Fundargerð 66. fundar Safnaráðs, 15. janúar, kl. 15:00 – 17:00

Þjóðminjasafni Íslands v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Karl Rúnar Þórsson, Sveinn Kristinsson Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir

1. Fundargerð 65. fundar samþykkt og undirrituð.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra:

Safnastefna Safnaráðs og höfuðsafna. Vinna við undirbúning safnastefnu kynnt fyrir Safnaráði. Safnastefna á sviði þjóðminjavörslu 2003-2008 verður grunnforsenda vinnunnunnar. Skipa þarf nefnd með fulltrúum allra höfuðsafna. Ákveðið að vinna jafnframt stefnu Safnaráðs.

Tölfræði Hagstofunnar Starfandi frkvstj. hefur verið í sambandi við Hagstofu Íslands vegna opinberra tölfræðiupplýsinga um söfn. Áætlað er að taka upp samvinnu Safnaráðs og Hagstofu um upplýsingaöflun og úrvinnslu. Fundað verður fulltrúa Hagstofunnar á næstunni.

EMYA 2009  Stjórn Íslandsdeildar ICOM tilnefnir ekki íslenskt safn til verðlaunana árið 2009. Svarið er samhljóða svari höfuðsafna og stjórn FÍSOS. Þar með mun ekkert íslenskt safn verða tilnefnt til verðlaunana árið 2009.

Útflutningur sýna úr fornleifauppgröftrum  Starfandi frkvstj. vinnur að gerð samnings milli Safnaráðs og Fornleifaverndar ríkisins og verklagsreglur í samræmi við ákvörðun síðasta fundar. Drög að samningi og verklagsreglum kynnt á fundinum og mun frkvstj. senda gögnin áfram til Fornleifaverndar til frekari umræðna.

Stofnskrár safna. Starfandi frkvstj. vinnur áfram að málinu. Gögnin verða lögð fram til samþykktar á fundi Safnaráðs 14. febrúar n.k.

Grein um söfn og varðveislu. Starfandi frkv.stj. vinnur að grein um söfn og menningatengda ferðaþjónustu sem mun birtast síðar á árinu í Ritinu.

Íslenski safnadagurinn 2008.  Starfandi frkv.stj. leggur til að íslenski safnadagurinn verði helgaður varðveisluhlutverki safna. Slíkt þema er í samræmi við aukna áherslu Safnaráðs á innra starf safna og í samræmi við umræður í nefnd Íslenska safnadagsins 2007. Tillagan var samþykkt og frkvstj. falið að koma hugmyndinni áleiðis.

3. Fjárhagsáætlun Safnaráðs 2008. Safnasjóði hefur verið úthlutað á fjárlögum 2008 87,7 m.kr. sem er 4% hækkun frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir að kostnaður af rekstri skrifstofu, fundahaldi og ýmissa samráðsverkefna verði 9.56 m.kr. sem er 2% hækkun frá fyrra ári. Skipting samþykkt svo og fjárhagsáætlun Safnaráðs 2008.

4. Nýting styrkja 2007/ Umsóknir í safnasjóð 2008. Rætt um fyrirkomulag úthlutunarfundar 1. febrúar n.k.

5. Hugmyndir Giorgos Samaras um skólistasafn. Tillaga Samaras þessa efnis var send  Safnaráði af Eiríki Þorlákssyni sérfræðingi menntamálaráðuneytis. Safnaráð sammála um að fremur væri um að ræða sýningu en safn og hugmynd Samaras um skólistasafn á Íslandi þar með utan verksviðs Safnaráðs.

6. Hönnun á útliti staðfestingaskjals. Tillaga hönnuðarins rædd og var frkvstj. falið að halda áfram með málið.

7. Svar frá þóknananefnd. Svar hefur borist frá þóknananefnd við ítrekaðri ósk Safnaráðs um upplýsingar frá ráðuneytinu um upphæð nefndarlauna til fjölskipaðra stjórnvalda- og stjórnsýslunefnda sem starfa á vegum menntamálaráðuneytis og eru sambærilegar Safnaráði. Enn á ný hefur þóknananefnd valið að misskilja beiðnina og vísar til reglna ráðuneytisins um greiðslna í staðinn fyrir að veita umbeðnar upplýsingar.

8. Fjárlög skulu endurspegla safnalög. Safnaráð samþykkti bréf til formanns fjárlaganefndar. Í bréfinu eru gerð athugasemd við fjárlagalið 02-919 Söfn, ýmis framlög á Fjárlögum 2008 þar sem fjárlagaliðurinn endurspeglar ekki 4.gr. safnalaga nr 106/2001. Safnaráð telur mikilvægt að það fjármagn sem tilgreint er í Fjárlögum undir liðnum söfn renni óskert til þess að efla og styrkja starfsemi íslenskra safna og að söfnum sem starfa að varðveislu og miðlun á íslenskum menningararfi en sé ekki ruglað saman við sýningarstarfsemi sem oftar en ekki er skyldari menningartengdri ferðaþjónustu.

9. Aðgangseyrir að söfnum. Safnaráð sendi menntamálaráðuneytinu erindi 18. nóvember 2004 um að ráðuneytið skipaði starfshópu til þess að skoða möguleika þess að fella niður aðgangseyri að ríkssöfnum. Í svari frá ráðuneytinu 2. maí 2006 kom fram að erindið yrði tekið til skoðunar þegar árangur af tilraunaverkefni Listasafns Íslands um niðurfellingu aðgangseyris hafi verið metinn. Frkvstj. falið að kanna í hverju árangursmælingin er fólgin og að koma gögnum til ráðuneytis ef á þarf að halda.

10. Svar menntamálaráðuneytis við ályktun safnaráðs um nafnbótina Ísland. Á fundi 2. nóvember 2006 ákvað Safnaráð að senda menntamálaráðherra ályktun þar sem lagt var til að ráðuneytið mótaði stefnu um heimildir til notkunar nafnbótarinnar Ísland í heiti stofnana á sviði safna- og/eða menningarstarfs. Heimildin verði einungis veitt þegar um er að ræða stofnun sem formlega hefur verið veitt hlutverk á landsvísu á starfssviði stofnunarinnar. Safnaráði hefur nú borist svar frá ráðherra sem hafnar ályktun Safnaráðs þar sem lagaheimildir skortir.

11. Erindi Evu G. Þorvaldsdóttur forstöðumanns Grasagarðsins í Reykjavík. Farið er fram á frest til ársins 2009 til þess að nýta verkefnastyrk frá árinu 2007. Erindinu er hafnað þar sem Safnaráði er eingöngu heimilt að veita leyfi til frestunar á nýtingu styrkjar um eitt ár. Grasagarðinum er bent á að sækja um verkefnastyrk að nýju á næsta ári.

12. Erindi frá nefndarsviði Alþingis. Umsögn um frumvarp til myndlistarlaga. Frumvarpið rætt ýtarlega og frkvstj. í kjölfarið falið að vinna athugasemdir í samráði við formann Safnaráðs.

13. Erindi frá nefndarsviði Alþingis. Umsögn um fjögur frumvörp til laga um Grunnskóla, Framhaldsskóla, Leikskóla og Menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda. Frumvörpin rædd og frkvstj. falið að koma á framfæri almennri athugasemd um menntunarhlutverk safna og mikilvægi þess að skólar nýti sér söfn í kennslu.

14. Erindi frá Listasafni Íslands. Óskað eftir leyfi til útflutnings á 5 verkum Kjarvals sem falla undir lög nr 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi. Verkin verða hluti af sýningu á verkum íslenskra myndlistamanna sem haldin verður í sýningarhöllinni Bozar í Brussel í Belgíu. Safnaráð veitir heimild til útflutnings. Jafnframt veitti Safnaráð Þjóðminjasafni Íslands heimild til tímabundins útflutnings 14 útskorna horna. Starfandi frkvstj. falið að senda erindin til ráðherra sem þarf að samþykkja útflutning safngripa áður en Safnaráð getur gefið út útflutningsleyfi.

15. Önnur mál:  Næsti fundur ráðsins er úthlutunarfundur sem haldinn verður í samræmi við fundaráætlun föstudaginn 1. febrúar n.k. kl. 12:00-17:00.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/AÞÞ