Fundargerð 90. fundar safnaráðs

29. janúar 2010, kl. 12:00 – 14:30, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Jenný Lind Egilsdóttir, Guðný Dóra Gestsdóttir, Rakel Halldórsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir. Guðrún Alda Gísladóttir og Garðar Guðmundsson frá Fornleifastofnun Íslands komu inn á fundinn, að boði safnaráðs, til að ræða nánar tiltekið erindi til umræðu hjá ráðinu (sjá neðar).

1. Fundargerð 89. funda var samþykkt og undirrituð.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra.

Ágústa Kristófersdóttir, sem leysa mun frkv.stj. af  í væntanlegu fæðingarorlofi, tók þátt í fundinum. Flutningur skrifstofu safnaráðs í Þjóðminjasafn Íslands.  Skrifstofa safnaráðs flutti úr Listasafni Íslands í Þjóðminjasafn Íslands 13. Janúar 2010.  Skrifstofan er nú staðsett á 4. hæð í turni Þjóðminjasafnsins, að Suðurgötu 41, 101 Reykjavík. Greinargerðir vegna nýtingar styrkja 2009. Greinargerðir safna vegna nýtingar styrkja úr safnasjóði fyrir árið 2009 hafa borist. Samræmd safngestakönnun. Verkefnið gengur vel. Starfshópur um verkefnið hefur samið spurningalista sem lagður verður fyrir safngesti íslenskra safna í sumar, væntanlega í júlí, í fyrsta sinn. Frkv.stj. mun áfram vinna að framgangi verkefnisins með starfshópnum.  Endurskoðun Safnastefnu á sviði þjóðminjavörslu. Frkv.stj. hefur liðsinnt Þjóðminjasafni við endurskoðun safnastefnunnar. Haldinn var samráðsfundur vegna endurskoðunarinnar á Akureyri þann 7/12 sl. þar sem ýmsar gagnlegar ábendingar komu fram. Áætlaðir eru fundir á Egilsstöðum og Vesturlandi/Vestfjörðum á næstu vikum. Svar mennta- og menningarmálaráðuneytis varðandi athugasemdir safnaráðs um Þorláksbiblíu frá 1644. Í ljósi þess að eigandi Þorláksbiblíu frá 1644 sýndi áhuga á  útflutningi biblíunnar í söluskyni á uppboði erlendis benti safnaráð mennta- og menningarmálaráðuneyti á að sérfræðingar hefðu metið umrædda biblíu sem vel varðveitt og verðmætt eintak fyrir íslenska þjóðmenningu og lagði til að ráðuneytið myndi liðsinna Landsbókasafni í að eignast eintakið byðist það til sölu. Ráðuneytið lagði í bréfinu fyrir safnaráð að taka til umfjöllunar beiðni um útflutning á framangreindu eintaki Þorláksbiblíu, þegar slík beiðni bærist safnaráði. Slík beiðni hefur ekki borist en upplýsingar hafa borist um að eigandi eintaksins hyggist varðveita eintakið áfram í sinni eigu um sinn. Ábending til safnaráðs varðandi Saltfisksetur Íslands. Ábending barst safnaráði varðandi Saltfisksetur íslands, þar sem kveðið er á um að Saltfisksetur Íslands sé fyrirtæki í samkeppnisrekstri og eigi þar af leiðandi ekki að njóta styrkja úr safnasjóði. Saltfisksetur Íslands hefur ekki sótt um styrki í safnasjóð undanfarin ár og sækir ekki um á árinu 2010.  Listaverkaeign ríkisbankanna. Safnaráð fjallaði um málið og taldi mikilvægt að beita sér í því á einhvern hátt. Ræddi ráðið um að taka samning um listaverkaeign bankanna til skoðunar á næsta fundi. HBR mun mæta með minnisblað varðandi málið og umræddan samning á næsta fund til skoðunar.

3. Skýrsla safnaráðs um árangur af starfsemi ráðsins 2002-2009. Skýrslan var tekin saman í tilefni af skipun nýs ráðs þann 25. nóvember sl. og til glöggvunar á árangri af starfsemi ráðsins, sem hefur verið töluverður frá upphafi. Safnaráð stofnsett með safnalögum nr. 106/2001 og  kom ráðið fyrst saman í lok árs 2001.  Skýrslan miðast við starfsemi frá 2002, þar sem ekki var um að ræða mælanlegt starf ráðsins á árinu 2001. Skýrslan verður send mennta- og menningarmálaráðuneyti.

4. Drög að fundaáætlun 2010 til samþykktar. Lögð voru fram drög að fundaáætlun 2010 sem samþykkt voru.

5. Þjónustusamningur 2010 og fjárhagsáætlun safnasjóðs 2010. Kynntur var nýr þjónustusamningur safnaráðs f.h. safnasjóðs við Þjóðminjasafn Íslands vegna flutninga skrifstofu safnaráðs í Þjóðminjasafn. Lögð var fram til samþykktar fjárhagsáætlun safnasjóðs 2010. 1 millj. kr. hækkun er á áætluðum umsýslukostnaði ráðsins frá fyrra ári. Hækkunin skýrist af nýjum verkefnum ráðsins, fjölmiðlavöktun safnamála (að stærstum hluta) og samræmdri safngestakönnun. Fjárhagsáætlun 2010 var samþykkt.

6. Dreifimiði vegna útflutnings menningarverðmæta. Endanleg útgáfa dreifimiðans með enskri þýðing u var kynnt. Samþykkt var að undirskriftir höfuðsafna yrðu jafnframt ritaðar á ensku. Samþykkt var að bera dreifimiðann undir samstarfsaðila. Endanleg útgáfa var samþykkt.

7. Fjölmiðlavöktun safnamála. Undirritaður samningur um fjölmiðlavöktun var kynntur. Fjölmiðlavöktun safnamála er hafin á vegum safnaráðs. Skráðar safnastofnanir á safnastarf.is munu njóta þessarar þjónustu.

8. Drög að verklagsreglum Tollstjóraembættisins um samstarf vegna laga nr. 105/2001. Kynnt voru drög Tollstjóraembættisins um samstarf vegna laga nr. 105/2001.

9. Coventry-kirkjugler, lausagler. Í ljósi umsagnar fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands var samþykkt að senda bréf varðandi efnið á Biskupsstofu þar sem bent er á lausaglerið og það að tryggja þurfi varðveisluskilyrði þess svo sem hvað varðar umbúðir og staðsetningu.  Bent verði á Þjóðminjasafn Íslands í tengslum við ráðgjöf hvað þetta varðar.

10. Höfundarréttarmál safna. Fjallað var um málið og rætt um mikilvægi þess að koma þessum málum í góðan farveg hvað söfn varðar. Safnaráð á fulltrúa í höfundarréttarnefnd mennta- og menningarmálaráðuneytis og mun fylgjast með starfi nefndarinnar. Stefnt er að því að taka málið til skoðunar á næstu mánuðum.

11. Erindi frá Hvalfjarðarsveit vegna Byggðasafnsins í Görðum. Safnaráði barst erindi frá sveitarfélaginu Hvalfjarðarsveit þar sem óskað er eftir ráðgjöf ráðsins hvað varðar aðkomu sveitarfélagsins að rekstri Byggðasafnsins í Görðum. Leitað er ráðgjafarinnar þar sem fyrir dyrum standa skipulagsbreytingar sem kveða á um nánara samstarf menningarstofnana Akranesskaupstaðar, þar með talið Byggðasafnsins, en Hvalfjarðarsveit er eingöngu eignaraðili að Byggðasafninu. Málið var rætt og samþykkt að MH og RH sendu Hvalfjarðarsveit svar.

12. Erindi vegna Byggðasafns Reykjanesbæjar í tengslum við þjónustusamning við Gagnavörsluna ehf. Safnaráði barst erindi frá menningarfulltrúa Reykjanesbæjar þar sem óskað er ráðgjafar um drög að nýjum samningi við Gagnavörsluna um varðveislu safngripa Byggðasafns Reykjanesbæjar. Fjallað var um málið. Samþykkt var að svara erindinu á þann veg að ráðið teldi fyrirliggjandi samningsdrög ekki fullnægjandi, skýra þyrfti nánar þá þjónustu sem boðið væri upp á og með hvaða hætti. Varðveisla safngripa þyrfti að vera tryggð á allan hátt, einnig hvað varðar framtíð fyrirtækisins. Þá var undirstrikað að ekki væri unnt að færa lögbundið hlutverk safns yfir á einkaaðila. Safnaráð lýsti sig jafnframt reiðubúið til samráðs um ný samningsdrög.

13. Umsókn Kevin P. Smith um leyfi til útflutnings menningarverðmæta. Safnaráði barst umsókn frá Kevin P. Smith, Haffenreffer Museum of Anthropology, Brown University, Providence, RI, Bandaríkjunum um leyfi til útflutnings menningarverðmæta úr fornleifauppgröftum við Gilsbakka, Hvítársíðu, í rannsóknarskyni. Óskað var umsagna frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Þá var erindinu vísað til afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands hvað varðar ósk um leyfi til útflutnings dýraminja í samræmi við lög nr. 105/2001. Umsögn Þjóðminjasafns Íslands var jákvæð hvað varðar útflutning. Ekki hefur borist skrifleg umsögn Fornleifaverndar en munnlegar  upplýsingar hafa borist um að Fornleifaverndin kjósi að ekki verði veitt leyfi til útflutnings gripanna fyrr en gripum úr sama fornleifauppgreftri frá 2008 hefur verið skilað hingað til lands. Samþykkt var að geyma málið til næsta fundar þegar skrifleg umsögn Fornleifaverndar hefur borist safnaráði.

14. Afgreidd umsókn Herdísar Hallvarðsdóttur um útflutning menningarverðmæta í söluskyni. Safnaráði barst umsókn frá Herdísi Hallvarðsdóttur um útflutning menningarverðmæta í söluskyni á uppboði hjá danska uppboðshúsinu Bruun Rasmussen. Um er að ræða verk eftir Ásgrím Jónsson, Strútur og Eiríksjökull, olía á striga. Leitað var umsagnar hjá Listasafni Íslands um erindið. Umsögn Listasafnsins var jákvæð hvað varðar útflutning. Leyfi til útflutnings hefur verið gefið út.

15. Afgreidd umsókn Guðrúnar Öldu Gísladóttur um leyfi til tímabundins útflutnings leðurminja í rannsóknarskyni. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Öldu Gísladóttur hjá Fornleifastofnun Íslands um leyfi til tímabundins útflutnings leðurminja úr fimm fornleifauppgröftum Fornleifastofnunar. Leitað var umsagna hjá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands. Umsagnir beggja voru jákvæðar hvað varðar útflutning. Leyfi til útflutnings hefur verið gefið út.

16. Umsókn Guðrúnar Öldu Gísladóttur um leyfi til tímabundins útflutnings gripa úr fornleifauppgröftum til forvörslu erlendis. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Öldu Gísladóttur hjá Fornleifastofnun Íslands um leyfi til tímabundins útflutnings gripaúr fornleifauppgröftum Fornleifastofnunar til forvörslu erlendis. Leitað var umsagna hjá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands. Umsögn Þjóðminjasafns eindregin á þann veg að ekki skyldi heimila útflutning vegna mikilvægis gripanna og leita skyldi leiða til að forverja þá áÍslandi. Skv. ákvörðun 89. safnaráðsfundar þann 10. desember 2009 var útflutningur gripanna ekki heimilaður með vísan til 4. gr. laga nr. 105/2001. Ekki barst umsögn frá Fornleifavernd ríkisins en stofnunin áframsendi safnaráði bréf frá sumri 2009 þar sem fram kemur að stofnunin samþykkir tilgreindan erlendan forvörð en leggst gegn því að gripirnir verði fluttir erlendis til forvörslu. Í frh. Af ákvörðun safnaráðs frá 89. Fundi sendi Guðrún Alda ráðinu bréf þar sem óskað er fundar með ráðinu vegna málsins. Guðrúnu Öldu var boðið að mæta á 90. safnaráðsfund, sem hún og samstarfsmaður hennar, Garðar Guðmundsson, þáðu. Guðrún Alda og Garðar fóru yfir málið og óskuðu þess að málið verði endurskoðað og nánari athugun gripanna hjá Þjóðminjasafni fari fram  og ný umsögn veitt í kjölfarið. Safnaráð samþykkti að óska eftir nýrri umsögn Þjóðminjasafns Íslands um málið.

17. Umsókn um útflutning verks eftir Guðmund frá Miðdal á sýningu erlendis. Safnaráði barst umsókn Íslandsbanka um leyfi til útflutnings verks eftir Guðmund frá Miðdal á sýningur erlendis. Umsagnar var óskað frá Listasafni Íslands. Umsögn hefur ekki borist. Málinu var frestað til næsta fundar.

18. Friðlýsing kirkjugripa í Möðruvallakirkju. Í frh. af fyrri umfjöllun var fjallað um erindi þar sem óskað var leyfis til útflutnings altaristöflu Möðruvallakirkju í Eyjafjarðarsveit í söluskyni erlendis. Með tilliti til umsagna (Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og Biskups Íslands) um altarisbríkina samþykkti safnaráð, skv. bréfi dags. 10. desember 2009, að heimila ekki útflutning töflunnar með vísan til 4. gr. laga nr. 105/2001. Í bréfi Fornleifaverndar ríkisins, dags. 16. desember 2009,  kemur fram að umræddur kirkjugripur, ásamt öðrum gripum kirkjunnar, er friðlýstur skv. áliti Fornleifaverndarinnar og þjóðminjavarðar.

19. Næsti fundur og önnur mál.  Næsti fundur, skv. nýsamþykktri fundáætlun 2010, er fimmtudaginn 11. febrúar 2009.

Mál utan dagskrár:

HT kynnti fyrirhugaðan flutning Náttúruminjasafns Íslands í gömlu Loftskeytastöðina við Suðurgötu. Loftskeytastöðin tilheyrir Þjóðminjasafni Íslands.

GDG kynnti ályktun Félags íslenskra safna og safnmanna um skipun nýrrar Húsafriðunarnefndar, þar sem skipunin er gagnrýnd.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:15/RH