Fundargerð 35. fundar Safnaráðs 13. desember 2004, kl. 11:30-13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Gísli Sverrir Árnason, Sigrún Ásta Jónsdóttir, Rakel Halldórsdóttir og Ragnheiður H. Þórarinsdóttir. 

1.       Fundargerð 34.  fundar undirrituð.

2.       Breytingar á safnalögum nr. 106/2001.
Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, sérfræðingur í lista- og safnadeild menntamálaráðuneytis sat fundinn að beiðni ráðsins til að ræða hugsanlegar breytingar á safnalögum nr. 106/2001.  Mikil umræða varð um málið.  Á málþingi Safnaráðs og Félags íslenskra safna og safnmanna á farskóla félagsins 10. – 12. nóvember sl. og víðar hafa verið viðruð þau sjónarmið að nauðsyn sé á sérstakri löggjöf um ríkisstyrki til starfsemi setra, safnvísa og sýninga.  Um er að ræða stofnanir sem stunda ákveðna þætti safnastarfs.  Þessar stofnanir uppfylla 4. gr. safnalaga að hluta en ekki öllu leyti og falla því ekki undir safnalög og geta ekki notið styrkja úr Safnasjóði.  Ljóst er að töluverðu fé er veitt úr ríkissjóði ár hvert til stofnana af þessu tagi en ekki er til staðar nein löggjöf um styrkveitingar til þessara stofnana.
Samþykkti Safnaráð að finna þarf þessum stofnunum einhvern stað í lögum. 
Kom það fram á fundinum að Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, lýsti því yfir á opinberum fundi forstöðumanna ríkisstofnana fyrir stuttu að fjárlaganefnd hyggist hækka fjárveitingar til Safnasjóðs á næsta ári.
Samþykkt var að Safnaráð sendi RHÞ hjá menntamálaráðuneyti formlegt erindi þar sem ráðið tilgreinir hvaða atriði þarf að leggja sérstaka áherslu á varðandi endurskoðun á safnalögum.

3.       Farskóli FÍSOS.
Umræðu síðasta fundar um styrk við farskóla FÍSOS var haldið áfram og samþykkt að farskólinn yrði styrktur ef í ljós kemur að tap hefði orðið á rekstri hans.  Er útlit fyrir að farskólinn muni standa nokkurn vegin á jöfnu eftir uppgjör.  Aðstæður farskólans í ár eru sérstæðar þar sem skólinn er haldinn af höfuðsafni, Þjóðminjasafni Íslands, sem ekki á þess kost að sækja um styrki í Safnasjóð.  Safnaráð taldi þó mikilvægt að farskólinn, sem sjálfstæð eining og mikilvægur vettvangur miðlunar til safnmanna um fagleg málefni tengd safnastarfi, væri styrktur eins og verið hefur undanfarin ár.  

4.       Fundaáætlun ársins 2005.  Fundaáætlun fyrir árið 2005 var samþykkt.  Gert er ráð fyrir níu föstum fundum á árinu og 2ja daga vettvangsferð á Norðurland vestra.  Breytingar á fundaáætlun og aðrir fundir verður metið eftir þörf.

5.       Næsti fundur og önnur mál. 
Dagsetning næsta fundar verður ákveðin síðar, en verður hann haldinn í upphafi nýs árs.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH

Viðauki:  Fundaáætlun Safnaráðs 2005.

Fundaáætlun Safnaráðs 2005


27. janúar

24. febrúar

31. mars

28. apríl

11.-12. maí
2ja daga vettvangsferð Safnaráðs á Norðurland vestra og fundur

júní – enginn fundur

júlí – enginn fundur

25. ágúst

29. september

27. október

24. nóvember

desember – enginn fundur