Fundargerð 57. fundar Safnaráðs, 20. febrúar 2007, kl. 11:30 – 13:30, Listasafni Íslands, Laufaásvegi 12, 101 Reykjavík.
 
 
Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Karl Rúnar Þórsson, Sveinn Kristinsson og Rakel Halldórsdóttir. Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur á sviði safnamála í menntamálaráðuneyti var viðstaddur hluta fundarins.
 
1.Fundargerðir 54. og 55. fundar voru samþykktar og undirritaðar. Gerð var athugasemd við fundargerð 56. fundar. Fundargerðin verður undirrituð á næsta fundi.

2.Skýrsla framkvæmdastjóra. Úttekt á söfnum Þingeyinga. Framkvæmdastjóri, þjóðminjavörður og forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga gerðu, skv. ósk Héraðsnefndar Þingeyinga, úttekt á starfi, stöðu, stefnu og möguleikum safna Þingeyinga vegna nýstofnaðrar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Samstarfsnefnd aðila frá opinberum, norrænum safnastofnunum, sem skipuð var fyrir niðurlögn Norrænu safnanefndarinnar um síðustu áramót mun hittast á fyrsta fundi í Osló 23. og 24. maí n.k. Framkvæmdastjóri var skipuð í nefndina, en mun ekki eiga þess kost að mæta á fundinn. MH, þjóðminjavörður, mun sækja fundinn. Skjal til styrkhafa úr Safnasjóði. Rætt var um að senda styrkhöfum úr Safnasjóði 2007 skjal vegna styrksins sem nokkurs konar vottun um faglega starfsemi. Framkvæmdastjóra var falið að gera tillögu að skjali. European Museum of the Year Award 2008. Skila verður inn tilnefningargögnum vegna tilnefningar Minjasafns Reykjavíkur fyrir Landnámssýninguna 871 +/-2 fyrir 15. mars n.k. Umsókn Fornleifastofnunar Íslands um leyfi til útflutnings sýna til kolefnisgreiningar erlendis. Leyfi hefur verið veitt vegna sýnis úr mannabeini. Leitað var umsagnar forvarða Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifaverndar ríkisins og voru umsagnir beggja jákvæðar. Erindinu var vísað til Náttúrufræðistofnunar Íslands skv. 2. gr., 12. tl. og 3. mgr. Laga nr. 105/2001 og 15. gr. laga nr. 60/1992 vegna sýnis úr dýrabeini. NÍ hefur veitt leyfi vegna þess. Verklagsreglur vegna útflutnings menningarverðmæta. Eftirfarandi atriðum verði bætt í verklagsreglur vegna útflutnings menningarverðmæta: 1) Leyfi vegna útflutnings menningarverðmæta verði rituð á ensku og skal leyfið fylgja verðmætunum erlendis og einnig til baka (ef ekki er um að ræða sýni sem eyðast við rannsókn). 2) Framkvæmdastjóri hefur umboð Safnaráðs til að gefa út leyfi vegna útflutnings menningarverðmæta fyrir hönd ráðsins ef umsagnaraðilar veita samþykki fyrir útflutningi og ef ekki er um álitamál að ræða. Að öðrum kosti er erindið lagt fyrir Safnaráðsfund. Safnafræði við HÍ. Samstarfshópur um uppbyggingu meistaranáms í safnafræði við HÍ, sem frkv.stj. stýrir, hefur sent stjórn HÍ þar sem óskað er eftir því að Háskóli Íslands setji námið af stað. Var þetta ákveðið í framhaldi af samningi milli menntamálaráðuneytis og HÍ um kennslu og rannsóknir, en samningurinn kveður á um 300 millj. kr. hækkun á framlögum til HÍ 2007 og 640 millj. kr. hækkun á ári næstu ár. Formaður Safnaráðs kvaddur. Fundurinn er síðasti fundur núverandi formanns með Safnaráði. Ólafur Kvaran mun láta af störfum sem safnstjóri Listasafns Íslands 1. mars n.k. og víkur þá skv. 2. gr. safnalaga nr. 106/2001 einnig úr Safnaráði. Formanni voru þökkuð góð störf. Menntamálaráðherra skipar nýjan formann og varaformann skv. 2. gr. safnalaga.
 
3.      Afleysing á starfi framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri fer í barnsburðarleyfi seinnipartinn í júlí (+/- einhverjar vikur) og stefnir á sjö mánaða leyfi. Samþykkt var að Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir leysi frkv.stj. af á meðan á barnsburðarleyfinu stendur. Anna Þorbjörg hefur MA gráður í sagnfræði og í safnafræði og vinnur að doktorsritgerð í sagnfræði, en mun hún gera hlé á náminu á afleysingartímanum. Gerður verður samningur við Önnu Þorbjörgu vegna afleysingarstarfsins.
 
4.      Vefsíða Safnaráðs – nýtt útlit og endurgerð. Tekið hefur verið í notkun nýtt bréfsefni með nýju lógói Safnaráðs, hönnuðu af Hildigunni Gunnarsdóttur, hönnuði. Samþykkt var hugmynd Hildigunnar að nýju útliti á vefsíðu Safnaráðs í samræmi. Samþykkt var kostnaðaráætlun vegna hönnunar og forritunar. Auk nýs útlits mun í nýrri útgáfu af vefsíðu Safnaráðs verða tekinn í notkun nýr listi yfir safnastofnanir á landinu, þar sem hver stofnun mun hafa eigin síðu á vefsíðu Safnaráðs með grunnupplýsingum um stofnunina og möguleikum á nánari upplýsingum um fræðsludagskrá og fleira. Athugað verður með möguleikann á að tengja einnig kort af staðsetningu safnastofnana við hverja stofnun í listanum. Safnastofnanir munu uppfæra upplýsingar á eigin síðu með aðgangsorði. Listinn yfir safnastofnanirnar mun gefa kost á nokkrum leitaraðgerðum, t.a.m. að leita eftir öllum stofnunum á ákveðnum stað. Framkvæmdastjóra var falið að vinna verkefnið áfram.
 
5.      Ráðstefna Safnaráðs um rafrænt aðgengi að menningar- og náttúruarfi í mars 2007. Rætt var um fyrirhugaða ráðstefnu Safnaráðs um rafrænt aðgengi hinn 14. mars 2007. Safnaráð fjallaði um drög að dagskrá málþingsins og var dagskrá og fyrirlesarar samþykkt. Framkvæmdastjóri mun vinna áfram að skipulagi og undirbúningi málþingsins.
 
6.      Fundaáætlun 2007. Drög að fundaáætlun 2007 voru rædd. Gengið verður frá fundaáætlun rafrænt fyrir næsta fund.
 
7.      Skýrgreiningar og siðareglur ICOM. Fjallað var stuttlega um þýðingu siðareglna og samþykkta ICOM í íslensku safnaumhverfi. JGO benti á vankanta í þýðingu á samþykktum ICOM. Fjallað verður áfram um málið á næsta fundi og verður formaður ICOM á Íslandi, Lilja Árnadóttir, boðuð til fundarins. Rædd var sú hugmynd að ICOM feli Safnaráði ábyrgð á faglegri þýðingu samþykkta og siðareglna ICOM.
 
8.      Erindi Péturs Arasonar, SAFNI. Pétur Arason óskaði eftir útskýringu á synjun á styrk til SAFNS úr Safnasjóði 2007. Samþykkt var svarbréf.
 
9.      Náttúrusöfn – umsókn um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 vegna skráningarkerfis fyrir náttúrugripasöfn. Bréf hefur borist frá menntamálaráðuneyti þar sem ráðuneytið fer þess á leit við Safnaráð að ráðið veiti ekki frekari styrki til undirbúnings vals á skrásetningarkerfi fyrir náttúruminjasöfn þar til Náttúruminjasafn Íslands hefur verið stofnað. EÞ, sérfræðingur í menntamálaráðuneyti, var boðaður á fundinn til að ræða innihald bréfsins. Innihald bréfsins var rætt, sem og umsóknir vegna verkefnisins fyrir 2006 og 2007. Samþykkt var að fela Náttúrufræðistofnun Íslands að koma með tillögu til Safnaráðs um farveg fyrir verkefnið. Tillögunni fylgi ný kostnaðaráætlun og lýsing á verkefninu.
 
10.  NODEM ráðstefna 2008. KRÞ kynnti málið stuttlega. Samþykkt var að taka málið upp aftur síðar skv. ósk FÍSOS.

11. Næsti fundur og önnur mál.

Næsti fundur skv. nýrri fundaáætlun er 28. mars n.k.
 
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:30/RH