Fundargerð 98. fundar safnaráðs –

28. október 2010, kl. 12:00 – 14:00, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór B. Runólfsson, Helgi Torfason, Eiríkur Jörundsson, Jenný Lind Egilsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir (framkvæmdarstjóri safnaráðs).

1. Málefni til umræðu og ákvörðunar:

1.0.Fundargerð 97. fundar samþykkt og undirrituð.

1.1.  Skýrsla framkvæmdastjóra: Vettvangsferð safnaráðs:  Að þessu sinni var farið um Höfuðborgarsvæðið. Sérstök áhersla var lögð á að heimsækja þau söfn sem nýlega hafa fengið nýtt húsnæði undir starfsemi sína. Heimsóknirnar voru fróðlegar og sýndu vel þann metnað sem starfsfólk leggur í störf sín. Farskóli safnmanna: Farskólinn var haldinn í Stykkishólmi, og var góð mæting safnmanna af öllu landinu. Framkvæmdastjóri safnaráðs kynnti þar fyrstu niðurstöður samræmdrar safngestakönnunar. Umsóknir í safnasjóð: Umsónarferlið  hefur gengið bærilega en einhver tæknileg vandamál hafa þó komið upp. Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Byggðasafnið Hvoli báðu um frest vegna slíkra mála og er hann veittur til 20. nóvember  og söfn á vegum Reykjavíkurborgar fá frest til að skila áætlunum ársins 2011 sömuleiðis til 20. nóvember. Minjasafnið á Hnjóti: Fylgst er með þróun mála varðandi flugminjarnar á Hnjóti og stendur til að fulltrúi Þjóðminjasafns ásamt starfandi framkvæmdastjóra safnaráðs fari vestur og skoði aðstæður. Fyrirkomulag næstu 6 mánaða: Rakel Halldórsdóttir kemur til baka úr fæðingarorlofi 1. nóvember og verður í 50% starfi næstu 6 mánuði og nýtir á mót rétt sinn til foreldraorlofs. Ágústa Kristófersdóttir leysir hana af 50%.

1.2. Breytingar á lagaumhverfi safna – Rætt um sameiginlegar athugasemdir safnaráðs, FÍSOS, ICOM, ICOMOS, Þjóðminjasafns og Húsafriðunarnefndar sem sendar voru Mennta- og menningarmálaráðherra 22. október s.l.

1.3. Fjárhagsstaða safnaráðs: Kallað var eftir yfirliti yfir útgjöld frá áramótum. Staðan er ágæt. Ákveðið að fela framkvæmdastjóra að auglýsa ferða og endurmenntunarsstyrki sem sem samþykktir voru á 95. fundi og að endurnýja tölvubúnað á skrifstofu.

1.4. Höfundarréttarmál: starfandi framkvæmdastjóri lagði fyrir minnisblað um mögulegar lausnir á höfundarréttarmálum vegna birtingar smámynda af  listaverkum í gagnagrunnum safna á veraldarvefnum. Starfandi framkvæmdastjóra ásamt Halldóri Birni Runólfssyni er falið að skoða málið áfram.

1.5. Safnabókin 2011: Drög að samningi við Útgáfufélagið Guðrún kynnt. Þar er kveðið á um kaup á eintökum af safnabókinni 2011 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

1.6. Fjárlagafrumvarp 2011: Farið yfir framlög til safna í frumvarpi til fjárlaga 2011 og tölur bornar saman við síðustu ár. Framlög til safnasjóðs hækka lítillega sem er fagnaðarefni en ljóst er að önnur framlög til safna dragast verulega saman.

2. Erindi til umræðu og ákvörðunar.

2.1. Erindi frá Safnabókinni. Safnaráð samþykkti að kaupa 300 eintök af bókinni til almennrar dreifingar.

2.2. Erindi frá Listasafni ASÍ sem gerði athugasemdir við veitta styrki úr safnasjóði. Kristín Guðnadóttir safnstjóri Listasafns ASÍ kom á fundinn. Rætt um athugasemdir við styrkveitingar. Samþykkt að endurskoða úthlutun verkefnastyrks sem féll niður í umsókn safnsin 2010 vegna tæknilegar örðugleika. Samykkt að endurkoða útfærslu á umsóknum um verkefnastyrki.

3. Næsti fundur var ákveðinn í lok nóvember. Ágústa Kristófersdóttir