Fundargerð 23. fundar Safnaráðs, Lyngási 7-9, 210 Garðabæ,
27. nóvember 2003, kl. 11:30.
Viðstödd voru: Ólafur Kvaran, Sigrún Ásta Jónsdóttir, Anna Guðný Ásgeirsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.
1. Fundargerð 22 fundar samþykkt og undirrituð. Fáeinar undirritanir vantar á fundargerðir 22., 21. og 20. fundar og bíða þær næsta fundar.
2. Skýrsla framkv.stjóra. Framkvæmdastjóri skýrði frá starfsemi ráðsins frá síðasta fundi. Skrifstofa Safnaráðs hefur verið flutt í Þjóðminjasafnshúsið við Suðurgötu. Skrifstofan er á jarðhæð, í björtu og opnu rými. Breytingartillaga á frv. til fjárlaga, sem fjallaði um 22 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Safnasjóðs (þingskj. 435 – 1. mál), var felld á Alþingi.
3. Erindi til Safnaráðs:
a. Erindi Reykjavíkurborgar, f.h. Minjasafns Reykjavíkur, um byggingarstyrk til byggingar sýningarskála fyrir landnámsminjar við Aðalstræti. Áframhaldandi umfjöllun frá 22. fundi. Skv. 11. grein safnalaga er það hlutverk Safnaráðs að samþykkja fyrirhugað húsnæði og stofnkostnað þess. Erindinu var vísað til umfjöllunar hjá Fornleifavernd ríkisins varðandi það hvort húsnæðið uppfylli kröfur um verndun fornleifa. Jákvætt svar barst frá Fornleifavernd. Varðandi stofnkostnað var erindinu vísað til skynmats hjá Fasteignum ríkissjóðs. Fasteignir ríkissjóðs hafa svarað erindinu og telja sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á raunhæfi kostnaðaráætlunarinnar og vísa á Framkvæmdasýslu ríkisins. Ákveðið var að vísa erindinu til faglegs mats hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.
b. Erindi Hólarannsóknar um beiðni til að flytja forngripi og dýrabein, úr fornleifauppgröftum Hólarannsóknar, tímabundið úr landi í rannsóknarskyni. Leitað var umsagnar Fornleifaverndar ríkisins varðandi þær fornleifar sem fyrirhugað er að flytja úr landi og heimilar Fornleifavernd útflutninginn fyrir sitt leyti. Ákveðið var að heimila útflutning fornleifanna, annarra en dýrabeina, þar sem Náttúrufræðistofnun heimilar útflutning náttúrugripa skv. 2. gr. laga nr. 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa og 15. gr. laga nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
4. Þjónustusamningur. Undirritun frestað þar sem menntamálaráðuneyti hefur ekki lokið umfjöllun um samninginn.
5. Ársreikningur Safnasjóðs 2002. Komið hefur í ljós að 3 millj. kr. rangfærsla er í ársreikningi Safnasjóðs fyrir árið 2002. Unnið er að því hjá menntamálaráðuneyti að finna skýringu á rangfærslunni. Ríkisendurskoðun hefur óskað eftir því að reikningurinn verði undirritaður og leiðrétting gerð á árinu 2003 og samþykkt var því að formaður undirriti reikninginn og hann verði sendur Ríkisendurskoðun. Greinargerð um rangfærsluna verði látin fylgja. Unnið verði áfram að því að finna orsök rangfærslunnar og gerð verði leiðrétting í ársreikningi fyrir árið 2003.
6. Fundaáætlun 2004. Samþykkt var ný fundaáætlun fyrir árið 2004. Aukafundir verði haldnir eftir þörfum.
Næsti fundur var áætlaður þann 18. desember.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH