Fundargerð 55. fundar Safnaráðs, 18. janúar 2007, kl. 11:30 – 13:00, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík.
 
 
Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Karl Rúnar Þórsson, Sveinn Kristinsson og Rakel Halldórsdóttir.
 
1.      Fundargerð 54. fundar verður undirrituð á næsta fundi.

2.      Skýrsla framkvæmdastjóra. Málstofa Safnaráðs með Erni Hrafnkelssyni, 10. janúar sl., kl. 12-13 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands gekk vel og var mæting góð. Örn kynnti niðurstöður mastersverkefnis síns í opinberri stjórnsýslu en verkefnið ber heitið Samvinna bóka-, minja- og skjalasafna og skoðar m.a. möguleika á aukinni samvinnu safna hérlendis. Héraðsnefnd Þingeyinga hefur óskað eftir úttekt framkvæmdastjóra á starfi, stöðu, stefnu og möguleikum safna Þingeyinga í samráði við þjóðminjavörð og Sigríði Sigurðardóttur, forstöðumann Byggðasafns Skagfirðinga. Fyrirhugað er að stofna Menningarmiðstöð Þingeyinga, sem öll söfn Þingeyinga verði hluti af. Samstarfsnefnd aðila frá opinberum, norrænum safnastofnunum, sem skipuð var fyrir niðurlögn Norrænu safnanefndarinnar um síðustu áramót mun hittast á fyrsta fundi í Osló 23. og 24. maí n.k. Framkvæmdastjóri var skipuð í nefndina, en mun að öllum líkindum ekki eiga þess kost að mæta á fundinn. Rætt var um að verðandi formaður Safnaráðs eða einhver ráðsmanna færu í stað framkvæmdastjóra, nánar verður ákveðið um það síðar. Rædd var hugmynd Gísla Sverris Árnasonar, að Safnaþingi vor 2007. Ákveðið var að skoða hugmyndina nánar síðar, e.t.v. í haust. Greinargerðir um nýtingu styrkja úr Safnasjóði 2006 hafa borist frá söfnum, en frestur til að skila greinargerðinni var gefinn til áramóta.
 
3.      Málþing Safnaráðs um rafrænt aðgengi að menningar- og náttúruarfi í mars 2007. Málþing um rafrænt aðgengi sem áætlað var í febrúar verður fært til 14. mars 2007. Safnaráð fjallaði um drög að dagskrá málþingsins. Unnið verður áfram að skipulagi málþingsins.
 
4.      Fundaáætlun 2007. Drög að fundaáætlun 2007 voru rædd. Ráðsmenn munu skila athugasemdum við drögin fyrir næsta fund.
 
5.      Rekstraráætlun 2007 og þjónustusamningur. Rekstraráætlun 2007 var samþykkt. Þjónustusamningur Safnaráðs, f.h. Safnasjóðs og Listasafns Íslands var samþykktur.
 
6.      European Museum of the Year Award 2008. Samþykkt var að tilnefna Minjasafn Reykjavíkur fyrir hina nýju viðbót, Landnámssýninguna 871+/-2 við Aðalstræti til European Museum of the Year Award 2008. Minjasafni Reykjavíku verður formlega tilkynnt um tilnefninguna.
 
7.      Umsóknir í Safnasjóð 2007. Umsóknir í Safnasjóð 2007 voru ræddar. Ákveðið var að hafa úthlutunarfund 1. febrúar n.k., er stefnt að því að ljúka úthlutunum á þeim fundi.
 
8.      Útflutningur verka eftir Kjarval á sýningu í Danmörku. Safnaráð samþykkti að heimila útflutning menningarverðmætanna. Málinu verður vísað til samþykkis hjá menntamálaráðherra skv. 7. gr. safnalaga nr. 106/2001.
 
9.      Erindi menntamálaráðuneytis varðandi drög að stefnu stjórnvalda í fornleifavernd, ásamt greinargerð. Safnaráð samþykkti umsögn. Ekki eru gerðar athugasemdir við drög að stefnunni.
 
10. Útflutningur menningarverðmæta. Erindi þar sem óskað var tímabundins útflutnings gripa úr fornleifauppgreftri á Hrísbrú í Mosfellsdal 2006, var sent Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins til umsagnar. Umsagnir beggja hafa borist. Safnaráð samþykkti að heimila tímabundinn útflutning.
  
11. Náttúrusöfn – umsókn um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 vegna skráningarkerfis fyrir náttúrugripasöfn. Málinu hefur verið frestað á síðustu fundum þar sem umbeðnar upplýsingar frá menntmálaráðuneyti hafa ekki borist. Málinu var enn frestað. Rætt var um mikilvægi þess að svar berist frá menntamálaráðuneyti fyrir úthlutunarfund 2007.

12. Næsti fundur og önnur mál.

Næsti fundur, úthlutunarfundur 2007, var ákvarðaður 1. febrúar n.k.
Önnur mál:
Óafgreidd erindi Safnaráðs hjá menntamálaráðuneyti:
Eftirfarandi erindi Safnaráðs eru óafgreidd hjá menntamálaráðuneyti:
  
1. Ósk um afstöðu menntamálaráðuneytis til fjárveitinga fjárlaganefndar til safnastarfs – dags. 16. nóvember 2004
2. Ósk um úrskurð varðandi túlkun safnalaga m.t.t. þess hvort stofnun er rekin í hagnaðarskyni eður ei – dags. 11. júlí 2005
3. Ósk um endurskoðun nefndarlauna fulltrúa hagsmunasamtaka í Safnaráði – dags. 14. desember 2005.Ósk ítrekuð: 23. október 2006
4. Ósk um ákvörðun og ítrekuð ósk um endursk. nefndarlauna fulltrúa hagsmunasamtaka í Safnaráði – dags. 26. október          2006.
5. Ósk um formlegan rökstuðning menntamálaráðuneytis á munnlegum óskum ráðuneytisins varðandi bið með styrk vegna         þróunar skráningarkerfis fyrir náttúrugripasöfn – dags. 31. mars 2006. Ósk ítrekuð: 27. apríl 2006, 16. maí 2006, 4. október 2006, 29. nóvember 2006 og 16. janúar 2007
 

Rætt var um mikilvægi þess að svör berist frá menntamálaráðuneyti við þeim erindum Safnaráðs sem er ósvarað í ráðuneytinu. Mikilvægt er að svör berist fyrir 1. febrúar vegna málefnis um skráningarkerfi fyrir náttúrugripasöfn, jafnframt er mikilvægt að svör berist sem allra fyrst við erindi Safnaráðs frá desember 2005 þar sem óskað er endurmats á nefndarlaunum fulltrúa hagsmunasamtaka í Safnaráði. Samþykkt var að framkvæmdastjóri óski eftir fundi með Karítas Gunnarsdóttur í menntamálaráðuneyti til að ýta eftir afgreiðslu erindanna í ráðuneytinu.

 
100 ára afmæli Þjóðminjalaga.

Þann 14. nóvember n.k. eru 100 ár liðin frá setningu þjóðminjalaga. Safnaráð fjallaði um málið í tengslum við yfirstandandi endurskoðun laga um þjóðminjavörsluna, m.a. þjóðminjalaga, safnalaga og laga um útflutning menningarverðmæta. Hefur endurskoðunin staðið yfir í nokkurn tíma, en Safnaráð kom hugmyndum sínum varðandi endurskoðun safnalaga á framfæri við nefnd um endurskoðun laganna á einum fundi með nefndinni, þann 5. desember 2005. Safnaráði hafa ekki borist upplýsingar um núverandi stöðu endurskoðunarinnar. Væri afmæli þjóðminjalaga hinn 14. nóvember n.k. tilvalið tækifæri til kynningar á nýjum lögum um þjóðminjavörsluna.
 
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH