Fundargerð 88. fundar safnaráðs
29. október 2009, kl. 15:00 – 17:00, Þjóðminjasafni Íslands
Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir, Georg Friðriksson, Rakel Halldórsdóttir.
1. Fundargerðir 84., 85., 86., og 87. funda voru samþykktar og undirritaðar.
2. Skýrsla framkvæmdastjóra.
Síðasti fundur núskipaðs safnaráðs. Um er að ræða síðasta fund núskipaðs safnaráðs, en ráðið er skipað til 1. nóvember 2009. Frkv.stj. tilkynnti mennta- og menningarráðuneytinu um að þörf væri á að huga að skipun nýs ráðs með tölvupósti þann 30. september sl. Heimboð á Nýlistasafnið. Forsvarsmenn Nýlistasafnsins buðu safnaráði í heimsókn í tilefni af flutningi safnsins í nýtt húsnæði að Skúlagötu 28, þar sem kexverksmiðjan Frón var áður til húsa. Samþykkt var að óska eftir því að flytja heimsóknina fram yfir áramót. Safn Hjörleifs Kvaran. Í framhaldi af fyrirspurn varðandi safn Hjörleifs Kvaran er enn beðið svara frá lögfræðingum mennta- og menningarmálaráðuneytis varðandi túlkun verðgildisákvæða laga nr. 105/2001 um útflutning menningarverðmæta í tilfellum þar sem áætlað er að flytja heil söfn erlendis. Samþykkt var að ítreka fyrirspurnina. Heimsókn frá ABM-utvikling í Noregi. Ellefu fulltrúar ABM-utvikling, sem fer með opinber málefni safna Norðmanna, heimsóttu Ísland til að kynna sér safnastarf á Íslandi dagana 13.-16. október. Þann 15. október hittu fulltrúarnir formann og frkv.stj. safnaráðs á fundi í Þjóðminjasafni Íslands, auk forstöðumanna nokkurra íslenskra safna og tveggja fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis. Fengu gestirnir stutta kynningu á starfsemi safnaráðs og vísuðu fyrirspurnum sínum til viðstaddra forsvarsmanna safnastarfs á Íslandi. Gestirnir þáðu að því loknu leiðsögn um sýningar Þjóðminjasafnsins í boði safnsins og hádegisverð á safninu í boði safnaráðs. Framvinda mála varðandi umhverfisspjöll við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Safnaráð fór yfir framvindu mála er tengjast umhverfisspjöllum og jarðraski í nánasta umhverfi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Ályktað var um málið á fundi safnaráðs þann 15. júní sl. Samþykkt var ný ályktun um málið. Ályktunin verður staðfest í tölvupósti. Coventry kirkjugler á Íslandi. Farið var yfir málið. Umsagnir hafa borist frá Biskupi Íslands, Listasafni Íslands, auk munnlegrar umsagnar frá Þjóðminjasafni Íslands. Í ljósi umsagna sér safnaráð ekki ástæðu til að bregðast við málinu. Samþykkt var þó að athuga með möguleg lausagler úr kirkjunni í Coventry sem hugsanlega eru varðveitt í Áskirkju. Teigarhorn – steinaþjófnaður. Í ljósi ákvæða laga nr. 105/2001 um útflutning menningarverðmæta og um skil menningarverðmæta til annarra landa var fjallað um steinaþjófnað sem átt hefur sér stað á Teigarhorni þar sem safnkosti, geislasteinum, hefur verið rænt. Samþykkt var að óska eftir almennri umsögn um málið frá Náttúruminjasafni Íslands og fylgjast með framvindu málsins. Hugsanlegt rán menningarverðmæta úr skipsflaki Pourquoi Pas? Í ljósi ákvæða laga nr. 105/2001 um útflutning menningarverðmæta og um skil menningarverðmæta til annarra landa var fjallað um upplýsingar varðandi hugsanlegan þjófnað menningarverðmæta úr skipsflaki Pourquoi Pas? við Íslandsströnd. Að sögn mun Fornleifavernd ríkisins áætla að senda kafara niður að flakinu til að kanna málið. Samþykkt var að óska eftir því við Fornleifaverndina að fá að fylgjast með framvindu málsins. Uppbygging safnamála á Höfn í Hornafirði. Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn, kom til fundar við formann og frkv.stj. varðandi uppbyggingu safnamála á Höfn og í nágrenni. Um er að ræða áhugaverðar hugmyndir og ríkan vilja til samráðs við safnaráð á öllum stigum uppbyggingarinnar. Safnasjóður – fjárlagafrumvarp 2010. Farið var yfir fjárlagafrumvarp 2010 með tilliti til safnasjóðs. Um er að ræða 11,7 millj. kr. lækkun frá fyrra ári, eða 11%. Samþykkt var ályktun til Alþingis þar sem safnaráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá maí 2009 ?Íslensk muna- og minjasöfn, meðferð og nýting á ríkisfé? um mikilvægi þess að fjárveitingar ríkisins til safnastarfs verði í auknum mæli í faglegum farvegi, svo sem í gegnum safnasjóð. Ályktunin verður staðfest í tölvupósti. Fjölmiðlavöktun safnamála. Komið hefur upp sú hugmynd að safnaráð haldi utan um fjölmiðlavöktun fyrir safnastarf. Farið var yfir tilboð um fjölmiðlavöktun í prentmiðlum og ljósvakamiðlum. Samþykkt var leggjast í verkefnið. Leitað verður nánari upplýsinga um ákveðna þætti tilboðsins fyrir næsta fund. Fjölmiðlavöktun verði greidd af safnaráði og í boði fyrir þau söfn sem skráð eru á upplýsingasíðu safnaráðs um safnastarf í landinu www.safnastarf.is (Opnast í nýjum vafraglugga). Höfundarréttarmál safna. Málinu var frestað til næsta fundar. Listaverkaeign ríkisbankanna. Umræðum var frestað til næsta fundar. Námskeið um rafræna meðferð stjórnsýslumála. Frkv.stj. mun sækja námskeið um rafræna meðferð stjórnsýslumála á vegum Endurmenntunarstofnunar HÍ, Stofnunar stjórnsýslufræða og forsætisráðuneytisins. Umsóknir í safnasjóð 2010. Þónokkur vandkvæði hafa komið upp við nýtingu nýs, rafræns umsóknareyðublaðs safnaráðs vegna umsókna í safnasjóð. Í ljósi tæknilegra örðugleika sem við er að etja í þessu samhengi var samþykkt að framlengja umsóknarfrest í safnasjóð um tvær vikur, til 15. nóvember n.k. Tilkynnt verður um framlenginguna á Safnlistanum, tölvupóstlista safnmanna. Ráðstefnan Nýsköpun og skapandi vinna í höndum ungs fólks 2. -4. desember. Undirbúningur ráðstefnunnar stendur yfir. Frkv.stj. mun stýra fundi v. erinda safna um safnamál þann 2. desember á ráðstefnunni og hefur jafnframt umsjón með heimsókn á safn þann 3. desember. Listasafn Íslands hefur tekið að sér að undirbúa sérstakan viðburð vegna heimsóknar ráðstefnugesta á safnið þann dag. Staðgengill framkvæmdastjóra vegna fæðingarorlofs. Fenginn hefur verið staðgengill fyrir framkvæmdastjóra í fæðingarorlofi á næsta ári. Um er að ræða Ágústu Kristófersdóttur, sýningarstjóra á Þjóðminjasafni Íslands og fyrrverandi formann Félags íslenskra safna og safnmanna. Áætlað er að Ágústa leysi frkv.stj. af frá 1. apríl – 31. október 2010 (í 7 mánuði).
3. Umsókn Ágústu Edwald um útflutning menningarverðmæta úr fornleifauppgrefti á Hornbrekku, Höfðaströnd. Safnaráði barst umsókn frá Ágústu Edwald þar sem óskað er leyfis til útflutnings menningarverðmæta úr fornleifauppgrefti á Hornbrekku, Höfðaströnd. Umsagna hefur verið óskað frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Fornleifavernd gerir ekki athugasemdir við útflutning. Þjóðminjasafn Íslands telur rétt að gripirnir verði forskráðir á safn áður en til útflutnings komi, til að tryggja eftirlit. Umsækjanda hefur verið tilkynnt um athugasemdir Þjóðminjasafns. Málið hefur verið borið undir mennta- og menningarmálaráðuneyti sem telur eðlilegt að gripirnir verði forskráðir til að tryggja eftirlit, séu fordæmi fyrir slíku. Þjóðminjasafn Íslands ákvarðar skráningu gripanna. Leyfi til útflutnings verður afgreitt þegar gripirnir hafa verið forskráðir á safn.
4. Umsókn um útflutning beinasýna úr fornleifauppgrefti í Reykholti, Borgarfirði, í rannsóknarskyni. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur um útflutning tveggja beinasýna úr fornleifauppgrefti í Reykholti, Borgarfirði, í rannsóknarskyni. Óskað hefur verið eftir umsögnum frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Leyfið verður afgreitt þegar umsagnir hafa borist ef ekki eru gerðar athugasemdir við útflutning.
5. Umsókn um útflutning viðarkolasýna út fornleifauppgrefti í Ögri við Ísafjarðardjúp, í rannsóknarskyni. Safnaráði barst umsókn frá Margréti Hermanns Auðardóttur, um leyfi til útflutnings viðarkolasýna úr fornleifauppgrefti í Ögri við Ísafjarðardjúp, í rannsóknarskyni. Umsagnar var óskað frá Fornleifavernd ríkisins. Umsögn hefur borist og ekki eru gerðar athugasemdir við útflutning. Útflutningur hefur verið heimilaður.
6. Umsóknir um útflutning menningarverðmæta á uppboð hjá danska uppboðshúsinu Bruun Rasmussen. Í framhaldi af matsdegi danska uppboðshússins Bruun Rasmussen hér á landi, í samstarfi við Sendiráð Danmerkur á Íslandi, hóf sendiráðið fyrir hönd uppboðshússins umleitan um leyfi eigenda valinna verka til útflutnings menningarverðmæta í söluskyni á uppboð hjá uppboðshúsinu erlendis. Safnaráð hefur leitað umsagna hjá Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Þjóðskjalasafni Íslands og Hönnunarsafni Íslands. Safnaráð og sérfræðingar fyrrgreindra umsagnaraðila skoðuðu umrædda gripi hjá Sendiráði Danmerkur þann 24. september með tilliti til ákvæða laga nr 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Sjö eigendum gripa hafa þegar verið veitt leyfi til útflutnings, Fjallað var um umsóknir átta eigenda til viðbótar. Útflutningur var samþykktur með tilliti til umsagna.
7. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur safnaráðs skv. fundaáætlun 2009 er 26. nóvember n.k., kl. 15-17. Haldið verður við þann fundartíma komi ekki til tafa við skipun nýs safnaráðs.
Önnur mál:
Skipan nýs safnaráðs: Forstöðumann höfuðsafna eru lögbundnir fulltrúar í safnaráði og munu því sitja áfram í nýju ráði sem aðalfulltrúar sinna stofnana. Samband íslenskra sveitarfélaga mun tilnefna SK áfram til setu í ráðinu sem aðalfulltrúa sambandsins. Um verður að ræða tilnefningu nýs fulltrúa Félags íslenskra safna og safnmanna. ÖlmuDís Kristinsdóttur voru kærlega þökkuð góð störf í þágu safnaráðs.
Umsókn Fornleifastofnunar Íslands um tímabundinn útflutning menningarverðmæta til forvörslu erlendis. Safnaráði barst erindi frá Guðrúnu Öldu Gísladóttur hjá Fornleifastofnun Íslands um tímabundinn útflutning menningarverðmæta úr fjórum fornleifauppgröftun Fornleifastofnunar til forvörslu erlendis. Samþykkt var að óska eftir umsögnum frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH