Fimmtudaginn 17. október 2019 kl. 16.00 – 18.00
Staðsetning: Safnahúsið

Viðstödd: Ólafur Kvaran, formaður, Anna Sigríður Kristjánsdóttir, formaður, Haraldur Þór Egilsson (símleiðis), Helga Lára Þorsteinsdóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir, Harpa Þórsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir og Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri. Hilmar Malmquist forfallaðist.

1.     Mál til kynningar

  1. Yfirlit yfir starfsemina frá síðasta fundi.
  2. Cecilie Gaihede, fagstjóri Sarps kynnti virkni skráningarkerfisins Sarps og svaraði spurningum ráðsins.
  3. Flest skipunarbréf í safnaráð 1. janúar 2017 – 31. desember 2020 sem mennta- og menningarmálaráðuneyti sendu safnaráðsmönnum í desember 2016 voru með rangri lokadagsetningu skipunarinnar. Í bréfum kom fram að skipunin væri frá 1. janúar 2017 – 31. desember 2019, en það er rangt. Rétt lokadagsetning er 31. desember 2020, eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins til safnaráðs og er það því leiðrétt hér með.
  4. Drög að nýjum verklagsreglum vegna úthlutunar safnasjóðs lögð fram til kynningar og umræðu. Verður lokaútgáfa lögð fram á næsta safnaráðsfundi til samþykktar.
  5. Mennta- og menningarmálaráðuneyti gerði ekki athugasemdir við tillögur safnaráðs vegna nýs verkferlis við úthlutun úr safnasjóði sem ráðið samþykkti á 184. safnaráðsfundi. Framkvæmdastjóri kynnti þessar nýju hugmyndir á Farskóla safnmanna, sem haldinn var á Patreksfirði 2. – 5. október síðastliðinn.

2.     Mál til ákvörðunar

  1. Umsókn um viðurkenningu safns samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 barst frá einum aðila og var hún tekin til efnislegrar umfjöllunar. Tillaga safnaráðs verður send mennta- og menningarmálaráðherra til lokaákvörðunar.
  2. Samþykkt var að hafa ekki sérstök áhersluefni vegna aðalúthlutunar úr safnasjóði 2020.
  3. Umsóknareyðublað fyrir aukaúthlutun safnasjóðs árið 2019 samþykkt. Samþykkt að fella burt vegna Símenntunarstyrks fyrir starfsmenn safns að hægt væri að sækja í þann styrkflokk vegna óformlegra námsferða.
  4. Tvö umsóknareyðublöð fyrir aðalúthlutun safnasjóðs árið 2020 samþykkt. Það er vegna almennrar styrkumsóknar annars vegar og Öndvegisstyrkumsóknar hins vegar.

3.     Önnur mál

Engin önnur mál rædd.

Fundi slitið 17:50 / ÞBÓ