Fundargerð 107. fundar safnaráðs –

14. desember 2011, kl. 12:15 – 14:15, fundarherbergi í turni Þjóðminjasafns

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Helgi Torfason, Halldór B. Runólfsson, Guðný Dóra Gestsdóttir, Jenný Lind Egilsdóttir, Rakel Halldórsdóttir frkv.stj. Gestur á fundinum: Þóra Björk Ólafsdóttir, mastersnemi í safnafræði við HÍ (í starfsþjálfun hjá safnaráði á tímabilinu).

1. Málefni til umræðu og ákvörðunar:

1.0.Fundargerð 106. fundar verður undirrituð á næsta fundi.

1.1.  Skýrsla framkvæmdastjóra:  Grein RH í Fréttablaðinu 17. nóvember 2011. Frkv.stj. ritaði grein sem birt var í Fréttablaðinu um ný safnalög og mikilvægi faglegri úthlutunar ríkisfjár til menningarmála í kjölfar tilkynningar Alþingis um breytingu á úthlutun fjárlaganefndar til þessa málaflokks, þar sem stefnt er að því að úthlutun verði í auknum mæli byggð á lagagrundvelli, svo sem í gegnum lögbundna sjóði. Fréttaviðtal við HT í Fréttablaðinu 24. nóvember 2011. Fréttaviðtal birtist við Helga Torfason, forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands, höfuðsafns á sviði náttúruminja. Uppbygging safnsins hefur mætt litlum skilningi og fjárveitingar verið af skornum skammti. Nokkuð hefur verið fjallað um málefni safnsins í fjölmiðlum undanfarið. Mikilvægt er að safninu verði fundinn farsæll farvegur og raunveruleg uppbygging þess með tilheyrandi fjárveitingum hefjist sem fyrst. Ríkisendurskoðun hefur hafið úttekt á stöðu safnsins. Fjárlagafrumvarp 2012 – framlög til safnastarfs  á fjárlögum 2011. Samtals námu beinar fjárveitingar til safnastarfs (safna, sýninga, setra og skyldra aðila) á fjárlögum 2011 rúmlega 140 millj. Í samræmi við kynnta breytingu á áherslum Alþingis við úthlutun ríkisfjár til menningarstarfs ætti fjárveiting í safnasjóð því að hækka töluvert á árinu 2012. Svar frá Iðnaðarsafninu varðandi uppsögn forstöðumanns og framtíð safnsins. Svar barst frá formanni stjórnar Iðnaðarsafnsins varðandi uppsögn forstöðumanns og framtíð safnsins. Unnið er að stefnumótun varðandi framtíð safnsins, meðal þeirra atriða sem í skoðun eru aukin samvinna eða sameining safnsins við Minjasafnið á Akureyri. EC-hugbúnaður – áframhaldandi vandi og framvinda. Áframhaldandi vandi einkennir þjónustu EC-hugbúnaðar sem fer með vefumsjón fyrir safnaráð. Þrátt fyrir tilraunir til endurbóta hefur söfnun upplýsinga með rafrænu umsóknareyðublaði safnaráðs vegna umsókna í safnasjóð ekki batnað og eru verulegir gallar á niðurstöðum söfnunar, sem og á notkun eyðublaðsins. Fyrirliggjandi er töluverð vinna við söfnun upplýsinga sem ekki skiluðu sér í rafrænum umsóknum safna í safnasjóð 2012, vegna umræddra galla. Safnaráð mun, sökum umræddra og endurtekinna galla, ekki greiða fyrir unna vinnu við endurbætur eyðublaðsins og tekin hefur verið ákvörðun um að skipta um þjónustuaðila vefumsjónar. Mun frkv.stj. ganga í það mál strax. Höfundarréttarmál safna. Ágústa Kristófersdóttir vinnur áfram að framvindu verkefnisins. Starfsmannamál. RH kynnti stöðu verkefna á skrifstofu safnaráðs, auk hefðbundinna verkefna er fyrirséð töluverð viðbótarvinna á skrifstofu í byrjun árs 2012. Annars vegar er um að ræða vinnu við flutning vefumsjónar safnaráðs til nýs þjónustuaðila og flutning allra veflægra upplýsinga á vefsíðum ráðsins í nýtt kerfi í kjölfarið, auk umsjónar með hönnun nýs rafræns umsóknareyðublaðs. Hins vegar er fyrirséð töluverð vinna við söfnun upplýsinga sem töpuðust úr rafrænum umsóknum í safnasjóð 2012 vegna galla í rafrænu umsóknareyðublaði. RH verður í minnkuðu starfshlutfalli frá janúar 2012 skv. læknisvottorði vegna þungunar og mælti með því að fengin yrði aðstoð á skrifstofu safnaráðs til að sinna megi þeim verkefnum sem fyrir liggja. Samþykkt var að leysa málið milli funda. Safnabók 2012. Samningur um stuðning við Safnabók 2012 verður undirritaður á næstunni.

1.2. Ráðstöfun eftirstöðva í safnasjóði 2011. Fjallað var um ráðstöfun eftirstöðva í safnasjóði 2011. Einungis fá söfn nýttu sér möguleika á ferða- og endurmenntunarstyrk úr safnasjóði 2011. Samþykkt var að veita styrk til samvinnuverkefnis listasafna um aðlögun SARPS 3 að þörfum listasafna. Samþykkt var að taka frá upphæð fyrir sambærilegan styrk til náttúrugripasafna. Þá var samþykkt að greiða útgjöld vegna ársins 2012 eins og efni stæðu til. Stefnt er að því að um verði að ræða einn sameiginlegan skráningargrunn allra safna í landinu, sem verði í framtíðinni aðgengilegur almenningi til upplýsingar og menntunar.

1.3. Fundaáætlun safnaráðs 2012. Ný fundaáætlun safnaráðs vegna ársins 2012 var samþykkt sem viðmið. Fyrirséð er að einhverjar breytingar verða á dagsetningum funda.2. Erindi til umræðu og ákvörðunar.


2.1. Erindi frá Alþingi – umsagnar óskað um tillögu til þingsályktunar um Vefmyndasafns Íslands, 121. mál. Málið var unnið milli funda – send var sameiginleg umsögn Þjóðminjasafns og safnaráðs.

2.2. Umsókn Guðrúnar Öldu Gísladóttur um leyfi til útflutnings textíla úr fornleifauppgröftum í rannsóknarskyni. Samþykkt á síðasta fundi að nýta heimild laga nr. 105/2001 og leggjast gegn útflutningi sbr. mat sérfræðings. Í samræmi við lögin hefur verið leitað formlegrar afstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Svar hefur ekki borist.

2.3. Beiðni Mótorhjólasafns Íslands um viðurkenningu skv. 4. gr. safnalaga. Erindi barst frá Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri, þar sem óskað var viðurkenningar safnaráðs á að safnið sé viðurkennt safn skv. 4. gr. safnalaga nr. 106/2001. Safnaráð fjallaði um málið. Um er að ræða nýja stofnun og ekki er komin mikil reynsla á starfsemi hennar, auk þess sem enginn safnaráðsfulltrúa hefur heimsótt stofnunina. Samþykkt var að óska eftir umsögnum Minjasafnsins á Akureyri og menningarfulltrúa Akureyrarbæjar um starfsemi Mótorhjólasafnsins.3. Næsti fundur og önnur mál


Næsti fundur var skv. nýrri fundaáætlun áætlaður fimmtudaginn 26. janúar 2012 kl 12:15, fundi slitið kl. 14:15/RH