Fundargerð 30. fundar Safnaráðs 21. maí 2004, kl. 11:00-13:15,  Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran,  Margrét Hallgrímsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Sigrún Ásta Jónsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.  Gísli Sverrir Árnason var viðstaddur í síma.

 1. Fundargerð 29. fundar verður undirrituð á næsta fundi.
   
 2. Skýrsla framkvæmdastjóra.  Frkv.stj. skýrði frá starfsemi ráðsins frá síðasta fundi.  Síldarminjasafnið á Siglufirði hlaut önnur aðalverðlaun European Museum Forum, á aðalfundi EMF í Grikklandi dagana 3.-5. maí sl., en Safnaráð tilnefndi safnið til keppninnar í febrúar á síðasta ári. Frkv.stj. heimsótti Kulturarvsstyrelsen í Kaupmannahöfn dagana 28. til 30. apríl, til að fræðast um framkvæmd Dana á dönsku safnalögunum, skilgreiningar í tengslum við safnalögin, úthlutunarkerfi Dana v. ríkisstyrkja til safna o.fl.  Var sú heimsókn afar gagnleg og árangursrík.  Fyrir utan úthlutunarkerfi var sérstaklega áhugavert að kynnast aðferðum Dana við gæðamat á söfnum og einnig aðferðum við leyfisveitingar tengdar útflutningi menningarverðmæta og eftirlit með þeim útflutningi.
   
 3. Úthlutun 2004.  Bréf hefur borist ráðinu frá menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar en nefndin hefur falið borgarlögmanni að skoða stöðu Listasafns Reykjavíkur, Minjasafns Reykjavíkur og Ljósmyndasafns Reykjavíkur m.t.t. þess rökstuðnings sem fram kemur í bréfum Safnaráðs til safnanna varðandi ákvörðun tengda styrkveitingu. Haldið var áfram umfjöllun um erindi Listasafns Akureyrar og Listasafns ASÍ.  Með vísan til samþykkta ICOM var ákveðið að synja Listasafni Akureyrar um styrkveitingu úr Safnsjóði, þar sem ekkert í þjónustusamningi Akureyrarbæjar við Art.is kemur í veg fyrir að hagnaður af starfseminni sé greiddur út úr stofnuninni.  Ákvörðunin var tekin með fyrirvara um niðurstöðu lögfræðilegs mat frá menntamálaráðuneyti um möguleika Safnaráðs á að vísa í samþykktir ICOM sem rökstuðning við ákvarðanir.  Mun ráðið senda safninu tilkynningu um niðurstöðu að fengnu áliti mrn, ella taka málið upp aftur á næsta fundi.
  Afgreiðsla erindis Listasafns ASÍ bíður næsta fundar þar sem formaður og frkv.stj. áttu þess ekki kost að heimsækja safnið fyrir þennan fund.  
   
 4. Hugmynd að nýjum áherslum við úthlutun 2005.  Frkv.stj. kynnti hugmyndir sínar að nýjum áherslum við úthlutun 2005.  Varð nokkur umræða um hugmyndirnar og verða þær ræddar frekar á næsta fundi.
   
 5. Auglýsing v. úthlutunar 2005 – umsóknareyðublað.  Samþykkt var auglýsing og umsóknareyðublað v. úthlutunar 2005.  Mun auglýsing v. úthlutunar verða birt í helstu fjölmiðlum eftir næsta fund, þegar áframhaldandi umræðu um nýjar áherslur er lokið.
   
 6. Talsmaður EMF/aðild að EMF.  Tekið var upp mál varðandi talsmann EMF/aðild að EMF v. hvatningar frá Örlygi Kristfinnssyni, forstöðumanni Síldarminjasafnið sem tók við verðlaunum frá stofnuninni í byrjun maí.  Samþykkt var að Safnaráð gerðist aðili að EMF með almennri aðild.
   
 7. Næsti fundur og önnur mál.  Næsti fundur skv. fundaáætlun er 27. maí en samþykkt var að funda næst um miðjan júní. 

  Önnur mál:
  Flutningur menningarverðmæta úr landi.  Í frh. af heimsókn frkv.stj. til Kulturarvsstyrelsen varð nokkur umræða um hlutverk Safnaráðs skv. lögum nr. 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og skil menningarverðmæta til annarra landa.  Samþykkt var að frkv.stj. ritaði almenna grein í Morgunblaðið þar sem athygli er vakin á ákvæðum laganna er snúa að almenningi og stofnunum, þar sem fram kemur að leita þarf formlegs leyfis v. flutnings menningarverðmæta, skv. skilgreiningu laganna, úr landi.

  Sædýrasafn.  ÁI kynnti tillögu til þingsályktunar um stofnun Sædýrasafns á Íslandi.  Var tillagan lögð fyrir samgöngunefnd og álita leitað hjá Ferðamálasamtökum Íslands, Verslunarráði Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Hafrannsóknarstofnun.  Þar sem ekki var leitað álits Safnaráðs samþykkti ráðið að senda menntamálaráðuneyti fyrirspurn þar sem athygli er vakin á málinu og spurt er um aðkomu mrn. og Safnaráðs að því. 

  NODEM ráðstefna 2005.  Ákveðið var að Náttúrufræðistofnun, sem gegnir stöðu höfuðsafns á sviði náttúruminja, tæki þátt í umsjón NODEM ráðstefnu 2005 ásamt Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni.  Ósk um samstarf barst höfuðsöfnunum og Safnaráði frá Félagi íslenskra safna og safnmanna, samstarfsaðila NODEM.

 Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:15/RH