Þriðjudaginn 26. maí 2020 kl. 13-15
Staðsetning: Safnahúsið

Viðstödd á staðnum: Ólafur Kvaran, formaður, Helga Lára Þorsteinsdóttir, Haraldur Þór Egilsson, Sigríður Björk Jónsdóttir og Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri. Viðstödd með fjarfundarbúnaði: Anna Sigríður Kristjánsdóttir, Harpa Þórsdóttir og Margrét Hallgrímsdóttir. Hilmar Malmquist forfallaðist.

1. Mál til kynningar

  1. Yfirlit yfir starfsemina frá síðasta fundi.
  2. Könnun um COVID-19 OG SÖFN. Kynntar voru fyrstu niðurstöður úr könnun sem safnaráð sendi til viðurkenndra safna og ríkissafna þar sem kallað var eftir upplýsingum um breyttar rekstrarforsendur safnanna og viðbrögð við C-19. Könnunin er samstarfsverkefni safnaráðs, höfuðsafna, ICOM og FÍSOS, á ábyrgð safnaráðs og safnaráð heldur utan um gögnin. Könnunin var send til 51 safns og bárust svör frá 47 söfnum.
  3. Hagstofa – samstarf um tölfræðilegar upplýsingar. Safnaráð og Hagstofa Íslands eru að ganga frá formlegu samstarfi um söfnum tölfræðilegra upplýsinga um safnastarf á Íslandi. Samstarfið byggir á því að Hagstofan fær ákveðnar upplýsingar sem safnaráð fær frá viðurkenndum söfnum úr Árlegri skýrslu viðurkenndra safna og birtir undir Talnaefni á vefsíðu sinni. Einnig mun safnaráð fá aðgang að öðrum tölfræðilegum upplýsingum um safnastarfsemi á landinu, sem Hagstofan safnar.
  4. Úttektarskýrsla vegna 3. hl. eftirlits. Kynnt voru drög að úttektarskýrslu vegna 3. hluta eftirlitsins – eftirlit með skráningu safna.

2. Mál til ákvörðunar

  1. Ársskýrsla safnaráðs 2019. Þessum lið var frestað til næsta fundar.
  2. Aukaúthlutun safnasjóðs 2020. Samþykkt var flýtt aukaúthlutun safnasjóðs 2020 sem er að þessu sinni u.þ.b. hálfu ári fyrr á ferðinni en venjulega, enda er brýn þörf hjá söfnum vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Í aukaúthlutun safnasjóðs 2020 geta eingöngu viðurkennd söfn sótt um styrk, eingöngu er tekið á móti einni umsókn frá hverju viðurkenndu safni og er hámarksupphæð hverrar umsóknar 2 milljónir kr. Til úthlutunar verða a.m.k. 40 milljónir króna og skal nýta styrkupphæðina á árinu 2020. Að þessu sinni verður aukaúthlutun með öðru sniði, styrkurinn er til eflingar á faglegu starfi safnanna og umsækjandi merkir við alla þá faglegu þætti sem styrkurinn myndi efla, (a. Söfnun, b. Skráning – almenn, b. Skráning – höfundaréttur, c. Varðveisla, d. Rannsóknir, e. Miðlun – sýning, e. Miðlun – stafræn miðlun, e. Miðlun – útgáfa, e. Miðlun – önnur, f. Safnfræðsla eða Annað). Opnað verður fyrir umsóknir í síðasta lagi föstudaginn 25. maí og er umsóknarfrestur til kl. 16.00 föstudaginn 12. júní 2020. Eins og venjan er þá verða umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur ekki teknar til greina.

3. Önnur mál

Önnur mál ekki rædd.

Fundi slitið 14:50 / ÞBÓ