Fundargerð 61. fundar Safnaráðs, 11. september 2007, kl. 11:30 – 13:00,
Þjóðminjasafni Íslands v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

Viðstödd voru: Margrét Hallgrímsdóttir, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Karl Rúnar Þórsson, Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir

1. Fundargerðir 59. fundar og 60. fundar samþykktar og undirritaðar.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Ráðningasamningur starfandi framkvæmdastjóra kynntur. Fundur norrænnar nefndar um safnamál í Osló í maí. Að beiðni Safnaráðs fór starfandi framkvæmdastjóri á fundinn. Markmið fundarins var að finna farveg fyrir samvinnu norrænna stofnana sem fara með safnamál í hverju landi. Engin niðurstaða hefur verið kynnt en sérstaka athygli vakti finnskt verkefni sem stuðlar á að stuðla að aukinni meðvitund starfsmanna um safnastarf og auknum gæðum á starfsemi safna og hjálpaði söfnum að forgangsraða í starfseminn. Einnig vakti athygli áherslan sem ABM-utvikling í Noregi lagði á mikilvægi öflugrar útgáfuraðar á vegum stofnunarinnar sem nýttist jafnt til þess að mennta safnmennina sjálfa og sem tæki til þess að auka skilning yfirvalda á safnastarfi.  Tímabundinn útflutningur menningarminja Tvær umsóknir um útflutning menningarminja bárust Safnaráði í sumar: Umsókn Dr. Guðrúnar Sveinbjarnardóttur verkefnastjóra Reykholtsrannsóknar um tímabundinn útflutning glerbrota vegna rannsókna. Umsókn Listasafns Íslands á tímabundnum útflutningi á málverki Svavars Guðnasonar, Íslandslag, í tengslum við uppsetningu sýningarinnar Cobra-Reykjavík í Danmörku og Noregi. Báðar umsókninrar höfðu verið samþykktar. Vefsíða Safnaráðs: Kynning á verkefninu safnastarf.is sem er u.þ.b. að ljúka. Endanlegur kostnaður við hönnun og smíði heimasíðunnar var kynntur og fyrirhuguð ritstjórnarstefna Safnaráðs fyrir safnastarf.is. Skýrslan Menntunarhlutverk safna. Skýrslan sem er lokaafurð samráðsverkefnis sem Safnaráð hafði frumkvæði að er nú tilbúin. Hún verður gerð aðgengileg á pdf formi á heimasíðu Safnaráðs fljótlega. Sigrún Kristjánsdóttir fagstjóri safnfræðslu á Þjóðminjasafni hefur unnið mikið starf í tengslum við skýrsluna og leggur til ásamt frkv.stj. að útgáfumál Safnaráðs verði skoðuð í heild sinni og m.a. hugað að samræmdu útliti skýrslna og ristjórnarstefnu. Umræðan verður tekin upp í tengslum við vinnufund Safnaráðs 9. október n.k. Íslenski safnadagurinn. Niðurstaða könnunar meðal safnmanna var kynnt. 34 svör bárust frá fulltrúum safna. 88% svarenda telja aðsóknina vera ?mun betri? eða ?betri? en á venjulegum sunnudegi og tæp 83% að aðsóknin sé ?mun betri? eða ?betri? en á venjulegri helgi. Tæp 80% svarenda segja starfsfólk safnanna almennt vera ánægt með safnadaginn.

3. Ársreikningu Safnaráðs 2006 Ársreikningur síðasta árs var undirritaður af öllum viðstöddum aðalfulltrúum og frkv.stj. í tveimur eintökum. Ársreikningar verða sendir Ríkisendurskoðun þegar allir aðalfulltrúar hafa undirritað reikninginn.

4. Nefndarlaun. Í samræmi við ákvörðun Safnaráðs á 60. fundi þess lagði frkv.stj fram drög að bréfum til þóknananefndar þar sem óskað er eftir útskýringu á því hvers vegna nefndarlaun til fulltrúa hagsmunasamtaka voru lækkuð. Einnig var samþykkt að óska eftir upplýsingum um frá Mrn. um greiðslur ráðuneytisins til sambærilegra nefnda. Ákveðið var að frkvst. ræddi við Eirík Þorláksson og Svein Kristinsson áður en bréf yrðu send til ofannefndra aðila. 

5. Vettvangsferð Safnaráðs. Vettvangsferð Safnaráðs sem skv. fundaráætlun átti að vera 26.-27.nk. verður frestað. Ákveðið var að halda heilsdags vinnufund 9. október n.k. þar sem starfsemi og hlutverk Safnaráðs verður rætt á breiðum grunni. 62. fundur safnaráðs verður haldinn sama dag kl. 11:30-13:00.

6. Safnafræði við Háskóla -viljayfirlýsing. Í samræmi við ákvörðun Safnaráðs á 60. fundi þess lagði Starfshópur um uppbyggingu meistaranáms fram stutta viljayfirlýsingu um áframhaldandi stuðning Safnaráðs við áform hópsins að koma á MA námi í safnafræði við HÍ. Í yfirlýsingunni kemur fram að Safnaráð telur aukna menntun safnamanna vera mikið hagsmunamál íslenskra safna og mikilvæga forsendu fyrir eflingu faglegs safnastarfs í landinu. Safnaráð lýsi jafnframt yfir áframhaldandi vilja til þess að stuðla að því að söfn landsins og starfsfólk þeirra taki virkan þátt í kennslu og handleiðslu nemenda, taki á móti nemendum í starfsnám og að gagnasöfn safna megi nýtast til rannsókna á söfnum og safnastarfi. Safnaráð samþykkti viljayfirlýsinguna.

7. Farskóli FÍSOS verður haldinn dagana 18.-21. september í Skotlandi. Samþykkt var að frkv.stj. kynni þar eftirfarandi verkefni á vegum Safnaráðs: heimasíðuna www.safnastarf.is (Opnast í nýjum vafraglugga), áform um uppbyggingu safnafræðináms á MA stigi við HÍ (ásamt Karli Rúnari) og skýrslu safnaráðs um menntunarhlutverk safna (ásamt Sigrúnu Kristjánsdóttur). Þó má vera að vegna aðstöðuleysis í Skotlandi verði ekki hægt að koma slíkri kynningu við.

8. Málefni Náttúruminjasafn Íslands. Helgi Torfason forstöðumaður safnsins kynnti stöðu mála, fór stuttlega yfir sögu Náttúrugripasafns Íslands og reifaði stöðu og eðli náttúruminja/tæknisafna og sýninga  í nágrannalöndunum. Ákveðið var að Náttúruminjasafnið og málefni þess verði ýtarlega rædd á vinnufundi Safnaráðs 9. október n.k.

9. Höfundaréttarmál Knútur Brun hefur óskað eftir því við Safnaráð að haldinn verður sérstakur aukafundur sem fjalli eingöngu um höfundarréttarmál á söfnum. Safnaráð samþykkti að bjóða Knúti að mæta á næsta fund Safnaráðs sem haldinn verður 9. október n.k. Samþykkt var að frkvst. skipi samráðsnefnd um höfundarréttarmál á söfnum.

10. Minjasafn Kristjáns Runólfssonar. Lýður Pálsson safnstjóri Byggðasafns Árnesinga hefur kynnt sér málið að beiðni frkv.stj. í framhaldi af erindi formanns bæjarráðs Hveragerðisbæjar á 58. fundi Safnaráðs. Þar sem fram kom að Kristján Runólfsson hefur í hyggju að selja safngripi Minjasafnsins á opnum markaði. Því óskaði Hveragerðisbær eftir stuðningi Safnaráðs við að bjarga þeim menningarverðmætum sem um ræðir. Kristján Runólfsson var með starfsemi á Sauðárkróki á árunum 1987-2004, ýmisst í eða án samstarfs við Byggðasafnið. Á grundvelli minnispunkta frá Lýði og gagna sem frkv.stj. hefur aflað frá Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga var ákveðið að frkv.stj. myndi áfram vinna í málinu. Ákveðið var að hafa  samband við Menntamálaráðuneytið og leitaði þar ráða. Einnig var ákveðið að leita lögfræðiálits hjá Ernu s. Árnadóttur hrl.

11. Erindi Tæknisafn Íslands – undirbúningsnefnd. Erindinu var frestað fram á næsta fund ráðsins 9. október.

12. Stofnskrá Hönnunarsafns Íslands. Erindinu var frestað fram á næsta fund ráðsins 9. október.

13. Næsti fundur og önnur mál.
Næsti fundur var ákveðinn 9. október n.k. í tengslum við heils dags vinnufund Safnaráðs.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/AÞÞ