Fundargerð 36. fundar Safnaráðs 13. janúar 2005, kl. 11:30-13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík
Viðstödd voru: Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Sigrún Ásta Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Jónína A. Sanders og Rakel Halldórsdóttir.
Jóhanns Ásmundssonar, f.v. ráðsmanns í Safnaráði, sem lést 31. desember 2004, var minnst í upphafi fundar. Jóhann var formaður Félags íslenskra safna og safnmanna og átti sæti í Safnaráði frá 3. apríl 2002 til dánardags.
1. Fundargerð 35. fundar undirrituð.
2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Vinnsla við umsóknir stendur yfir, enn á töluverður hópur eftir að skila hluta af fylgiskjölum með umsókn. Þjónustusamningur 2005 við Listasafn Íslands hefur verið undirritaður, er um að ræða sambærilegan samning og fyrir 2004. Drög að fjárhagsáætlun voru kynnt. Á árinu 2005 er gert ráð fyrir nokkuð umfangsmeiri áróðri til eflingar íslensks safnastarfs fjárhagslega og faglega, en undanfarin ár. Gert er ráð fyrir einu stóru málþingi á árinu og útgáfu ársskýrslu Safnaráðs 2004 samfara faggreinum um safnamál.
3. Erindi frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Erindið er framsent af menntamálaráðuneyti og fjallar um hugmynd Samtaka ferðaþjónustunnar um lengingu háannar í ferðaþjónustu. Safnaráð telur að um sé að ræða mál sem hver safnastofnun fyrir sig þarf að taka afstöðu til og þyrftu Samtök ferðaþjónustunnar að beita sér í þeim tilgangi
4. European Museum of the Year Award 2006. Samþykkt var einróma að tilnefna Þjóðminjasafn Íslands til samkeppni Evrópuráðs safna 2006, fyrir vel heppnaða endurskipulagningu og endurhönnun sýninga og starfsemi. MH, þjóðminjavörður, tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
Samþykkt var að frkv.stj. undirbyggi verkferli fyrir árlega tilnefningu fyrir næsta fund. Ferlið miðist við það að leit að tilnefningum hefjist að hausti og hugmynda að mögulegum kandídötum verði leitað hjá Félagi íslenskra safna og safnmanna, Íslandsdeild ICOM og höfuðsöfnum.
5. Samþykkt Humars eða frægðar. Skv. ósk forsvarsmanna Humars eða frægðar tók Safnaráð afstöðu til þess hvort ákvæði í samþykkt Humars eða frægðar væri fullnægjandi m.t.t. þess að rekstrarform stofnunarinnar verði viðurkennt m.t.t. starfsemi safns, en stofnunin er rekin af Smekkleysu SM, sem er einkahlutafélag. Skv. samþykktum ICOM, Alþjóðaráðs safna, skal hagnaður af starfsemi safns renna til uppbyggingar safnsins og hefur Safnaráð því sett spurningarmerki við það hvort einkahlutafélagsformið henti til reksturs safns. Safnaráð gerir athugasemd við 10. gr. samþykkta Humars eða frægðar þar sem segir að stjórn Smekkleysu SM ehf. skuli ákvarða hvernig safnkostinum verði ráðstafað verði safnið lagt niður. Samþykkti Safnaráð að m.t.t. viðurkenningar rekstrarforms yrði að breyta 10. gr. á þann hátt að þar kæmi fram að safnkostinum yrði komið fyrir í öðru safni verði safnið lagt niður. Taldi ráðið núverandi ákvæði 10. gr. stangast á við 3. gr. þar sem fram kemur að allur arður skuli renna óskiptur til uppbyggingar safnsins. Samþykkti ráðið að núverandi rekstrarform væri fullnægjandi fyrir starfsemi safns m.t.t. 3. gr. að því tilskyldu að 10. gr. yrði breytt í samræmi við tillögu ráðsins. Breytir sú samþykkt því ekki að Humar eða frægð hefur ekki verið álitið falla undir safnalög sem safn. Mun ráðið taka afstöðu til þess síðar.
6. Breytingar á safnalögum nr. 106/2001.
Safnaráð undirbýr formlegt erindi sem sent verður menntamálaráðuneyti, þar sem ráðið tilgreinir hvaða atriði þarf að leggja sérstaka áherslu á varðandi endurskoðun á safnalögum. Frkv.stj. mun athuga við ráðuneytið hvenær málið verður tekið upp formlega af hálfu ráðuneytisins. Samþykkt var að umfjöllun um málið skyldi haldið áfram á næsta fundi.
7. Lágmarkskröfur um starfsemi safns sem uppfyllir 4. gr. safnalaga. Um er að ræða drög að skilgreiningum Safnaráðs á hugtökum safnalaga og faglegu safnastarfi. Drögin verði skoðuð nánar í samræmi við lagastoð (komið verði á fundi með Ragnheiði H. Þórarinsdóttur í þeim tilgangi). Vísað verði í meira mæli í lög og reglugerðir, t.a.m. varðandi aðgengi og aðbúnað bygginga. Rætt var um aðgengismál í þessu samhengi og samþykkt að frkv.stj. spyrðist fyrir um það hjá ferlinefnd ÖBÍ hver staðan væri á norrænu verkefni um aðgengi á Íslandi.
8. Málþing Safnaráðs 2005 um stefnumörkun í safnamálum og menningarpólitíska stefnu.
ÓK kynnti hugmyndir um málþingið. Um verði að ræða íslenskt-norrænt málþing og verði fyrirlesarar m.a. fengnir frá hinum Norðlöndunum. Athyglin muni aðallega beinast að pólitíska valdinu og umræðuefnið verði fyrst og fremst upplýsingar um og greining á samfélagslegu hlutverki og gildi safna.
Hlutverk og gildi safna er þröngt skilgreint á Íslandi og oftast sér í lagi tengt þjóðerni. Áhersla verði hins vegar lögð á hlutverk safna í að skapa nútíma velferð samfélagsþegna. Eitt markmiða verði að sýna fram á að núverandi fjárveitingar til íslensks safnastarfs eru of lágar.
Miðað verði að því að boð um málþing verði sent út í apríl. Í dagskrá málþings verði gert ráð fyrir fulltrúum ríkisvalds og sveitarfélaga er hafa stefnumótunarvald fjárveitinga í höndum sér, s.s. fjárlaganefndar, menntamálanefndar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og óskað eftir að þessir aðilar útlisti stefnu viðkomandi nefndar/félags m.t.t. safnastarfs á Íslandi.
9. Fjallað var um launakjör framkvæmdastjóra, sem nú hefur starfað í tæp tvö ár hjá Safnaráði. Framkvæmdastjóri vék af fundi. Samþykktur var nýr launaflokkur fyrir framkvæmdastjóra.
10. Næsti fundur og önnur mál.
Næsti fundur skv. fundaáætlun er 27. janúar.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH