Fundargerð 51. fundar Safnaráðs, 24. maí 2006, kl. 11:30 – 13:00, Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík 
 
Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Sveinn Kristinsson, Karl Rúnar Þórsson, Álfheiður Ingadóttir og Rakel Halldórsdóttir.
 
1.      Fundargerð 50. fundar var samþykkt og undirrituð.

2.      Skýrsla framkvæmdastjóra. Íslenski safnadagurinn 2006, sunnudaginn 9. júlí. – Safnaráð hafði umsjón með framkvæmd á kynningu Íslenska safnadagsins í ár. Framkvæmdastjóri stýrði starfshópi fulltrúa höfuðsafna, Félags íslenskra safna og safnmanna og Íslandsdeildar ICOM. Söfn og setur stóðu sameiginlega að auglýsingu í Morgunblaðinu daginn fyrir íslenska safnadaginn, en skrifstofa Safnaráðs sá um umsýslu í tengslum við auglýsinguna. Starfshópur ákvað að yfirskrift dagsins í ár yrði ?fyrir fjölskylduna?. Nokkur umfjöllun var um safnamál, m.a. viðtöl við framkvæmdastjóra, í fjölmiðlum í kringum safnadaginn. Heimsókn framkvæmdastjóra til National Board of Antiquities/Museiverket í Helsinki og ráðstefna um hreyfanleika safnkosts. Framkvæmdastjóri var fulltrúi menntamálaráðuneytis á ráðstefnu um hreyfanleika safnkosts í Helsinki dagana 19. – 21. júlí. Um er að ræða verkefni sem unnið hefur verið að innan Evrópusambandsins síðastliðin ár, en Finnland fer nú með forsæti þar. Ráðstefnan bar yfirskriftina ?Encouraging the Mobility of Collections?. Í sömu viku heimsótti framkvæmdastjóri og kynnti sér starfsemi the National Board of Antiquities/Museiverket í Helsinki, en sú ríkisstofnun sér um stefnumótun og framkvæmd verkefna á vegum ríkisins í málefnum safna í Finnlandi. Flugminjanefnd á vegum menntamálaráðuneytis. Framkvæmdastjóri hefur verið skipaður starfsmaður nefndar á vegum menntamálaráðuneytis sem falið hefur verið að skila tillögum um flugminjar og flugminjasafn. Nefndinni er stýrt af þjóðminjaverði. Auglýst hefur verið eftir umsóknum í Safnasjóð fyrir 2007 í helstu fjölmiðlum og Lögbirtingablaðinu. Umsóknarfrestur er til 1. nóvember n.k. Uppbygging safnafræðináms við Háskóla Íslands. Framkvæmdastjóri er formaður starfshóps um uppbyggingu meistaranáms í safnafræði við Háskóla Íslands. Starfshópurinn hefur óskað eftir fjárhagslegum stuðningi menntamálaráðuneytis við uppbyggingu deildarinnar. Rætt var um mikilvægi aukis framboðs á faglegri, sérhæfðri menntun á sviði menningar- og náttúruarfsins hér á landi fyrir viðhald, framþróun og nýsköpun í tengslum við arfleifð Íslendinga.
 
3.      Könnun Safnaráðs á stöðu skráningar – niðurstöður. Birtar voru niðurstöður könnunar Safnaráðs á stöðu skráningar á söfnum og setrum, en könnunin var framkvæmd vorið 2006. 67 söfn og setur tóku þátt í könnuninni. Söfn og setur standa misjafnlega að vígi hvað varðar skráningu, sum hafa skráð mestan hluta safnkosts og önnur lítið skráð. Heildrænt séð benda niðurstöðurnar til þess að enn sé nokkuð í land hvað varðar faglega skráningu menningar- og náttúruarfs á rafrænt form.
 
4.      Vettvangsferð Safnaráðs 2006. Rætt var um vettvangsferð 2006. Ferðinni var frestað í vor og var nú ákveðið að breyta ferðinni og fara á Norðurland í stað Austurlands. Framkvæmdastjóri mun setja fram tillögu að eins dags ferð til Akureyrar í tengslum við næsta fund ráðsins. Söfn og setur á Akureyri og í nágrenni verða skoðuð.
 
5.      Lógó Safnaráðs. Samþykkt var endurbætt tillaga hönnuðanna Hildigunnar Gunnarsdóttur og Snæfríðar Þorsteins.
 
6.      Samningur UNESCO frá 2005 um að vernda og styðja við menningarlega fjölbreytni. Menntamálaráðuneyti óskaði eftir athugasemdum Safnaráðs og fleiri ríkisstofnana við samninginn þar sem unnið er að því í ráðuneytinu að Ísland staðfesti samninginn. Ekki voru gerðar athugasemdir við samninginn og samþykkt umsögn.
 
7.      Samráðsfundur Safnaráðs 19. og 20. október um stöðu og stefnu á sviði menntunarhlutverks safna. Í framhaldi af ákvörðun síðasta fundar kallaði framkvæmdastjóri saman starfshóps sérfræðinga höfuðsafna og stærstu safna Reykjavíkurborgar til að vinna að undirbúningi og framkvæmd samráðsfundar um menntunarhlutverk safna í október. Valdir hafa verið dagarnir 19. og 20. október. Starfshópurinn vinnur nú að gerð könnunar á núverandi stöðu á söfnum hvað varðar menntunarhlutverk og framfylgni þess. Í framhaldi verður unnin grind að stefnu sem vinnuhópar samsettir af aðilum sem sinna fræðslumálum á íslenskum söfnum munu vinna áfram og samþykkja á samráðsfundinum. Safnaráð samþykkti að veita söfnum utan að landi sem hafa þegar verið skilgreind af ráðinu sem safn skv. 4. gr. safnalaga 10.000 kr. styrk til þátttöku í samráðsfundinum. Markmiðið er að afurð fundarins verði stefna í skýrsluformi sem nýtist sem raunverulegt verkfæri á söfnum til jákvæðrar þróunar á starfsemi safna tengdri menntunarhlutverki. Stefnan verður gefin út af Safnaráði. Miðað verður við að fundurinn fari fram á Þjóðminjasafni Íslands.
 
8.       Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur var ákvarðaður 5. október n.k.
Önnur mál:
a) Vísindasafn. ÁI kynnti þróun varðandi hugmyndir um stofnun vísindasafns. Á fyrrihluta árs var stofnað undirbúningsfélag um vísindasafn, sem Orkuveita Reykjavíkur og fleiri aðilar eiga fulltrúa í. Félagið vinnur að mótun vísindasafns/tilraunasafns. Náttúrufræðistofnun Íslands mun hitta nefndina til að ræða mögulegt samstarfs, en e.t.v. er hér um að ræða mögulega leið til uppbyggingar eða þróunar Náttúruminjasafns Íslands sem hluta af hinu fyrirhugaða vísindasafni.
b) Varnarliðssvæðið. MH kynnti hugmyndir varðandi varðveislu upplýsinga um veru varnarliðsins hér á landi. Þjóðminjavörður heimsótti varnarliðssvæðið fyrir nokkru, til athugunar á svæðinu og því samfélagi sem þar er að hverfa með brotthvarfi bandaríska hersins. Framkvæmdastjóri Safnaráðs var með í för. Áríðandi er að ráðinn verði, eftir réttum leiðum með tilliti til þess að eigandi varnarliðssvæðisins er NATÓ, aðili til að skrásetja minjar og heimildir um þetta samfélag, sem óðum er að hverfa. Safnaráð ræddi um að semja ályktun í því skyni að vekja athygli á málinu og mikilvægi þess. Þjóðminjavörður og framkvæmdastjóri munu hittast og fara yfir málið, en ákvörðun um ályktun verður tekin í framhaldi.
 
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH