Fundargerð 97. fundar safnaráðs –

2. september 2010, kl. 12:00 – 14:00, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór B. Runólfsson, Helgi Torfason, Guðný Dóra Gestdóttir, Jenný Lind Egilsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir (framkvæmdarstjóri safnaráðs).

1. Málefni til umræðu og ákvörðunar:

1.0.Fundargerð 96. fundar samþykkt og undirrituð.

1.1.  Skýrsla framkvæmdastjóra:
Íslenski safnadagurinn: Íslenski safnadagurinn var haldinn hátíðlegur sunnudaginn11. júlí og tókst vel og fjölmiðlaumfjöllun um dagskrána var mikil meðal annars birtist grein eftir formann safnaráðs og starfandi framkvæmdastjóra í Morgunblaðinu.  Safnahandbók 2010: Safnahandbókin 2010 sem Anna Lísa Björnsdóttir ritstýrði kom út í júlí og er almenn ánægja með hana þó athuga þurfi ákveðin atriði s.s. skurð bókarinnar, fyrir næstu útgáfu. Samræmd safngestakönnun: Könnunin var lögð fyrir í júlí og gekk almennt vel. Þátttakendur voru alls á annað þúsund. Kostnaður við könnunina var þó mun meiri en gert var ráð fyrir, kostnaðaraukinn var meðal annars vegna þess að könnunin var lögð fyrir á tveimur tungumálum. Nú er unnið að skýrslum og verða niðurstöður kynntar í Farskóla safnmanna í lok september nk. Könnunin verður lögð fyrir aftur á nokkrum söfnum í október en kostnaður við það verður skoðaður vel og athugað hvort rétt sé að söfnin taki þátt í honum. Auglýsing um styrki fyrir árið 2011: Auglýst var eftir styrkumsóknum 18. ágúst s.l. í Morgunblaði, Lögbirtingarblaði og á póstlista safnmanna. Erindi frá Ny Björn Gustavsson: Ny Björn Gustavsson fornleifafræðingur sendi beiðni um útflutning beinasýna til rannsókna. Að fenginni umsögn Þjóðminjasafns Íslands og frávísun Fornleifaverndar ríkisins sem taldi málið vera alfarið á verksviði Þjóðminjasafns þar sem beinin sem óskað var sýna úr eru varðveitt þar og fornleifarannsókninni löngu lokið, var leyfi til útflutnings veitt.

1.2. Breytingar á lagaumhverfi safna – athugasemdir verði einfaldaðar með þeim hætti að þar verði aðeins það sem ekki hefur komið fram í athugasemdum höfðusafnanna sjálfra. Ráðið lýsir sig tilbúið að fara yfir næstu drög.

1.3. Fjárhagsstaða safnaráðs: Kallað var eftir yfirliti yfir útgjöld frá áramótum. Staðan er ágæt en ákveðið að fresta auglýsingu og útgreiðslu ferðastyrkja til endurmenntunar sem samþykktir voru á 95. fundi safnaráðs 26. maí s.l. til loka ársins þegar niðurstöður af rekstri liggja fyrir.

1.4. Minjasafnið að Hnjóti: tekið fyrir bréf frá Sigurbjörgu Ásgeirsdóttur safnstjóra Minjasafnsins á Hnjóti þar sem meðal annars var fjallað um sambýlið við Flugsafnið á Hnjóti. Samþykkt var að athuga stöðu Minjasafns og Flugsafns að Hnjóti og senda eigendum safnsins bréf þar sem ábyrgð þeirra er ítrekuð.

1.5. Stefnumótun stjórnar Hönnunarsafns Íslands:
Stefnumótun Hönnunarsafns var kynnt stuttlega.

1.6. Ferð safnaráðs: Farið verði í ferðina mánudaginn 27. september og heimsótt söfn í Reykjavík og nágrenni: Byggðasafn Hafnarfjarðar, Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ, Tónlistarsafnið í Kópavogi, Lækningaminjasafnið á Seltjarnarnesi og Nýlistasafnið.

1.7. Stofnskrár safna – yfirferð 2010 með tilliti til formlegrar staðfestingar safnaráðs: Stofnskrár 14 safna voru yfirfarnar og bornar saman við leiðbeiningar safnaráðs um stofnskrár frá 2009. Söfnum verða send bréf með athugasemdum eftir því sem við á.

2. Erindi til umræðu og ákvörðunar.

2.1. Erindi frá Listasafni ASÍ sem gerði athugasemdir við veitta styrki úr safnasjóði.
Safnaráð samþykkti að svara bréfinu með því að vísa í stefnu ráðsins og bjóða jafnframt forstöðumanninum að koma á fund ráðsins.

2.2. Erindi frá Safnabókinni, umsókn um styrk. Safnaráð samþykkti að biðja um betur sundurliðað uppgjör og þá sérstaklega upplýsingar um styrki. Safnaráð leggur til að skoðað verði hvort ráðið geti ásamt frjálsum félagasamtökum safnmanna átt formlega aðild að útgáfunni. Ráðið samþykkir að fresta afgreiðslu umsóknarinnar þar til frekari upplýsingar hafa borist en upplýsa þó útgáfuna um að styrkurinn geti ekki orðið eins hár upphæðin sem sótt var um.

2.3. Erindi frá mmrn. vegna umsóknar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar um styrk skv. 11. gr safnalaga: Jákvæð umsögn Listasafns Íslands var lögð fyrir og safnaráð samþykkti að gefa jákvæða umsögn en minna á mikilvægi þess að mannvirkið falli vel að viðkvæmu umhverfinu.

2.4. Erindi frá Guðrúnu Öldu Gísladóttur um tímabundinn útflutning gripa til rannsókna: Samþykkt að framkvæmdastjóri afgreiddi málið milli funda eftir að hafa fengið umsagnir frá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands.

2.5. Erindi frá Eric Guiry hjá MAP um tímabundinn útflutning gripa til rannsókna: Samþykkt að framkvæmdastjóri afgreiddi málið milli funda eftir að hafa fengið umsagnir frá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands.

3. Næsti fundur var ákveðinn 27. september kl. 08:30 (vettvangsferð) 

 Ágústa Kristófersdóttir, starfandi framkvæmdastjóri