Fundargerð 72. fundar Safnaráðs 12. júní, kl. 15:00 – 17:00

Þjóðminjasafni Íslands v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerð 71. fundar var samþykkt og undirrituð.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Safnastarf.is. Skráningum safna, setra og sýninga á upplýsingavefsíðuna safnastarf.is, sem Safnaráð heldur úti, fer fjölgandi. Stofnanirnar sjálfar sjá um skráningu, viðhald og uppfærslu upplýsinga á síðunni með aðgangsorði. Íslenski safnadagurinn 2008. Skráning í auglýsingu fyrir Íslenska safnadaginn 2008 gengur vel. Unnið er að kynningarmálum. Uppbygging meistararnáms í safnafræði við HÍ. Boðið verður upp á meistaranám í safnafræði við félagsvísindadeild HÍ frá hausti 2009. Kynning námsins er hafin. Vefsíða um námið er í vinnslu hjá HÍ (frkv.stj. hefur sent inn upplýsingatexta fyrir vefsíðu).  Vettvangsferð Safnaráðs 2008. Ferðin verður farin 18. og 19. ágúst n.k. Viðbrögð Safnaráðs við svari menntamálaráðuneytis við ósk Safnaráðs um fund með formanni fjárlaganefndar. Í frh. af ósk Safnaráðs barst svar frá Eiríki Þorlákssyni í menntamálaráðuneyti þar sem bent er á að stofnunum og sjóðum sé óheimilt að fara á fund nefndarinnar. Bréf hefur verið sent EÞ og bent á að ráðið hafi hingað til starfað eftir þeirri reglu en það hafi í huga samráð Húsafriðunarnefndar og fjárlaganefndar um fjárveitingar á sviði húsafriðunar. Telur Safnaráð mikilvægt að stuðla að betri faglegri nýtingu fjármuna og samræmdum vinnubrögðum með sambærilegu samráði Safnaráðs og fjárlaganefndar. Ennfremur óskaði Safnaráð eftir upplýsingum um það hvaða samþykkt væri verið að vísa í í tenglsum við umrædda reglu ráðuneytisins. Svar hefur ekki borist frá mrn. Auglýst eftir umsóknum í Safnasjóð 2009. Auglýsing vegna umsókna í Safnasjóð 2009 birtist í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu sunnud. 15. júní. Auglýst er einnig á Safnlistanum (13. júní), í Sveitastjórnartíðindum, Lögbirtingablaðinu og á vefsíðu Safnaráðs www.safnarad.is.

3. Höfundarréttarmál safna. Frkv.stj. kynnti upplýsingar frá lögfræðingi varðandi málið. Lögfr.leggur til, í ljósi samkeppnislaga, að í stað þess að unninn verði heildarsamningur á þessu sviði, vinni Safnaráð tillögu að samningi sem söfnin geti svo nýtt í beinum samningi við Myndstef.  Samþykkt var að lögfr. héldi áfram vinnu við málið á þeim nótum. Safnaráð leggur til að það verði umsagnaraðili að hverjum samningi. Ennfremur lagði ráðið til að fram kæmu í samningsdrögum hugmyndir að upphæðum í samræmi við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Þá er jafnframt mikilvægt að skoða mun á tilgangi með nýtingu myndefnis (í fræðsluskyni vs. í auglýsingaskyni).

4. Viðurkenningarskjal – tillögur hönnuðar. Frkv.stj. kynnti tillögur hönnuðar (Hildigunnar Gunnarsdóttur) að viðurkenningarskjali til safna sem hljóta styrki úr Safnasjóði, í samræmi við hugmyndir Safnaráðs. Safnaráð samþykkti útfærslu og kostnaðaráætlun.

5. Umsókn um útflutning sýna úr mannabeinum til kolefnisgreiningar. Fjallað var um erindi Hildar Gestsdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands, þar sem óskað er leyfis til útflutnings sýna úr mannabeinum til kolefnisgreiningar. Óskað hefur verið eftir umsögnum Þjóðminjasafns og Fornleifaverndar ríkisins. Jákvæð umsögn Þjóðminjasafns hefur borist. Samþykkt var að heimila útflutninginn ef jákvæð umsögn berst einnig frá Fornleifavernd ríkisins.

6. Þjónustusamningur milli Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna og Verslunarminjasafnsins á Hvammstanga. Fjallað var um erindi Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna þar sem óskað er umsagnar Safnaráðs á drögum að þjónustusamningi safnsins við Verslunarminjasafnið á Hvammstanga. Safnaráð gerir ekki efnislegar athugasemdir við drögin.

7. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur Safnaráðs er skv. fundaáætlun hluti af vettvangsferð Safnaráðs mánudag og þriðjudag 18.-19. ágúst n.k.

Önnur mál:

* Umsókn um leyfi til tímabundins útflutnings listaverka á sýningu í Danmörku. Safnaráði barst erindi frá Valgerði Hauksdóttur, Listasafni Íslands, þar sem óskað er leyfis til að senda tímabundið úr landi þrjú listaverk eftir Sigurjón Ólafsson. Í samræmi við samþykki og meðmæli HBR, safnstjóra LÍ, samþykkti Safnaráð útflutninginn og að málið yrði sent menntamálaráðherra til endanlegrar afgreiðslu í samræmi við 7. gr. safnalaga nr. 106/2001.

* Upplýsingahefti fyrir söfn vegna umsókna í Safnasjóð 2009. Frkv.stj. kynnti drög að Upplýsingahefti fyrir söfn v. umsókna í Safnasjóð 2009. Safnaráð samþykkti drögin.

* Fagleg skráning. Safnaráði hafa borist, skv. ósk ráðsins, leiðbeiningar til safna frá Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands, um faglega skráningu safngripa og listaverka.

* Umsögn vegna erindis um meðferð skotvopna. MH kynnti umsögn Þjóðminjasafns um erindi vegna meðferðar skotvopna, sem rætt var um á síðasta fundi.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH