Föstudaginn 19. febrúar 2021 – kl. 11.00-13.30
Staðsetning: Safnahúsið og Teams

Viðstödd: Vilhjálmur Bjarnason, formaður, Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, Helga Lára Þorsteinsdóttir, Hlynur Hallsson (á Teams), Inga Lára Baldvinsdóttir, Harpa Þórsdóttir (á Teams), Álfheiður Ingadóttir (á Teams f.h. Hilmars Malmquist), Margrét Hallgrímsdóttir, Klara Þórhallsdóttir, starfsmaður safnaráðs og Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri.

1. Mál til kynningar

  1. Ráð boðið velkomið. Nýtt safnaráð var boðið velkomið, en það er skipað frá 1. febrúar 2021 til 31. janúar 2025. Farið var stuttlega yfir helstu verkefni ráðsins. Fyrir fundinn höfðu ráðsmenn fengið sendar Upplýsingamöppu fyrir ráðsmenn og Ársskýrslu safnaráðs 2019.
  2. Ráð fer yfir stjórnarsetur og hagsmunatengsl. Enginn ráðsmaður fyrir utan einn hefur hagsmuna að gæta í umsögnum um umsóknir í safnasjóð. Hlynur Hallsson er safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og mun því ekki sitja í matsnefnd umsókna.
  3. Yfirlit yfir starfsemi ráðsins frá síðasta fundi. Framkvæmdastjóri sagði frá þátttöku sinni í samráðshópi fyrir Menningarstefnu stjórnvalda til 2030. Safnaráð ásamt safnstjórum Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns sendu sameiginlega erindi til sóttvarnaryfirvalda um fjölgun safngesta og í kjölfarið var aukinn gestafjölda í 150 manna hámarksfjölda í rými.
  4. Tækniminjasafn Austurlands. Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði er stórskemmt eftir að aurskriða féll á stóran hluta húsakosts safnsins í desember 2020. Safnaráð veitti 1 milljón króna í neyðarstyrk til björgunar safnkosts. Hófst vinna við hreinsun og björgun á safnkostinum um miðjan janúar og er það samvinnuverkefni Austurbrúar (sem er samráðsvettvangur sveitarfélaga á Austurlandi), Tækniminjasafns Austurlands, safna á Austurlandi, Borgarsögusafns, Þjóðskjalasafns, safnaráðs og Þjóðminjasafns Íslands sem veitir ráðgjöf sem höfuðsafn og ber ábyrgð á skipulagi og umsýslu f.h. stjórnvalda. Mörg söfn hafa góðfúslega lánað sérfræðinga sína til að taka þátt í hreinsunar- og björgunarstörfum. Fyrir hönd safnaráðs er Ingibjörg Áskelsdóttir forvörður sem er í eftirlitsnefnd safnaráðs hópstjóri í hreinsunarstarfinu og fær ráðið skýrslur um framvindu verkefnisins.
  5. COVID-19 og áhrif á safnastarf. Nýtt safnaráð fékk afhenta skýrslu sem ráðið gaf út síðasta sumar í samstarfi við ICOM á Íslandi og FÍSOS auk niðurstöðu könnunar sem safnaráð stóð fyrir meðal safna síðasta haust. Staða safna hefur verið erfið síðast árið. Rekstrarfé flestra safna hefur dregist mjög mikið saman, um allt að 75% og bjargráðir litlar, sér í lagi hjá þeim söfnum sem eru sjálfseignarstofnanir, er það meðal niðurstaðna í könnun sem safnaráð stóð fyrir meðal safna um áhrif COVID-19 á söfn hér á landi. Söfn á Íslandi hafa ekki fengið neinn beinan stuðning frá stjórnvöldum í kjölfar COVID-19 og komið hefur í ljós að sá stuðningur sem á að gagnast fyrirtækjum og öðrum aðilum í rekstrarerfiðleikum vegna aðstæðna geta ekki nein viðurkennd söfn nýtt sér, vegna strangra reglna sem fram koma í lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru nr. 38/2020 og túlkunar Ríkisskattstjóra á því hverjir geti nýtt sér úrræðin. Þar með talið eru lokunarstyrkir stjórnvalda og stuðningslán. Auk þess hefur verið tekið fyrir frá 1. júní síðastliðnum, að söfn geti nýtt sér hlutabótaleið atvinnuleysissjóðs, sem mörg söfn sem eru sjálfseignarstofnanir nýttu sér vegna tekjufalls. Enn sem komið er hefur enginn annar fjárhagsstuðningur ríkisins komið til viðurkenndra safna en úr safnasjóði.
  6. Nýtt viðurkennt safn – Kvikmyndasafn Íslands. Á grundvelli tillögu safnaráðs ákvað mennta- og menningarmálaráðherra, þann 28. janúar síðastliðinn, að veita Kvikmyndasafni Íslands viðurkenningu. Safnaráði er falið að tilkynna Kvikmyndasafni Íslands þessa ákvörðun, og senda þeim skjal til staðfestingar á viðurkenningu þess skv. safnalögum. Kvikmyndasafni hefur verið tilkynnt um ákvörðunina og er boðið velkomið í hóp viðurkenndra safna.
  7. Kynning á verk- og fjárhagsáætlun 2021. Framkvæmdastjóri kynnti verk- og fjárhagsáætlun safnaráðs fyrir 2021. Áætlanirnar er til samþykktar á 202. safnaráðsfundi.
  8. Umræða um hentuga fundartíma ráðsins.

    (Hér var gert hlé á fyrsta lið fundarins, 1. Mál til kynningar og tekin umræða um lið 2. Mál til samþykktar og lið 3. Önnur mál.)

  9. (Umræða um lið 1.9 var í lok fundar. Fulltrúar höfuðsafnanna kvöddu og gengu af fundi fyrir umræðu. Hlynur Hallsson er vanhæfur til umsagnar um úthlutun og gekk af fundi).
    Aðalúthlutun 2021. Lokafrestur umsókna í aðalúthlutun safnasjóðs 2021 var miðvikudaginn 16. desember síðastliðinn. Framkvæmdastjóri kynnti fjölda umsókna, heildarupphæð og tímalínu umsókna- og umsagnaferlis. Eftirfarandi ráðsmenn sitja matsnefnd umsókna: Vilhjálmur Bjarnason, Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, Helga Lára Þorsteinsdóttir og Inga Lára Baldvinsdóttir. Þessum ráðsmönnum voru afhent umsóknargögn. Matsnefnd stefnir á að ljúka störfum í lok mars.

2.  Mál til ákvörðunar

  • Engin mál til ákvörðunar voru á dagskrá

3.  Önnur mál

Frá Þjóðminjasafni:
Þjóðminjasafn Íslands lagði fram drög að grisjunaráætlun fyrir Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði til umsagnar ráðsins í samræmi við 17. gr. og g-lið 2. m.gr. 7.gr. safnalaga nr. 141/2011. Eins og kemur fram í áætluninni er um neyðaráætlun að ræða í kjölfar þess að aurskriða hreif með sér hluta húsnæðis safnsins og safnkost og önnur hús þess voru í kjölfarið skilgreind á hættusvæði.  Þjóðminjasafnið hefur samkvæmt safnalögum farið yfir áætlunina og fellst á hana. Þjóðminjasafnið tilbúið til að senda sérfræðinga á staðinn til að aðstoða við mat á gripum í samræmi við þessa áætlun. Safnaráð fjallaði um málið á fundinum og gerir ekki athugasemdir við áætlunina.

– Fundi slitið kl. 13.30/ÞBÓ