Fundargerð 60. fundar Safnaráðs, 14. júní 2007, kl. 11:30 – 13:00,
Þjóðminjasafni Íslands v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

Viðstödd voru: Margrét Hallgrímsdóttir, Helgi Torfason, Karl Rúnar Þórsson, Sveinn Kristinsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerð 59. fundar verður samþykkt og undirrituð á næsta fundi ráðsins. 

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Fundur nefndar um samstarfsverkefni ERA-NET um rannsóknir á menningararfi. Að beiðni menntamálaráðuneytis sótti formaður (MH) fundinn, sem haldinn var í Róm 21. maí 2007. Verkefnið var kynnt forsvarsmönnum stofnana sem koma að meðhöndlun menningararfsins á fundi hjá RANNÍS 6. mars  sl. Samþykkt var á þeim fundi að skoða nánar aðild að verkefninu. Í framhaldi af fundinum í Róm var það mat MH að eðlilegast væri að Fornleifavernd ríkisins tæki að sér að stýra verkefninu fyrir Íslands hönd. Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, sem leysir frkv.stj. af í væntanlegu barnsburðarleyfi, hefur verið skipuð í íslenska starfshópinn um verkefnið fyrir hönd Safnaráðs. Breyting á skipan Safnaráðs. Skv. bréfi frá menntamálaráðuneyti , dags. 21. maí 2007, hefur Dr. Helgi Torfason, nýskipaður forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, tekið sæti Jóns Gunnars Ottóssonar í Safnaráði. Skipunin gildir frá og með 1. júní 2007 út núgildandi skipunartíma ráðsins, sem er til 1. nóvember 2009. Helgi var boðinn velkominn til starfa með ráðinu. Umsókn EMF vegna EMYA2008 til mrn og Safnaráðs um styrk vegna heimsóknar dómnefndar. Safnaráð staðfesti fyrri ákvörðun um að hið tilnefnda safn sjái um umræddan kostnað, en safninu var tilkynnt um það við tilnefninguna. Nefndarlaun. Þóknananefnd menntamálaráðuneytis hefur ákvarðað nefndarlaun til fulltrúa hagsmunasamtaka í Safnaráði vegna tímabilsins apríl 2005 – apríl 2007. Safnaráð samþykkti að óska eftir nánari skýringu á útreikningi nefndarinnar á nefndarlaunum vegna setu í ráðinu, en nefndarlaun hafa ekki verið hækkuð þrátt fyrir ósk ráðsins um endurskoðun þeirra (dags. 14. desember 2005 og ítrekuð 26. október 2006). Norræn samvinna um aðgengismál. Þjóðminjavörður (MH) hefur tilnefnt Bryndísi Sverrisdóttur, nýjan sviðsstjóra miðlunar hjá Þjóðminjasafni Íslands, sem fulltrúa Íslands í verkefninu. Vefsíða Safnaráðs. Unnið er að endurhönnun.

3. Sérsamningar um fjárframlög til safna og setra árið 2007. Í samræmi við ákvörðun síðasta Safnaráðsfundar var óskað eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneyti um sérsamninga um fjárframlög til safna og setra, án aðkomu Safnaráðs. Svar barst frá menntamálaráðuneyti. Rætt var um svarið og samþykkt að senda ráðuneytinu bréf þar sem undirstrikað er mikilvægi góðs samstarfs og upplýsingaflæðis milli Safnaráðs og ráðuneytisins.  

4. Málefni Náttúruminjasafns Íslands. Í samræmi við ákvörðun síðasta Safnaráðsfundar sendi Safnaráð menntamálaráðuneyti bréf um málefni hins nýja höfuðsafns, Náttúruminjasafns Íslands. Svar barst frá menntamálaráðuneyti. Rætt var um svarið og samþykkt að senda ráðuneytinu nýtt bréf þar sem undirstrikað er mikilvægi góðs samstarfs og upplýsingaflæðis milli Safnaráðs og ráðuneytisins.  

5. Auglýst eftir styrkjum úr Safnasjóði 2008. Auglýst er eftir styrkjum úr Safnasjóði 2008 í júní þessa árs í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Sveitarstjórnartíðindum, Lögbirtingablaðinu, á vefsíðu Safnaráðs og Safnlistanum, tölvupóstlista safnmanna. Umsóknareyðublöð vegna ársins 2008 eru aðgengileg á vefsíðu Safnaráðs, eða á skrifstofu ráðsins að Laufásvegi 12, 101 Reykjavík. 

6. Handbók um varðveislu gripa – ósk um samstarf við Safnaráð. Erindi barst frá Nathalie Jacqueminet, fagstjóra forvörslu Þjóðminjasafni Íslands, þar sem óskað er eftir samstarfi Safnaráðs um útgáfu almennrar handbókar um varðveislu gripa. Safnaráð var á einu máli um að um áhugavert verkefni og verðugt framtak væri að ræða. Hins vegar taldi ráðið að um gæti verið að ræða heppilegt samstarfsverkefni höfuðsafna. Styrkveitingar úr Safnasjóði eru háðar skilyrðum safnalaga nr. 106/2001, en skv. lögunum eiga höfuðsöfn og önnur söfn sem rekin eru af ríkinu ekki kost á styrkjum úr Safnasjóði. Ræddi ráðið í framhaldi um möguleika tengda útgáfunni sjálfri og taldi rafræna útgáfu hentuga. Lýsti Safnaráð sig reiðubúið til að hýsa slíka útgáfu á heimasíðu ráðsins og taka þátt í kynningu og dreifingu hennar þaðan.

7. Næsti fundur og önnur mál.
Næsti fundur skv. fundaáætlun 2007 er fimmtudaginn 30. ágúst n.k. kl. 11:30-13:00.
Önnur mál:
1 Safnafræði við Háskóla Íslands – staða. Starfshópur um uppbyggingu meistaranáms í safnafræði við Háskóla Íslands samþykkti á fundi sínum þann 5. júní 2007 að óska eftir formlegum viljayfirlýsingum frá þeim aðilum sem lýst hafa yfir stuðningi við verkefnið. Viljayfirlýsingarnar verða notaðar við öflun fjármagns til uppbyggingar námsins, en vöntun á fjármagni haftrar því að verkefnið fari í framkvæmd. Óskað var eftir viljayfirlýsingum frá Safnaráði, Félagi íslenskra safna og safnmanna, Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, Náttúruminjasafni Íslands, Minjasafni Reykjavíkur, Félagi íslenskra safnafræðinga og menntamálaráðuneyti. Safnaráð samþykkti að óska eftir því að starfshópurinn setti fram stutta viljayfirlýsingu, sem ráðið og aðrir aðilar sem lýst hafa yfir stuðningi við verkefnið geti metið með tilliti til undirritunar.
2 Endurskoðun safnalaga – staða. Í samræmi við ákvörðun síðasta Safnaráðsfundar var óskað eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneyti um stöðu á endurskoðun safnalaga, sem nú fer fram í ráðuneytinu. Svar barst frá menntamálaráðuneyti. Í svari ráðuneytisins kemur fram að starfshópur sem ráðuneytið skipaði til að endurskoða þjóðminjalög nr. 107/2001 í nánu samhengi við safnalög nr. 106/2001, lög um húsafriðun nr. 104/2001 og lög um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa nr. 105/2001, hefur lokið störfum og skilaði tillögum sínum til ráðherra 30. apríl sl. Afrakstur starfsins eru eftirfarandi tillögur að frumvörpum til þrennra laga, en tillögurnar eru nú til umfjöllunar hjá ráðuneytinu:
? Frumvarp til laga um verndun menningarminja – þjóðminjalög
? Frumvarp til safnalaga
? Frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa  

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH