Fundargerð 4. fundar Safnaráðs, að Lyngási 7, Garðabæ,
22. febrúar 2002, kl. 13:00.
Viðstaddir voru þau Anna Guðný Ásgeirsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir, Gísli Sverrir Árnason, Álfheiður Ingadóttir (sat fyrri helming fundar), Jón Gunnar Ottósson (sat seinni helming fundar), Ólafur Kvaran, Jóhann Ásmundsson (ritari), Þorgeir Ólafsson var forfallaður.
Dagskrá:
Skjölum dreift (fundargerð síðasta fundar, tillögur að úthlutunum úr safnasjóði, 3. drögum að úthlutuarreglum úr safnasjóði).
Fyrsta lið skv. dagskrá ?Drög að reglugerðum? var frestað vegna forfalla ÞÓ.
Öðrum lið skv. dagskrá ?Drög að úthlutunarreglum safnasjóðs og umsóknareyðublað? var frestað.
Þriðji liður. Kynning forstöðumanna á söfnum á viðkomandi fagsviði (ÓK, MH, JBG)
MH kynnti söfn á sviði minjavörslunnar og sagði frá vinnu stýrihóps um safnastefnu 2002-2007 á því safnasviði.
Megin markmið þeirrar vinnu er að:
· Auka fagmennsku safnanna á öllum verksviðum þeirra.
· Draga úr faglegri einangrun safnmanna og auka samstarf safnanna.
· Nýta takmarkaða fjármuni betur.
· Auka rekstrarfé safnanna með öllum tiltækum ráðum.
Til hliðsjónar er skýrsla samgönguráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu, en starfsemi safna er þar talin mjög mikilvæg við uppbyggingu þessarar tegundar ferðaþjónustu.
Hlutverk starfshópsins er að setja saman drög að skýrslu og verður hún síðan kynnt á meðal sveitastjórnarmanna og safnmanna um allt land. Eftir þá fundarherferð verður skýrslan fullmótuð og lögð fram.
MH nefndi að það eru um 60 minjasöfn á landinu sem má skipta upp í þrjá megin flokka: Byggðasöfn, sérsöfn og safnvísa.
ÁI og JGB fjölluðu um náttúruminjasöfn. Samkvæmt safnalögum er gert ráð fyrir að Náttúruminjasafn Íslands verði höfuðsafn á safnasviði náttúruminja. Það safn hefur ekki enn verið stofnað, en Náttúrufræðistofnun Íslands gegnir hlutverki höfuðsafns náttúruminja tímabundið eða þar til Náttúruminjasafn Íslands er komið á laggirnar. Náttúrugripasafn Íslands er sýningarhluti stofnunarinnar, auk þess sem stofnunin rekur Náttúrugripasafn Akureyrar en safnið sjálft er í eigu Akureyrarbæjar. Náttúrufræðistofnun hefur mun víðtækara hlutverk en á safnasviði sbr. lög um Náttúrufræðistofnun. Skv. lögum ber þó stofnuninni að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði.
Innan vébanda Náttúrufræðistofnunar eru svokallaðar Náttúrustofur, en stofnunin getur byggst upp af allt að 5 setrum í einu í hverjum fjórðungi sem hvort um sig hefur sjálfstæðan fjárhag. Stofurnar eru ekki söfn, heldur gegna sambærilegu hlutverki og Náttúrufræðistofnun, nema þær eru staðbundnar.
ÁI lagði fram lista yfir nokkur náttúrugripasöfn en ekki hefur verið tekinn saman heildar listi yfir þau.
ÓK sagði frá stöðu Listasafns Íslands. Safnið er að byrja að takast á við nýtt hlutverk í samræmi við ný lög sem höfuðsafn á safnasviði lista og hafa margar spurningar vaknað í tengslum við þessa nýju stöðu safnsins, m.a. hvert sé þjónustuhlutverk safnsins gagnvart öðrum listasöfnum og hvort þessum auku skyldum safnsins verði mætt fjárhagslega.
ÓK nefndi að Listasafn Íslands hefði ekkert yfirlit um listasöfn í landinu, enda hefur það ekki verið skilgreint hlutverk þeirra að vera höfuðsafn fyrr en með nýjum lögum. Er þó ljóst að mjög öflug söfn eru víða um land, þótt oft væru þetta ekki sjálfstæðar stofnanir. Listasafn Íslands áformar fund næsta vor, með listasöfnum. Á fundinum verður rædd staða safnanna og ekki síst væntingar þeirra til höfuðsafnsins. Tengsl á milli listasafna hafa verið fremur lítil.
ÓK nefndi að LÍ ætti erfitt með að takast á við þetta nýja hlutverk, því það kallaði á nýjar skyldur sem safnið hefði hvorki mannafla né fjármagn til að sinna. Nokkur umræða varð um þessi atriði og ljóst að endurskoða þarf starfsemi höfuðsafnanna í ljósi nýrra laga.
Fjórði liður, umsóknir um styrki úr safnasjóði 2002.
Fundarmenn voru sammála um að þar sem ekki hefðu legið fyrir skýrar reglur um úthlutun úr safnasjóði þegar auglýst var eftir umsóknum síðastliðið haust bæri að taka mið af úthlutunarvenjum fyrri ára. Þær viðmiðanir sem væru notaðar nú við úthlutun væru því ekki bindandi á neinn hátt fyrir seinni tíma úthlutun úr sjóðnum.
Nauðsynlegt er að safnaráð starfi eftir skýrri skilgreiningu á hvað er safn, en samkvæmt skilningi laganna hafa eingöngu söfn rétt á að sækja um rekstrar- og verkefnastyrki. Í 4. gr. safnalaga nr. 106/2001 er safn skilgreint: ?Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar?.
Skv. 10. gr. geta öll söfn sem falla undir lögin sótt um verkefnastyrk, en til að geta sótt um rekstrarstyrki þurfa söfnin að uppfylla frekari ákvæði laga. Höfuðsöfn og önnur söfn sem rekin eru af ríkinu eiga ekki rétt til styrkja úr safnasjóði.
Nokkur umræða varð um hvernig bæri að túlka skilgreiningu 4. gr. um hvað er safn. Bent var á að í víðasta skilningi sé skilgreiningin mjög víðtæk þar sem krafan um að ?safna heimildum? þurfi ekki nauðsynlega að vísa til áþreifanlegra muna heldur getur hún einnig vísað til söfnunar upplýsinga um ?munina? sem eru síðan rannsakaðar og miðlað til almennings í formi sýningar. Mótrökin voru að slík starfsemi falli undir skilgreininguna ?sýning? en ekki ?safn?. Við úthlutun yrði að gera skýran greinarmun á sýningu og safni og lögin taka eingöngu til safna en ekki sýninga.
MH lagði fram lista yfir styrkumsóknir og tillögur að úthlutun. Jafnframt benti hún á að fjárlaganefnd hafi sett fram ósk um sérúthlutun úr sjóðnum til nokkurra safna. MH sagðist hafa kannað hjá Mrn. hvort slík beiðni frá fjárlaganefnd Alþingis væri bindandi fyrir safnaráð. Svar Mrn. var að safnaráð er með öllu óbundið af óskum fnd. Alþingi samþykkir hann óskiptan til úthlutunar í fjárlögum.
Í tillögunum sem voru lagðar fram kom fram sérstakur úthlutunarliður ?Sarpur?. Var óskað eftir nánari skýringu á þeim lið. MH greindi frá að þetta sé styrkur vegna undirbúnings og/eða skráningar í þjóðminjagrunninn Sarp. Þessi liður hafi verið inni í styrkveitingum Þjms. til minjasafna skv. fyrri safnalögum. Minjasöfnin hafi því gert ráð fyrir þessum styrk, enda sótt um fyrir setningu nýrra safnalaga. Var samþykkt að veita styrk til Sarps á þessu úthlutunarári, en safnaráð áskildi sér allan rétt til að taka hann út við næstu úthlutanir, enda verði þá úthlutað skv. nýrri reglugerð.
Spurt var hvort veita ætti styrki til kaupa á munum. Ekki var tekin nein ákvörðun þar um, en skv. lögum falla munir hvorki undir verkefni, né rekstur.
Almennar viðmiðanir við úthlutanir 2002
· Safnaráð veitir ekki styrk úr sjóðnum ef safnið fær verkefna- eða rekstrarstyrki beint af fjárlögum.
· Gerður skýr greinarmunur á safni og sýningu. Styrkir eingöngu til safna.
· Styrkir veittir v/Sarps, en liður verði felldur út við úthlutanir næstu ára.
· Ekki veittir styrkir vegna stofnkostnaðar, enda veitir Alþingi styrki til hans beint af fjárlögum skv. safnalögum.
· Viðmiðanir fyrir styrkveitingar ársins 2002 eru ekki bindandi fyrir seinni tíma úthlutun, enda verður þá tekið mið af nýjum úthlutunarreglum sem safnaráð er að vinna að.
Þess næst var farið yfir hverja umsókn fyrir sig og þær ræddar og metnar. Viku GSÁ og JÁ af fundi þegar styrkumsóknir safnanna sem þeir veita forstöðu voru metnar. Ýmsar athugasemdir og breytingar voru gerðar á fyrstu tillögunum og var MH falið að senda breytingartillögur til safnaráðs fyrir 5. fund þegar teknar yrðu endanlegar ákvarðanir um úthlutun ársins 2002 úr safnasjóði.
Fundi slitið 17:00/JÁ