Fundargerð 38. fundar Safnaráðs 24. febrúar 2005, kl. 12:00-13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Sigrún Ásta Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir og Rakel Halldórsdóttir.  

1.   Fundargerð 37.  fundar samþykkt og undirrituð.  Klárað að undirrita fundargerð 36. fundar.

2.   Skýrsla framkvæmdastjóra.  Rætt var um fund úthlutunarnefndar Safnasjóðs þann 21. febrúar sl.  Umfjöllun um úthlutanir 2005 var ekki lokið á fundinum en annar fundur nefndarinnar var boðaður.  Framkvæmdastjóri kynnti Handbók skrifstofu Safnaráðs, sem inniheldur leiðbeiningar um verkefni skrifstofu Safnaráðs og verklag.  Handbókin er sífellt í uppfærslu en verður send ráðsmönnum í núverandi mynd. 

3.   NODEM ráðstefna 2006.  Fjallað var um NODEM (Nordic Digital Excellence in Museums) ráðstefnu sem áætlað hafði verið að halda á Íslandi 2006.  Jóhann Ásmundsson, f.v. ráðsmaður í Safnaráði sem lést 31. desember 2004, var í forsvari fyrir verkefnið f.h. Félags íslenskra safna og safnmanna, en ákveðið var á 31. Safnaráðsfundi þann 18. júní 2004 að höfuðsöfnin skyldu koma að ráðstefnunni.  Samþykkt var  að óska eftir því við NODEM að hlutverki Íslands sem framkvæmdaaðila ráðstefnunnar yrði frestað, þar sem enginn ráðsmanna eða félaga í stjórn FÍSOS hefur aflað sér þeirrar yfirsýnar á starfsemi NODEM sem Jóhann hafði og sem talin er nauðsynleg.  SÁJ mun vera í sambandi við forsvarsmenn NODEM varðandi þessa niðurstöðu.

4.   Reglugerð um 4. og 7. gr. safnalaga og breytingar á safnalögum.  Rætt var um niðurstöður lögfræðiráðgjafar sem Safnaráð leitaði eftir varðandi túlkun á ákveðnum atriðum í Safnalögum frá Róbert R. Spanó, lögfræðingi og dósent við HÍ.  Samþykkt var að leita annars álits á einu atriði við túlkun laganna, sem Safnaráð telur grundvallaratriði í starfi ráðsins.  Leitað verður til Páls Hreinssonar, lagaprófessors og sérfræðings í stjórnsýslurétti.  Umfjöllun um tillögu að reglugerð um lögin verður frestað þar til niðurstaða liggur fyrir.

5.   Málþing Safnaráðs um menntunarhlutverk safna.   Rætt var lítillega um megináherslur málþingsins.  ÓK mun setja saman tillögu að heildarhugmynd málþingsins og gera lista yfir  erlenda fyrirlesara.  Stefnt er að því að hvort tveggja verði tilbúið um miðjan mars.  Stefnt er á að kynna málþingið í apríl n.k.

6.   Næsti fundur og önnur mál. 
Næsti fundur Safnaráðs skv. fundaáætlun er 31. mars.  Úthlutunarnefnd Safnasjóðs  mun funda 3. mars n.k.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH