Fundargerð 59. fundar Safnaráðs, 9. maí 2007, kl. 11:30 – 13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík

Viðstödd voru: Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Karl Rúnar Þórsson, Sveinn Kristinsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerðir 57. og 58. fundar voru samþykktar og undirritaðar. 

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Samvinna ICOM og Safnaráðs. Í samræmi við ákvörðun 58. fundar átti frkv.stj. fund með Lilju Árnadóttur, formanni Íslandsdeildar ICOM, til að ræða aukið samstarf ICOM og Safnaráðs. Skv. Lilju telur yfirstjórn ICOM jákvætt ef Safnaráð leitast við að fá stofnanaaðild að samtökunum. Frkv.stj. mun rita menntamálaráðuneyti bréf og óska eftir afstöðu þess. ICOM og Safnaráð munu leita leiða til að efla samstarf sitt í framtíðinni. Fundur samstarfsnefndar aðila frá opinberum, norrænum safnastofnunum í Osló í maílok. Af óviðráðanlegum sökum mun MH ekki geta sótt fundinn. Samþykkt var að óska eftir því að Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, sem leysa mun frkv.stj. af í barnsburðarleyfi, sæki fundinn fyrir hönd Safnaráðs. Umsókn John Steinberg um leyfi til útflutnings menningarverðmæta, frá 2005. Svar barst frá John Steinberg, en hann staðfestir að hætt var við útflutning minjanna. Norræn samvinna um aðgengismál. Frkv.stj. átti fund með Ingemar Oderstedt, forsvarsmanni samnorræna verkefnisins Kultur for alla. Ingemar flutti erindi um aðgengismál og kynnti verkefnið á málstofu Safnaráðs um aðgengi að söfnum í febrúar 2006. Ingemar óskaði eftir því að þjóðminjavörður tilnefndi einhvern starfsmanna sinn sem fulltrúa Íslands í verkefninu. MH mun tilnefna fulltrúa fyrir næsta fulltrúafund. Endurskoðun íslenskrar atvinnugreinaflokkunar. Safnaráði barst erindi frá hagstofustjóra þar sem auglýst var eftir athugasemdum fyrir 30. apríl við nýja atvinnugreinaflokkun ÍSAT 95. Frkv.stj. hafði engar athugasemdir og óskaði eftir athugasemdum ráðsmanna rafrænt. Safnaráð gerði engar athugasemdir við enduskoðunina. Vefsíða Safnaráðs. Frkv.stj. vinnur að endurhönnun vefsíðu Safnaráðs í samræmi við nýtt lógó ráðsins og ákvarðanir fyrri funda. Hildigunnur Gunnarsdóttir er hönnuður vefsíðunnar en Kristján Gunnarsson hjá EC-hugbúnaði hefur umsjón með forritun.

3. Aðalfundur European Museum Forum 2007 í Alicante í maí. MH, formaður Safnaráðs, sótti fundinn. Telur MH European Museum Forum vera mikilvægan vettvang til að efla samskipti og samstarf við söfn og safnastofnanir í Evrópu. 

4. Erindi frá menntamálaráðuneyti – Beiðni til íslensku UNESCO nefndarinnar frá Taylor og Francis Group um framlag frá Íslandi í næstu útgáfu ?Encyclopedia of Library and Information Sciences?. Guðrún Helgadóttir hjá menntamálaráðuneyti hafði samband við frkv.stj. og óskaði eftir innleggi um safnastarf í samræmi við beiðni Taylor og Francis Group. Frkv.stj. kynnti málið. Safnaráð taldi erindið ekki vera þess eðlis að það félli undir hlutverk ráðsins að svara því. Vísað var til þess að óskað er eftir því í bréfi Taylor og Francis Group að ráðuneytið tilnefni höfund að grein í Encyclopedia … sem Taylor og Francis Group geri síðan samning við um skrifin. Samþykkti ráðið að frkv.stj. sendi ráðuneytinu stutta samantekt um safnamál á íslensku sem höfundur gæti stuðst við. Ekki var samþykkt að frkv.stj. eyddi meiri tíma í erindið, nema að samningur yrði sérstaklega gerður við hann af Taylor og Francis Group, sem félli þá utan starfshlutfalls hans hjá Safnaráði.

5. Málefni Byggðasafns og Listasafns Vestmannaeyja. Í frh. af umræðu á síðasta fundi var rætt um erindi frá fyrrum safnstjóra Byggðasafns Vestmannaeyja, sem sagt hefur verið upp störfum með vísun í rekstrarlegar forsendur. Samþykkti Safnaráð að senda Bæjarstjórn Vestmannaeyja bréf þar sem óskað er upplýsinga um málið með vísan til þess að ráðið hefur afgreitt rekstrarstyrk til safnsins úr Safnasjóði fyrir árið 2007, en meðal skilyrða fyrir rekstrastyrk er að safnið hafi forstöðumann í a.m.k. 50% starfi. 

6. Náttúrusöfn – umsóknir um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 og 2007 vegna skráningarkerfis fyrir náttúrugripasöfn. Skv. ákvörðun 58. fundar átti frkv.stj. fund með forsvarsmönnum Náttúrufræðistofu Kópavogs, sem sóttu um verkefnastyrk fyrir hönd náttúrugripasafna á þessu ári og fulltrúa Náttúrufræðistofnunar, til að ræða verkefnið og skilyrði fyrir styrkveitingu. Í framhaldi skilaði Náttúrufræðistofa Kópavogs inn nýrri umsókn um verkefnið. Safnaráð samþykkti að veita 2 millj. kr. verkefnastyrk úr Safnasjóði til verkefnisins. Óskað verður eftir nákvæmri greinargerð um framvindu verkefnisins.

7. Handbók um varðveislu gripa – ósk um samstarf við Safnaráð. Samþykkt var að taka málið aftur upp á næsta fundi.

8. Næsti fundur og önnur mál.
Næsti fundur skv. nýrri fundaáætlun er fimmtudaginn 7. júní n.k. kl. 11:30-13:00.
Önnur mál:
1 Ný staðsetning funda. Samþykkt var að halda fundi ráðsins í framtíðinni að jafnaði í Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands, þar sem þjóðminjavörður, formaður Safnaráðs, hefur aðsetur.
2 Nefndarlaun. Ítrekaðar óskir Safnaráðs um útreikning nefndarlauna fulltrúa hagsmunasamtaka í ráðinu hafa borið árangur. Nefndarlaun verða að öllum líkindum greidd fyrir næsta fund.
3. Málefni nýstofnaðs Náttúruminjasafns Íslands. Náttúruminjasafn Íslands var stofnað með lögum nr. 35/2007. Helgi Torfason hefur verið ráðinn sem forstöðumaður hins nýstofnaða safns og mun hann á næstunni taka sæti JGÓ í Safnaráði lögum samkvæmt. Lóð sem skv. deiliskipulagi sem staðfest var 28. september 1999 er merkt Náttúruminjasafni Íslands, hefur verið gefin Listaháskóla Íslands til afnota eða sölu. Safnaráð ræddi um hlutverk hins nýstofnaða höfuðsafns á sviði náttúruminja skv. lögum um safnið, m.a. með hliðsjón af  4. gr. safnalaga nr. 106/2001 um starfsemi safns. Samþykkti ráðið að senda menntamálaráðuneyti bréf.
4. Sérsamningar um fjárframlög menntamálaráðuneytis til safna. Rætt var um samninga sem menntamálaráðuneyti hefur gert við söfn og setur án aðkomu Safnaráðs. Samþykkti Safnaráð að óska eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneyti um sérsamninga um fjárframlög til safna og setra sem gerðir hafa verið af menntamálaráðuneyti það sem af er árs 2007. Í bréfinu verði bent á að Safnaráð telji faglega aðkomu ráðsins að slíkum samningum mikilvæga þegar litið er til heildarstefnumótunar um fjárveitingar ríkis til verkefna á sviði íslenskra safnamála.
5. Endurskoðun safnalaga – staða. Safnaráð samþykkti að óska eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneyti um stöðu á endurskoðun safnalaga.
6. Samþykkt ríkisstjórnarfundar frá föstudeginum 4. maí um lausn húsnæðismála Náttúrufræðistofnunar Íslands. Safnaráð fagnaði samþykktinni en skv. henni er lausn húsnæðismála Náttúrufræðistofnunar væntanlega fyrirsjáanleg á þessu ári.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH