Fundargerð 44. fundar Safnaráðs 12. desember 2005, kl. 11:30-12:45,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík  

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Karl Rúnar Þórsson og Rakel Halldórsdóttir.

1.       Fundargerð 43. fundar var samþykkt og undirrituð.

2.       Skýrsla framkvæmdastjóra.  Framkvæmdastjóri skýrði frá starfsemi frá síðasta fundi.  Nokkuð hefur liðið frá síðasta fundi þar sem formleg skipun Safnaráðs rann út 15. september 2005. 
Nýtt Safnaráð var skipað frá 1. nóvember 2005 – 1. nóvember 2009 og bárust tilnefningar bréflega síðustu vikuna í nóvember.  Ráðið skipa áfram hinir lögbundnu fulltrúar; forstöðumenn höfuðsafnanna þriggja, Margrét Hallgrímsdóttir – þjóðminjavörður, Ólafur Kvaran – safnstjóri Listasafns Íslands og Jón Gunnar Ottósson – forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands.  Skipaðir fulltrúar hagsmunasamtaka í ráðinu til næstu fjögurra ára eru Karl Rúnar Þórsson, formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, fulltrúi félagsins og Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórar á Akranesi, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarstjórna.  Fulltrúar hagsmunasamtaka í Safnaráði þiggja nefndarlaun sem metin eru af þóknananefnd, fyrir störf sín í Safnaráði.  Nefndarlaunin hafa verið metin lágt og samþykkti ráðið að óska eftir endurskoðun á þeim m.t.t. umfangs þess starfs sem fylgir fulltrúastöðu í Safnaráði.    
Ársreikningur Safnasjóðs 2004 liggur nú fyrir.  Ársskýrsla Safnaráðs 2004 liggur einnig fyrir, en skv. ákvörðun frkv.stj. og formanns mun ársskýrslan verða í vefútgáfu að þessu sinni og verður aðgengileg á vefsíðu Safnaráðs innan tíðar. 
Svör við nokkrum eldri erindum Safnaráðs hafa borist frá menntamálaráðuneyti.  1) Erindi varðandi bókhaldsþjónustu fyrir Safnasjóð.  Ráðuneytið telur ekki þörf á sérstakri bókhaldsþjónustu fyrir Safnasjóð og mun  því halda áfram að greiða reikninga sjóðsins.  2) Athugasemdir við lög nr. 105/2001.  Ráðuneytið vinnur nú að endurskoðun laganna og ráðgert er að samráð verði haft við Safnaráð.  3)  Erindi varðandi möguleika Safnaráðs á að vísa í samþykktir ICOM, alþjóðaráðs safna við rökstuðning vegna ákvarðana.  Ráðuneytið benti á að við gerð frumvarps til safnalaga voru samþykktir ICOM hafðar til hliðsjónar.
Erindi afgreidd milli funda.  Tvö erindi, annað frá Byggðasafni Skagfirðinga og hitt frá Fornleifastofnun Íslands, varðandi útflutning menningarverðmæta voru afgreidd af formanni milli funda eftir að leitað hafði verið umsagnar Fornleifaverndar ríkisins og forvarða Þjóðminjasafns Íslands.   Með tilliti til og með hliðsjón af umsögnum sérfræðinga þessara stofnana voru leyfi til útflutnings veitt í báðum tilfellum.  Erindi frá Skriðuklaustursrannsóknum, er varðaði útflutning dýrabeina (þ.e. dýrafræðilegra eintaka, sbr. 2. gr. laga nr. 105/2001), var vísað til afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í samræmi við lögin.

Unnið er nú að endurbótum á vefsíðu Safnaráðs, en vefsíðan verður flutt í nýtt, aðgengilegra umhverfi. 
Málþing Safnaráðs um menntunarhlutverk safna þann 21. október 2005 gekk vel.  Gerð var könnun á viðhorfum málþingsgesta varðandi framkvæmd og framgang málþingsins, en niðurstöðurnar gáfu til kynna að málþingið hafi náð þeim markmiðum sem því var sett og munu þær jafnframt nýtast við framkvæmd sambærilegra viðburða í framtíðinni.  Erindi málþingsins verða aðgengileg á vefsíðu Safnaráðs innan tíðar.
Borist hafa 63 umsóknir í Safnasjóð v. ársins 2006.  Safnasjóður er 83,7 millj. á árinu 2006, eða hefur hækkað um 17,7 millj. frá 2005.  Stefnt er að því að ljúka úthlutun úr sjóðnum v. 2006 fyrir janúarlok 2006.

European Museum of the Year Award 2007.  Í samræmi við verklagsreglur samþ. á fundi Safnaráðs 10. febrúar 2005, hefur frkv.stj. leitað eftir tillögum að tilnefningu safns til samkeppni Evrópuráðs safna árið 2007.  Þeir aðilar sem senda inn tillögur eru höfuðsöfnin (Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands) og hagsmunaaðilar; Félag íslenskra safna og safnmanna og ICOM, alþjóðaráð safna á Íslandi. Enn er beðið svara frá hluta þessara aðila.

3.       Breytingar á safnalögum.  Safnaráð átti fund með endurskoðunarnefnd safnalaga í menntamálaráðuneytinu þann 5. desember sl.  Endurskoðunarnefndina skipa Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, Sólveig Georgsdóttir og Guðmundur Hálfdanarson.  Nánara samráð varðandi breytingar á lögunum er fyrirhugað.

4.       Uppbygging Safnarfræðideildar við HÍ.  Safnaráð fjallaði um erindi aðstandenda safnafræðideildar við HÍ þar sem óskað er eftir samvinnu Safnaráðs um uppbyggingu deildarinnar.  Safnaráð lýsti yfir áhuga yfir verkefninu, sem er í samræmi við verklagsreglur og áherslur ráðsins í þá átt að efla menntun safnafólks og leiðir til menntunar.  Taldi ráðið þó afstöðu Félagsvísindadeildar vera óljósa í erindinu og samþykkt var að óska eftir formlegu erindi þar sem afstaða deildarinnar kemur fram.

5.       Umsögn v. umsóknar Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla um byggingarstyrk skv. 11. gr. safnalaga.  Menntamálaráðuneyti óskaði eftir umsögn Safnaráðs v. umsóknar safnsins í samræmi við 11. gr. safnalaga.  Framkvæmdastjóri og formaður fengu tækifæri til að skoða umrætt, nýtt geymsluhúsnæði safnsins á ferð sinni um Snæfellsnes með starfsfólki Listasafns Íslands þann 3. október 2005.  Safnaráð samþykkti húsnæði með fyrirvara um að brunavörnum og forvörslu verði sinnt á fullnægjandi hátt og stofnkostnað í samræmi við umsókn.

6.       Umsögn v. umsóknar Veiðisafnsins um byggingarstyrk skv. 11. gr. safnalaga.  Menntamálaráðuneyti óskaði eftir umsögn Safnaráðs v. umsóknarinnar í samræmi við 11. gr. safnalaga.  Safnaráð samþykkti húsnæði með fyrirvara um að brunavörnum og forvörslu verði sinnt á fullnægjandi hátt og stofnkostnað í samræmi við umsókn, en vakin skuli athygli á því að kostnaðaráætlun er langt undir viðmiðum þeim er ráðið hefur frá Framkvæmdasýslu ríkisins.

7.       Fundaáætlun 2006.  Fundaáætlun fyrir árið 2006 var rædd.  Ráðsmenn munu skoða dagskrár sínar og senda athugasemdir fyrir vikulok.

8.       Næsti fundur og önnur mál.  Ekki eru áætlaðir fleiri fundir á árinu 2005.  Hugmynd að næsta fundi er 12. janúar 2006.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 12:45/RH