Fundargerð 41. fundar Safnaráðs 28. apríl 2005, kl. 10:00-12:10,
Þjóðminjasafni Íslands, Suðurgötu 41, 101 Reykjavík

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Sigrún Ásta Jónsdóttir, Gísli Sverrir Árnason og Rakel Halldórsdóttir.

1.   Fundargerðir 38., 39. og 40. fundar voru samþykktar og undirritaðar.

2.   Skýrsla framkvæmdastjóra.  Í rökstuðningi Safnaráðs til Nonnahúss bauð ráðið forsvarsmönnum stofnunarinnar til fundar til að ræða hlutverk stofnunarinnar og framtíðarsýn.  Forstöðumaður Nonnahúss hefur þegið fundarboðið.  Var framkvæmdastjóra falið að funda með forstöðumanni Nonnahúss.  Í framhaldi af samþykkt síðasta fundar kannaði frkv.stj. möguleika á skjalavinnslukerfi fyrir Safnaráð.  Kom í ljós að hlutdeild í skjalakerfi Listasafns Íslands myndi fela í sér of mikla samtvinnun og erfiðleika í því sambandi ef skrifstofa Safnaráðs yrði flutt.  Hópvinnukerfi ehf. gerði Safnaráði tilboð í Focal skjalakerfi.  Tilboðið miðast við takmörkun skjalakerfisins miðað við lítinn rekstur þó möguleikinn á viðbótum sé inni í myndinni.  Með hliðsjón af lagaskyldu varðandi varðveislu opinberra gagna samþykkti Safnaráð að taka tilboðinu.  Borist hafa fleiri erindi v. úthlutunar, sem svarað hefur verið.  Fjallað var um umræðu í kjölfar úthlutunar og jákvæð ummæli menntamálaráðherra í Morgunblaðinu 22. apríl sl.  Samþykkt var að athuga með framgang erindis dags. 18. nóv. 2004, þar sem Safnaráð leggur til við menntamálaráðuneyti að settur verði á hóp vinnuhópur til endurskoðunar á samþykkt um aðgangseyri að ríkissöfnum.

3.   Vettvangsferð Safnaráðs á Norðurland vestra og Safnaráðsfundur 17. – 18. maí 2005.  Samþykkt var að ferðin yrði farin.

4.   Áskorun Héraðsnefndar Strandasýslu um endurúthlutun.  Safnaráð fjallaði um málið.

5.   Áskorun frá Íslandsdeild ICOM um íslenska safnadaginn.  Íslandsdeild ICOM hefur hingað til haldið utan um kynningu á íslenska safnadeginum.  Samþykkt var að höfuðsöfnin tækju að sér að vekja athygli á starfsemi safna með sameiginlegri auglýsingu höfuðsafnanna á íslenska safnadeginum.

6.   Breyting á safnalögum nr. 106/2001.  Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu að breytingu á safnalögum.  Var tillagan rædd.  Framkvæmdastjóra var falið að gera nýja tillögu þar sem gert verði ráð fyrir endurvakningu svipaðs kerfis og þess sem var í gildi með reglugerð nr. 334 um þjóðminjavörslu.  Kerfið felur í sér að landinu er skipt upp í átta minjasvæði en á hverju svæði verði starfandi milliliður milli höfuðsafna og safna um landið.  Þessir milliliðir fái launastyrki greidda úr ríkissjóði og hafi yfirumsjón og eftirlit með minjavörslu á sínu ábyrgðarsvæði.  Þeir geri jafnframt tillögur um styrkveitingar úr Safnasjóði til stofnana í safnastarfi á sínu ábyrgðarsvæði.

7.   Málþing Safnaráðs 2005 um menntunarhlutverk safna.  Fjallað var stuttlega um málið.  Um verður að ræða dagsþing með 2 erlendum fyrirlesurum f.h. og íslenskri greiningu á efninu e.h. með 1-2 íslenskum fyrirlesurum.  Panelumræður verði í framhaldi af fyrirlestrum eftir hádegi.  Rætt var um að fá menntamálráðherra til að halda ávarp í upphafi málþings og óska eftir því við mrn. að ráðuneytið bjóði til kokteils að málþingi loknu.  Áfram verður unnið að skipulagningu málþingsins.  

8.   Næsti fundur og önnur mál. 
Önnur mál: 

·         Ályktun FÍSOS varðandi úthlutun úr Safnasjóði 2005.  Efni ályktunarinnar var rætt.

·         Umsögn v. umsóknar Flugsafnsins á Akureyri um byggingarstyrk skv. 11. gr. safnalaga.  Frkv.stj. var falið að leita álits forvarða Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifaverndar ríkisins m.t.t. varðveisluhæfni húsnæðis fyrir safngripi.  Safnaráð telur þörf á heildarstefnumótun á sviði varðveislu flugminja í landinu.  Um er að ræða tegund varðveislu þar sem kostnaðar- og rýmisþörf er mikil og því brýnt að samvinna og hagræðing sé haft að leiðarljósi áður en ráðist er í miklar framkvæmdir.  Erindið verður afgreitt á næsta fundi.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 12:10/RH