Fundargerð 96. fundar safnaráðs – 24. júní 2010, kl. 12:00 – 14:00, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Svanfríður Franklínsdóttir (staðgengill Halldórs B. Runólfssonar), Helgi Torfason, Guðný Dóra Gestdóttir, Jenný Lind Egilsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir (framkvæmdarstjóri safnaráðs).

1. Málefni til umræðu og ákvörðunar:

1.0.Fundargerð 95. fundar samþykkt og undirrituð.

1.1.  Skýrsla framkvæmdastjóra: Íslenski safnadagurinn:
Íslenski safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn11. júlí og mun safnaráð standa fyrir opnu auglýsingu með þátttöku fjölmargra safna í Morgunblaðinu að því tilefni. Nú er verið að safna upplýsingum í auglýsinguna. Safnahandbók 2010: Safnahandbókin 2010 sem Anna Lísa Björnsdóttir stendur fyrir er nú á lokaspretti. Safnaráð hefur veitt faglega ráðgjöf ásamt formanni FÍSOS en endanleg próförk liggur ekki fyrir. Vorfundir: Vorfundur Listasafns Íslands var haldinn 31. maí s.l. og var safnstefna á sviði myndlistar aðal umræðuefnið. Þátttaka var góð og er næsti fundur fyrirhugaður í tengslum við farskólann í haust. Samræmd safngestakönnun: vinna við samræmda safngestakönnun gengur vel og verður hún tilbúin 1. júlí. Undirbúningur fyrir auglýsingu um styrki fyrir árið 2011: beðið er eftir staðfestingu á nýjum úthlutunarreglum úr mennta- og menningarmálaráðuneyti. Fyrirlestur Elisabeth Schlatter: Schlatter er bandarískur sýningarstjóri sem heimsótti Ísland á vegum Hafnarborgar og tóku safnaráð og Þjóðminjasafn þátt í undirbúningi fyrir erindi hennar með því að senda kynningar og útvega aðstöðu í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Ferð framkvæmdastjóra til Húsavíkur: Ferðin tókst vel í alla staði og var lærdómsríkt að sjá fjölbreytta flóru íslenskra safna.

1.2. Auglýsing um styrki úr safnasjóði:  Á milli funda voru tillögur  um smávægilegar breytingar mennta og menningarmálaráðuneytis á úthlutunarreglum samþykktar og  var texti reglna færður nær texta gildandi laga. Beðið er formlegrar staðfestingar ráðherra og verða styrkauglýsingar birtar með fyrirvara um breytingar.

1.3. Breytingar á lagaumhverfi safna – farið var yfir drög að athugasemdum og þær ræddar. Ákveðið að halda áfram vinnu við þær með tölvupósti.

1.4. Geymslumál Byggðasafns Reykjanesbæjar – bréf Byggðasafns Reykjanesbæjar um geymslumál. Safnaráð fagnar því að náðst hefur góð niðurstaða í málið, en safnið hefur sagt upp samningi sínum við Gagnavörsluna og í staðinn keypti bæjarfélagið húsnæði sem safni getur nýtt sem varðveisluhús.

1.5. Námsráð í safnafræði: Beiðni var send frá námsbraut í safnafræði við HÍ þess efnis að framkvæmdastjóri safnaráðs taki sæti í námsráði. Ákveðið að skoða betur umfang starfsins áður en endanleg ákvörðun er tekin. Safnaráð mun í svari sínu hvetja til samstarfs við höfuðsöfnin og aukins samstarfs við skyld fög í HÍ.

1.6. Ferð safnaráðs: Í ljósi minnkandi fjárveitinga er stefnt að því að heimsækja söfn á höfuðborgarsvæðinu 16. september nk.  .

1.7. Stofnskrár safna – yfirferð 2010 með tilliti til formlegrar staðfestingar safnaráðs: Stofnskrár 13 safna voru yfirfarnar og bornar saman við leiðbeiningar safnaráðs um stofnskrár frá 2009. Söfnum verða send bréf með athugasemdum eftir því sem við á. Haldið verður áfram yfirferð yfir stofnskrár með sama hætti.

2. Erindi til umræðu og ákvörðunar.

2.1. Erindi frá mmrn. vegna umsóknar Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar um styrk skv.

11. gr. safnalaga.
Safnaráð samþykkti að mæla með umsókninni. Bréf verður sent mennta og menningarmálaráðuneyti.

2.2. Erindi frá mmrn. vegna umsóknar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar um styrk skv.

11. gr. safnalaga.
Safnaráð samþykkti að vísa beiðninni til umsagnar hjá Listasafni Íslands.

2.3. Stofnskrá Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi til staðfestingar. Staðfest athugasemdalaust.

3. Næsti fundur var ákveðinn 2. september kl. 12.00.

Ágústa Kristófersdóttir