Fundargerð 19. fundar Safnaráðs, Listasafni Íslands, Laufásvegi 2,
101 Reykjavík, 28. ágúst 2003, kl. 11:30.

Viðstödd voru:  Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Ólafur Kvaran, Jóhann Ásmundsson, Gísli Sverrir Árnason og Rakel Halldórsdóttir.

1.      Rætt var um innbrot á skrifstofu safnaráðs, sem framið var aðfararnótt 27. ágúst, en var þá öllum tölvubúnaði safnaráðs rænt.  Um er að ræða búnað að verðmæti tæplega 274 þús. kr.  Rætt var um nauðsyn þess að gerðar yrðu viðeigandi varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir annað innbrot og að gögn safnaráðs tapist.  Sérstaklega var rætt um nauðsyn þess að gögn safnaráðs verði framvegis geymd á netþjóni Þjóðminjasafns en reglulega er tekið afrit af öllum gögnum sem þar eru geymd.  Ákveðið var að starfsmaður skyldi senda menntamálaráðuneyti bréf og óska eftir því að ríkið bæti safnaráði tjónið þar sem leigusali safnaráðs, Þjóðminjasafn, fellur að öllum líkindum undir sjálfsábyrgð ríkisins á tjónum af þessu tagi.  

2.      Fundargerðir 17. og 18. fundar undirritaðar.

3.      Skýrsla starfsmanns:  Starfsmaður skýrði frá starfsemi ráðsins í sumar, m.a. vettvangsferðum starfsmanns á söfn á landsbyggðinni, nýrri vefsíðu safnaráðs á léninu www.safnarad.is og verkefni um aðgengi safna.  Aðgengisverkefnið vaknaði í tengslum við leiðbeiningaskjalið ?Hönnun safna? þar sem fjallað er um ýmsa þætti sem huga ber að varðandi aðgengi og þjónustu á söfnum.  Eins og fjallað var um á 18. fundi, hefur starfsmaður haft samband við hagsmunaaðila safngesta með sérþarfir og óskað eftir úttekt þeirra á nauðsynlegri þjónustu m.t.t. aðgengi á söfnum.  Börn eru augljóslega safngestir með sérþarfir og ræddi starfsmaður við Umboðsmann barna, Þórhildi Líndal, um það hvernig mæla mætti þarfir barna m.t.t. aðgengi á söfnum.  Niðurstaðan varð sú að leita yrði til barnanna sjálfra í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.    Bent var á það að Helga Jóhannsdóttir (eiginkona Ómars Ragnarssonar), hefur unnið gátlista fyrir ákveðin söfn.  Helga hefur heimsótt þessi söfn með fötluðum einstaklingum, unnið gátlista um aðgengi í framhaldi og sent söfnunum.  Rætt var um það að haft yrði samband við Helgu varðandi gátlistana.  Ennfremur var rætt um greinargerðir Eggerts Þórs Bernharðssonar, sagnfræðings og aðjúnkts við HÍ, en Eggert hefur gagnrýnt söfn og sýningar á Íslandi. 
Rætt var einnig um að færa skiladag fyrir umsóknir í safnasjóð aftur á næsta ári, t.a.m. til 1. október eða 1. nóvember.  Umsóknarfresturinn er til 1. september á þessu ári en þykir það nokkuð snemmt með tilliti til sumarleyfa.

4.      Starfslýsing starfsmanns og starfsheiti:  Farið var yfir starfslýsingu sem starfsmaður lagði fram.  Athugasemdir voru gerðar við starfslýsinguna og verður hún leiðrétt í samræmi við þær og endurgerð hennar lögð fyrir á næsta fundi.  Starfsheiti starfsmanns verður ákveðið í framhaldi af því.

5.      Erindi til safnaráðs:

5a Erindi Listasafns Reykjanesbæjar.
Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, sendi safnaráði bréf þar sem hún óskar eftir því að úthlutanir úr safnasjóði 2003 verði endurskoðaðar m.t.t. styrkveitingar til Listasafns Reykjanesbæjar.  Safnaráð fjallaði um umsókn safnsins og úrskurðaði að safnið hefði á þeim tíma ekki uppfyllt 4. grein safnalaga á fullnægjandi hátt.  Safnið hafi ekki sýnt fram á virka söfnun skv. söfnunarstefnu, hafi ekki haft fast aðsetur og ekki verið nægilega sýnilegt og aðgengilegt.  Safninu verði sent bréf þar sem ósk um endurskoðun er synjað og viðeigandi skýringar gefnar.

5b Erindi Bóka- og byggðasafns Norður Þingeyinga. 
Stefanía Gísladóttir, forstöðumaður safnsins, sendi safnaráði bréf þar sem hún óskar eftir endurskoðun á veitingu rekstrarstyrks og skýringum vegna styrkveitinga 2003.  Fjallað var um umsóknina en skv. henni var starfshlutfall forstöðumanns 20%, en ekki 50% eins og miðað er við í 10. grein safnalaga.  Greinargerð þar sem fram kemur að breytingar voru gerðar á starfshlutfalli haust 2002 fylgdi erindinu, en þar sem safnaráði bárust þessar nýju upplýsingar ekki áður en ákvörðun um styrkveitingar var tekin, úrskurðaði ráðið að endurskoðun á styrkveitingu yrði hafnað af þeim sökum.

6.      Greinargerð um starfsemi Búvélasafnsins á Hvanneyri.
Bjarni Guðmundsson, ábyrgðarmaður Búvélasafnins, sendi safnaráði greinargerð um starfsemi Búvélasafnsins þar sem hann fjallar um hvert atriði 4. greinar safnalaga (söfnun, varðveislu, rannsóknir og miðlun) og það hvernig safnið uppfyllir hvert þessara atriða.  Tilgangurinn var sá að hljóta staðfestingu safnaráðs á því að safnið uppfylli skilyrði safnalaga um það að um fullgilt safn sé að ræða.  Nokkur umræða varð um rannsóknir á vegum safnsins, en óskaði JGO eftir nánari skýringu á því hvort umræddar rannsóknir væru á vegum safnsins eða Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.  Rætt var í framhaldi af því um tengingu safnsins við háskólann.  Ákveðið var að óska eftir nánari upplýsingum frá Bjarna.

7.      Drög að Þjónustusamningi milli safnaráðs og Þjóðminjasafns.  Ákveðið var að fresta umfjöllun um þetta málefni þar til síðar.

8.      Hugmynd Wim van der Weiden, formanns European Museum Forum, um að starfsmaður safnaráðs gerist talsmaður European Museum Forum á Íslandi (National Correspondent of the EMF in Iceland).  Fjallað var um hugmyndina.  Ákveðið var að hafa samráð við tengilið safnaráðs hjá menntamálaráðuneyti varðandi það hvort eðlilegra þætti að talsmaðurinn væri hjá ráðuneytinu. 

9.      Vettvangsferð á Reykjanes 2003.  Rætt var um fyrirhugaða vettvangsferð á Reykjanes í september.  Ákveðið var að allir, bæði aðalmenn og varamenn, skyldu boðnir í ferðina.  Ákveðið var að halda næsta fund um leið og var dagsetningin 18. september valin.  Um er að ræða dagsferð (9-17) og heimsótt verða bæjarfélögin á Reykjanesi, söfn og setur þar og rætt við bæjarstjórnir.  Rætt var um að fundað yrði í Sandgerði, rétt eftir hádegi.  Starfsmaður mun sjá um skipulagningu ferðarinnar. 

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH