Fundargerð 108. fundar safnaráðs –

26. janúar 2012, kl. 12:15 – 14:15, fundarherbergi í turni Þjóðminjasafns

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Helgi Torfason, Halldór B. Runólfsson, Guðný Dóra Gestsdóttir, Rakel Halldórsdóttir frkv.stj. Jenný Lind Egilsdóttir boðaði forföll. Gestur á fundinum: Sveinbjörg Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Landskerfa bókasafna kynnti vefinn leitir.is.

1. Málefni til umræðu og ákvörðunar:

1.0. Fundargerðir 106. og 107. funda verða undirritaðar á næsta fundi.

1.1.  Skýrsla framkvæmdastjóra: 

Flutningur á listaverkum úr landi í tengslum
við starfsemi sendiráða. Af gefnu tilefni ritaði formaður bréf til Utanríkisráðuneytis þar sem góðfúslega er vakin athygli á ákvæðum laga nr. 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Samþykkt að senda dreifimiða um efnið á sendiráðin og einnig á útflutningsfyrirtæki og Póstinn. Bréf Minjasafnsins á Bustarfelli til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Safnaráði barst afrit af bréfi Minjasafnsins á Bustarfelli til mennta- og menningarmálaráðuneytis þar sem fjallað er um bága fjárhagsstöðu safnsins. Nefndarlaun fulltrúa hagsmunasamtaka í safnaráði. Frkv.stj. hefur óskað eftir því að þóknananefnd ákvarði nefndarlaun fyrir árið 2011 vegna þeirra fulltrúa í safnaráði sem eiga rétt á þeim. Umsóknir 2012. Borist hefur fjöldi umsókna. Um helmingur umsókna er gallaður vegna galla í rafrænu umsóknareyðublaði, en gallinn kemur fram í því að upplýsingar hafa dottið út úr umsóknunum. Töluverð vinna er fyrir höndum við öflun þessara upplýsinga að nýju. Samþykkt var að ráða Þóru Björk Ólafsdóttur verkefnabundið í að afla þessara upplýsinga. Greinargerðir vegna styrkja úr safnasjóði 2011.  Flest söfn hafa sent inn greinargerðir um nýtingu styrkja úr safnasjóði 2011. Greinargerðirnar verða hafðar til hliðsjónar við úthlutun úr safnasjóði 2012. Safnafræði við HÍ – tímakennsla. Frkv.stj. kynnti safnaráð, safnasjóð, safnalög og rekstrar- og lagaumhverfi safna í tveimur kennslustundum í námskeiðinu Faglegt starf safna við safnafræðiskor HÍ í janúar.  Samstarf um sameiginlega vefsíðu með upplýsingum um söfn. Safnaráð hefur rekið vefsíðuna sofn.is  (einnig söfn.is, museums.is og safnastarf.is) þar sem finna má lista yfir söfn í landinu. Rætt var um möguleikann á því að koma að samstarfi við Safnabókina, Íslandsstofu, Félag íslenskra safna og safnmanna og jafnvel fleiri aðila um eina sameiginlega vefsíðu yfir safnastarf í landinu. Slík vefsíða innihéldi upplýsingar um söfn úr Safnabókinni og væri uppfærð samhliða því sem Safnabókin yrði uppfærð. Vefsíðan yrði aðgengileg sem app fyrir i-phone símtæki og innihéldi möguleika á fréttaveitu þar sem kynna mætti dagskrá safna, safnadaga og aðrar upplýsingar á sviði safna. Samþykkt var að skoða möguleikann á þessu samstarfi og að ef að af verkefninu yrði myndi safnaráð láta fyrrgreind lén í verkefnið (lénin yrðu þó áfram í eigu safnaráðs).

1.2. Kynning frá leitir.is. Sveinbjörg Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Landskerfa bókasafna, kynnti vefinn leitir.is og möguleika hans. Fjallaði hún meðal annars um möguleikann á aðgengi að SARPI,menningarsögulegum gagnagrunni, í gegnum leitir.is. Almenn ánægja var með kynninguna og þennan möguleika.

1.3. Upplýsingar um Bátasafn Breiðafjarðar. Bréf barst frá Ásdísi Thoroddsen, stjórnarmanni í Félagi áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar, þar sem verkefni félagsins eru kynnt.

1.4. Þjónustusamningur safnaráðs við Þjóðminjasafns Íslands 2012. Undirritaður hefur verið Þjónustusamningur safnaráðs og Þjóðminjasafns Íslands vegna leigu safnaráðs á aðstöðu og þjónustu í Þjóðminjasafni Íslands á árinu 2012.

1.5. Flutningur á vefumsjón safnaráðs til nýs þjónustuaðila. Samþykkt var að taka tilboði Hugsmiðjunnar um vefumsjón fyrir safnaráð. Flutningur til nýs þjónustuaðila mun fara fram eins fljótt og unnt er.

2. Erindi til umræðu og ákvörðunar.

2.1. Umsókn Listasafns Sigurjóns Ólafssonar um frestun á nýtingu styrks frá 2011.
Erindið var samþykkt.

2.2. Umsókn Guðrúnar Öldu Gísladóttur um leyfi til útflutnings textíla úr fornleifauppgröftum í rannsóknarskyni. Samþykkt var á fundi safnaráðs þann 10. nóvember 2011 að nýta heimild laga nr. 105/2001 og leggjast gegn útflutningi textílanna sbr. sérfræðimat. Í samræmi við lögin var leitað formlegrar afstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Svar hafði ekki borist frá ráðuneytinu á síðasta fundi ráðsins. Svar hefur nú borist frá ráðuneytinu, sem styður ákvörðun safnaráðs. Guðrúnu Öldu hefur verið tilkynnt um niðurstöðuna.

2.3. Beiðni Mótorhjólasafns Íslands um viðurkenningu skv. 4. gr. safnalaga. Fjallað var á síðasta fundi ráðsins um erindi Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri, þar sem óskað var viðurkenningar safnaráðs á að safnið sé viðurkennt safn skv. 4. gr. safnalaga nr. 106/2001. Um er að ræða nýja stofnun og ekki er komin mikil reynsla á starfsemi hennar. Samþykkt var að óska eftir umsögnum Minjasafnsins á Akureyri og menningarfulltrúa Akureyrarbæjar um starfsemi Mótorhjólasafnsins. Svar barst frá Minjasafninu á Akureyri, sem tók ekki afstöðu til málsins. Safnaráð samþykkti að þar sem safnið hefur starfað í innan við ár og lítil reynsla er komin á starfsemi þess sé ekki unnt að meta starfsemina með tilliti til ákvæða safnalaga enn sem komið er. Safninu verður tilkynnt um niðurstöðu ráðsins.

3. Næsti fundur og önnur mál

Önnur mál:

Vorfundir höfuðsafna 2012. Samþykkt var að stefna að vorfundum höfuðsafna 2012 dagana 3. og 4. maí n.k.

Næsti fundur var skv. nýrri fundaáætlun áætlaður fimmtudaginn 23. febrúar 2012 kl 12:15.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 14:15/RH