Fundargerð 17. fundar safnaráðs, að Lyngási 7, 210 Garðabæ,
25. apríl 2003, kl. 11:00.

Viðstödd voru:  Margrét Hallgrímsdóttir, Ólafur Kvaran, Gísli Sverrir Árnason, Álfheiður Ingadóttir, Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, Rakel Halldórsdóttir, Jóhann Ásmundsson var viðstaddur í síma.

Rætt var stuttlega um ókeypis aðgang að söfnum og tilraun Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar á niðurfellingu aðgangseyris.

Rætt var stuttlega um ráðningu starfsmanns, hvar ábyrgð hans liggi – stm. er skráður á launaskrá hjá Þjóðminjasafni, hvernig kemur það út f. safnaráð?

1.      Undirritun fundargerðar 15. fundar og samþykkt fundargerðar 16. fundar.    Fundargerð 15. fundar var undirrituð.  Smávægileg breyting var gerð á orðalagi fundargerðar 16. fundar, verður hún undirrituð á næsta fundi.

2.      Innihald stofnskrár (endanleg útgáfa).  Bætt verði við ákvæðum um niðurlögn safns og ráðstöfun safnkosts í slíku tilfelli.  Formaður samþykki breytinguna.

3.      Starfsheiti starfsmanns safnaráðs.  Frestað til næsta fundar.

4.      Drög að þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytis f.h. safnaráðs og Þjóðminjasafns / fjárhagsáætlun safnaráðs 2003.  Þjónustusamningi verði breytt í samræmi við breytta rekstraráætlun.   Rekstraráætlun verði breytt þannig að rekstur starfsmanns og ráðs sé greinilega aðskilið.  Jafnframt verði kostnaðarliðir dregnir saman í nokkra almenna liði (t.a.m. starfsmaður, fundakostnaður, skrifstofukostnaður, annað).  Beðið er eftir svari frá fjármálastjóra Þjóðminjasafns um mánaðarlega upphæð f. leigu á aðstöðu og þjónustu.  Samþykkt var að Þjóðminjasafn greiði og bóki reikninga safnaráðs frá og með þessum degi þó gengið verði frá þjónustusamningnum síðar.

5.      Kynning á vanda Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.  Rætt var í þessu samhengi um þörfina á lagalegum ákvæðum um niðurlögn safns og ráðstöfun safngripa og annarra eigna í slíku tilfelli, eins og Pétur Jónsson, forstöðumaður byggðasafnsins, bendir réttilega á í bréfi til safnaráðs.  Ennfremur var rætt um þörfina á því að endurskoða safnalögin varðandi fleiri atriði og benti ÁI á að rétt væri að starfsmaður ráðsins héldi utan um þá vanhanka sem ráðið yrði vart við varðandi safnalögin.
Varðandi Byggðasafn Húnvetn. og Strandamanna er þörf á lögfræðilegu áliti um málið s.s. um eignarhlutföll – hvað það hefur í för með sér ef annar aðili gengur út.  Safnaráði er ekki skylt að vera ráðgefandi í þessu máli, þetta er málefni sýslanna.  Safnaráð leggur þó til að komið verði á samstarfi milli hinnar nýju safna- og sýningauppbyggingar í Strandasýslu (s.s. Galdrasýning á Ströndum, Sauðfjársetrið Sævangi og Riis hús á Borðeyri) og byggðasafnsins (nærtæk fyrirmynd er í Skagafirði þar sem árangursríkt samstarf er milli Byggðasafnsins Glaumbæ og annarrar safnastarfsemi á svæðinu, s.s. Vesturfaraseturs).

6.      Drög að ?Hvaða söfn geta notið styrkja úr safnasjóði – Hvað er safn??  Leiðbeiningarnar voru samþykktar með breytingu á fyrirsögn. 
Rætt var í þessu samhengi um stofnanir sem eru á mörkum lagalegrar skilgreiningar á safni og það hvort slíkar stofnanir muni geta kallast söfn með því að uppfylla öll lagaleg skilyrði.  Safnaráð lítur á ýmsar stofnanir sem ?setur? eða ?sýningar? og telur að slíkar stofnanir ættu ekki að reyna að skilgreina sig sem söfn en þess í stað að koma á góðu samstarfi við byggðasafnið á svæðinu.  Rætt var um þörfina á því að safnaráð setti fram endanlega skilgreiningu á því hvað væri safn og þyrfti sú skilgreining að vera þrengri en sú sem sett er fram í safnalögum.  Þau söfn sem falli undir þessa þröngu skilgreiningu eigi þá rétt á rekstrarstyrk frá ráðinu en önnur ?söfn? geti e.t.v. átt möguleika á verkefnastyrk.

7.      Drög að nýju umsóknareyðublaði fyrir styrkumsóknir 2004.  Eyðublaðið var samþykkt með smávægilegri breytingu á einum lið.

8.      Hönnun safna/nauðsynleg þjónusta m.t.t. aðgengi allra – drög.  Frestað til næsta fundar.

9.      European Museum of the Year Award 2004, Síldarminjasafnið á Siglufirði.  Samþykkt var að senda Síldarminjasafninu formlegt skjal þar sem því er tilkynnt um tilnefninguna til verðlaunanna.  Kynnt bréf frá safnstjóra þar sem óskað er eftir styrk til að klára sýninguna í Gránu fyrir komu sendinefndar EMYA í sumar/haust. 

10.  Hugmynd að Frumkvöðlaverðlaunum/Árangursverðlaunum safnaráðs.  Frestað til næsta fundar.

11.  Styrkveitingar úr safnasjóði 2003. 
      ·        Úthlutunarreglur safnasjóðs

RHÞ afhenti safnaráði úthlutunarreglur ráðsins sem samþykktar höfðu verið af menntamálaráðherra.

·        Grasagarður

Kynnt drög að stofnskrá frá Grasagarði.  Rætt um möguleika Grasagarðsins á rekstrarstyrki.  Þar sem Grasagarðurinn er deild undir Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar úrskurðaði safnaráð stofnunina óhæfa til að hljóta rekstrarstyrk, enda sótti stofnunin ekki um rekstrarstyrk að þessu sinni.  Samþykktur var verkefnastyrkur til Grasagarðsins.

·        ICOM – Verkefnastyrkur

Rætt var um umsókn ICOM um verkefnastyrk og fjallað um umsókn Félags íslenskra safna f. farskólann um leið.  Þessir aðilar falla augljóslega ekki undir safnalög og ættu því lögum samkvæmt ekki að hljóta styrk úr safnasjóði.  Formaður safnaráðs, MH og fulltrúi menntamálaráðuneytis, RHÞ voru á einu máli um það að nauðsyn bæri á að leysa þetta mál þannig að ICOM hlyti styrk úr safnasjóði enda hefði gleymst að gera ráð fyrir þessari safnastarfsemi við gerð safnalaga.  RHÞ benti á ákvæði úthlutunarreglna safnasjóðs þar sem stendur að safnaráð úthluti styrkjum til óskilgreindra verkefna sem ráðið telur styrkhæf hverju sinni.  Safnaráð ákvað að þar sem málin eru að þróast og jafnt verið er að aðlaga lög að veruleika sem veruleika að lögum hljóti þessir aðilar verkefnastyrki í ár.    

·        Leikminjasafn

Rætt var um óskir forráðamanna Leikminjasafns um rekstrarstyrk á árinu.  Þar sem safnið var ekki stofnað þegar sótt var um styrk og ekki var sótt um rekstrarstyrk var ákveðið að veita einungis verkefnastyrk.

·        Skáksamband Íslands

Þar sem umsókn Skáksambands Íslands barst safnaráði ekki fyrr en í apríl 2003 verður hún  færð yfir til næsta árs

·        Athugað erindi frá Minjasafni Egils Ólafssonar

Fjallað var um erindi frá Minjasafni Egils Ólafssonar en erindið var ætlað Endurbótasjóði menningarstofnana sem lagður hefur verið niður.  Menntamálaráðuneytið sendi safnaráði umsóknina til skoðunar.  Erindið fjallar um umsókn um styrk til ljúka uppsetningu öryggiskerfis í safninu.  Þar sem erindið barst Safnaráði svo seint var ákveðið að taka það til skoðunar með umsóknum næsta árs.    JÁ fór af línunni meðan þetta erindi var rætt.

·        Ósk um styrk frá Síldarminjasafninu.

Fjallað var um ósk Síldarminjasafns um styrk til að ljúka bræðsluminjasýningunni í Gránu fyrir komu sendinefndar EMYA í sumar/haust.  Ákveðið var að veita safninu 100.000 kr. aukalega í verkefnastyrk vegna þessa.

Rætt var um úthlutanir almennt séð.  Safnaráð var sammála um að söfn sem rekin eru sem hluti af stærri einingu hljóti í framtíðinni stærri rekstrarstyrki til að komið verði til móts við þessa hagræðingu í rekstri, sem felur í sér aukin rekstrarumsvif.  Safnaráð stefnir einnig að því að í framtíðinni verði tekið meira tillit til fjárhagslegs bolmagns og getu safna við veitingu rekstrarstyrkja en safna verður upplýsingum um rekstur safna til að þetta sé mögulegt.  Þessum upplýsingum verður safnað með umsóknareyðublaði fyrir 2004 og fylgigögnum sem því skulu fylgja.  Samþykktar voru úthlutanir úr safnasjóði fyrir árið 2003.

12.  Erindi til Safnaráðs:
·        Erindi ætlað Endurbótasjóði, sem lagður hefur verið niður, frá Minjasafni Egils Ólafssonar – sjá umræðu í lið 11.
·        Staðgengill Þjóðminjavarðar í safnaráði.
Fjallað var stuttlega um þetta atriði, engin breyting verði á.

13.  Ferðalag út á land og skýrsla starfsmanns.
Fjallað var um hugmynd sem reifuð var á fundi safnaráðs þann 27. febrúar um að safnaráð ?leggðist í víking? – færi stutta ferð út á land til að heimsækja söfn.  Þetta yrði fyrsti liður í framkvæmd hugmyndar um að ráðið kynni sér starfsemi safna á landsbyggðinni.  Upp kom sú tillaga að halda næsta fund úti á landi, afráðið verður um það síðar en ÓK benti á að ákjósanlegt er að reynt verði eftir megni að halda þá fundaáætlun sem sett hefur verið fram fyrir árið.
MH bar upp þá hugmynd að starfsmaður kynni í skýrsluformi á fundum þá starfsemi ráðsins sem fram hefur farið milli funda.  Í skýrslunni yrði fjallað um heimsóknir starfsmanns á söfn og helstu þætti starfseminnar á umræddu tímabili.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:20/RH