í safnbúðum höfuðsafnanna. Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra að gera tillögu að útgáfu.

4.      Málþing Safnaráðs haust 2006 – 1. drög. Rætt var hugmynd um málþing um samband og samvinnu safna og skólakerfis. Samþykkt var að vinna hugmyndina áfram í samstarfi við framkvæmdastjóra.

5.      Umsóknir 2006 – viðmið og aðferð. Eftir nokkra umræðu var samþykkt að skoða úthlutanir fjárlaganefndar til safna á fjárlögum 2005 og 2006 fyrir úthlutun. Samþykkt var að óska eftir aðgangi að afritum af umsóknum stofnana í safnastarfi til fjárlaganefndar hjá nefndarritara. Þörf er á endurnýjun verklagsreglna Safnaráðs og verða þær að öllum líkindum endurnýjaðar með litlum breytingum. Framkvæmdastjóri mun vinna úthlutunargögn og senda fundarmönnum fyrir úthlutunarfund.

6.      Næsti fundur og önnur mál.  Samþykkt var að halda úthlutunarfund 9. febrúar n.k. kl. 9:30-16:30. Allir aðalfulltrúar í Safnaráði eru boðaðir til fundarins. Ekki voru önnur mál til umræðu.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH