Fundargerð 27. fundar Safnaráðs 26. febrúar 2004, kl. 10:00-16:00, Hótel Örk, Hveragerði

&

2. mars 2004, kl. 12:00-13:30, Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Rvk.

Viðstödd voru:  Margrét Hallgrímsdóttir, Ólafur Kvaran, Jóhann Ásmundsson, Gísli Sverrir Árnason, Álfheiður Ingadóttir, Ragnheiður H. Þórarinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1.      Gerð var smávegileg breyting við fundargerð 26. fundar, fundargerðin verður undirrituð á næsta fundi.

2.      Framkvæmdastjóri skýrði frá starfsemi ráðsins frá síðasta fundi.  Fyrstu vikuna í febrúar var skrifstofa Safnaráðs flutt úr húsakynnum Þjóðminjasafns Íslands að Suðurgötu 41 í skrifstofuhúsnæði Listasafns Íslands að Laufásvegi 12, 101 Reykjavík.  Samfara flutningi milli stofnana urðu breytingar á fjárumsýslu ráðsins, en frá og með 1. febrúar 2004 er bókun og greiðsla reikninga og greiðsla launa og nefndarlauna í höndum Greiðsludeildar menntamálaráðuneytis.  Fyrrgreint var áður í höndum Þjóðminjasafns Íslands skv. þjónustusamningi við menntamálaráðuneyti f.h. Safnaráðs.  Mikil vinna hefur staðið yfir í tengslum við úrvinnslu umsóknargagna.    

3.      Endurskoðun á úthlutunarreglum – heimsókn framkv.stj. til Kulturarvsstyrelsen í Kaupmannahöfn.  Rætt var um reglur Kulturarvsstyrelsen um úthlutanir styrkja til safna í Danmörku.  Samþykkt var sú tillaga formanns að fkv.stj. heimsæki Kulturarvsstyrelsen í því skyni að kynna sér starfsemi og starfshætti stofnunarinnar og koma á samböndum til að auðvelda samskipti og samstarf við stofnunina í framtíðinni. 

4.      Samþykkt Þjónustusamnings 2004.  Þjónustusamningur um þjónustu Listasafns Íslands við skrifstofu Safnaráðs á árinu 2004 var samþykktur og undirritaður af formanni og fulltrúa mrn.

5.      Umsóknir og úthlutanir
Mat á söfnum m.t.t. safnalaga:
Frkv.stjóri kynnti mat sitt á söfnum sem sóttu um m.t.t. þess hvort viðkomandi stofnun uppfyllir skilyrði safnalaga um starfsemi safns.  Nokkra umsóknaraðila reyndist ekki unnt að meta þar sem fylgigögnum með umsókn var ekki skilað inn, þrátt fyrir ítrekun.  Mat frkv.stj. var samþykkt með nokkrum undantekningum. 

Undanfarið hefur verið rætt nokkuð um hugtakið ?rannsóknir? en skv. 4. gr. safnalaga skal stofnun stunda rannsóknir á safnkosti til að geta talist safn lögunum samkvæmt.  Frkv.stj. skoðaði skilgreiningar á hugtakinu og ákvað að nýta við mat á söfnum almennustu skilgreininguna (úr Íslenskri orðabók).  Skilgreiningin hljóðar svo:

Rannsaka = kanna, skoða niður í kjölinn, athuga nákvæmlega.  Rannsókn = það að rannsaka. 

Skv. þessari skilgreiningu fellur stofnun sem stundar öflun ítarupplýsinga (skriflegra og/eða munnlegra) í tengslum við skráningu á safnkosti undir 4. gr. safnalaga.  Safnaráð lýsti sig sammála þessari túlkun.

Frkv.stj. kynnti tillögur sínar að úthlutun sem settar eru fram í samræmi við staðfestar úthlutunarreglur Safnasjóðs. 

Alls sóttu 78 aðilar um styrki í Safnasjóð árið 2004.  53 stofnanir sóttu um rekstrarstyrki, að heildarupphæð 79,5 millj. (ef miðað er við að rekstrarstyrkur sé jafnhár og í fyrra, 1,5 millj.).  70 aðilar sóttu um verkefnastyrki, að heildarupphæð 111.975.000 kr.  Heildarupphæð styrkja sem sótt var um nemur því 191.475.000 kr.  Fjárveiting til Safnasjóðs á árinu 2004 er 66 millj. kr. 
Rekstrarstyrkir:
Fjallað var fyrst um rekstrarstyrki til safna.  Gerðar voru breytingar á tillögu frkv.stj. og samþykkt, m.t.t. fjárhagsstöðu sjóðsins, að um þrenns konar rekstrarstyrki yrði að ræða við þessa úthlutun:  Hálfan rekstrarstyrk (750 þús), heilan rekstrarstyrk (1500 þús) og einn og hálfan rekstrarstyrk (2250 þús).  Ákveðið var í ljósi fjárhagsstöðu sjóðsins að veita stórum söfnum með fjársterka bakhjarla hálfan rekstrarstyrk í ár.  Söfn er uppfylla 10. gr. safnalaga og hlutu ekki styrk til reksturs á fjárlögum hlutu heilan rekstrarstyrk.  Söfn er uppfylla 10. gr. og hlutu rekstrarstyrk á fjárlögum sem nemur lægri upphæð en heill rekstrarstyrkur úr Safnasjóði, hlutu styrk til viðbótar svo að heildarupphæð rekstrarstyrks úr ríkissjóði er 1500 þús.  Ákveðið var að veita einum og hálfum rekstrarstyrk til stofnana þar sem fleiri en eitt safn, sem uppfylla 10. gr. safnalaga, starfa undir sama hatti til hagræðingar í rekstri. 
Nokkur umræða varð málefni Listasafnsins á Akureyri.  Ákveðið var að óska eftir upplýsingum frá Akureyrarbæ um breytt rekstrarform safnsins. 

Verkefnastyrkir:

Var næst fjallað um verkefnastyrki og voru nokkrar breytingar gerðar á tillögu frkv.stj.  Þar sem meirihluti fjármagns úr Safnasjóði fer í rekstrarstyrki við þessa úthlutun, mæta verkefnastyrkir afgangi.

Almennt var söfnum er sóttu um verkefnastyrki veitt 100-400 þús. í styrk, en þó var samþykkt að veita ekki verkefnastyrkjum til safna er hlutu styrki til sömu verkefna á fjárlögum og að stærri söfn með fjársterka bakhjarla skyldu einungis hljóta hálfan rekstrarstyrk í ár, sbr. hér að framan.  Samþykkt var að veita nokkra veglegri verkefnastyrki til verkefna er þóttu mjög brýn.  Meirihluti samþykkti að veita ICOM á Íslandi, stofnun sem ekki fellur undir safnalög, verkefnastyrk.  ÁI, fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem gegnir hlutverki höfuðsafns á sviði náttúrusafna, sat hjá við þá ákvörðun.  Rök fyrir veitingu styrksins voru þau að frá stofnun ICOM á Íslandi fékk stofnunin fjárveitingu frá mrn. en var sú fjárveiting talin renna í Safnasjóð þegar hann var myndaður og beiðni ICOM vísað til Safnaráðs.  Enn fremur komu fram þau rök að Safnaráð telur starfsemi ICOM þarfa og mikilvæga og að ávinningur sé af henni fyrir íslenskt safnastarf í heild.

GSÁ og JÁ viku af fundi meðan fjallað var um styrkveitingar til safna er þeir veita forstöðu.
     

Lokið var við drög að úthlutunum á I. hluta 27. fundar þann 26. febrúar og frkv.stj. falið að fara yfir tölur og afla frekari upplýsinga um nokkrar umsóknir.  Fulltrúar höfuðsafna í Safnaráði (ÓK, MH, ÁI og frkv.stj.) hittust á II. hluta 27. fundar ráðsins þann 2. mars, þar sem endanlega var gengið frá úthlutunum í samræmi vð framanritað.

6.      Vinnulag milli funda.  Safnaráð samþykkti möguleikann á skriflegri meðferð mála milli funda ef þess reynist þörf.

7.      Næsti fundur og önnur mál.  Forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Ísl., mun verða í leyfi næsta hálfa árið og mun því varamaður hans, ÁI, sitja fundi Safnaráðs á því tímabili.  Næsti fundur skv. fundaáætlun er 25. mars n.k. en óskað var endurskoðunar á dagsetningu.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið/RH

(Fylgiskjal:  Styrkveitingar úr Safnasjóði 2004 skv. niðurstöðu 27. fundar Safnaráðs).