Fimmtudaginn 2. júlí 2020 kl. 11-13
Staðsetning: Safnahúsið
Viðstödd á staðnum: Ólafur Kvaran, formaður, Anna Sigríður Kristjánsdóttir, Helga Lára Þorsteinsdóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir og Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri. Viðstödd með fjarfundarbúnaði: Haraldur Þór Egilsson. Harpa Þórsdóttir, Hilmar Malmquist og Margrét Hallgrímsdóttir komust ekki.
1. Mál til kynningar
- Yfirlit yfir starfsemina frá síðasta fundi.
- Úrræði stjórnvalda nýtast ekki söfnum. Söfn hafa ekki fengið neinn beinan stuðning frá stjórnvöldum í kjölfar COVID-19 og komið hefur í ljós að sá stuðningur sem á að gagnast fyrirtækjum og öðrum aðilum í rekstrarerfiðleikum, s.s. lokunarstyrkir stjórnvalda, geta ekki nein viðurkennd söfn nýtt sér, vegna strangra reglna. Auk þess hefur verið tekið fyrir að söfn geti nýtt sér hlutabótaleið atvinnuleysissjóðs, sem mörg söfn sem eru sjálfseignarstofnanir nýttu sér. Safnaráð samþykkti að senda mennta- og menningarmálaráðherra minnisblað vegna fyrrgreindra aðstæðna.
- Könnun um COVID-19 og söfn. Drög að skýrslu um niðurstöðu könnunar kynntar.
- Ársskýrsla safnaráðs – upplýsingar. Samkvæmt upplýsingum mennta- og menningarmálaráðuneytisins fæst ekki staðfesting á rekstrarniðurstöðu safnaráðs 2019 fyrr en í lok ágúst í fyrsta lagi. Það hefur áhrif á útgáfu ársskýrslu ráðsins og frestast hún þá þangað til að niðurstaða fæst.
- Aukaúthlutun úr safnasjóði 2020. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur að fenginni umsögn safnaráðs úthlutað úr flýttri aukaúthlutun safnasjóðs 2020. Að þessu sinni er aukaúthlutun safnasjóðs u.þ.b. hálfu ári fyrr á ferðinni en venjulega, enda er brýn þörf hjá söfnum vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Bárust alls 37 umsóknir frá viðurkenndum söfnum að heildarupphæð 61.195.000 kr. Allar umsóknir hljóta styrk og er heildarstyrkveiting 40.124.000 kr. Flýtt aukaúthlutun var með öðru sniði en venjulega, en styrkur var veittur til eflingar á faglegu starfi safnanna og verður að nýta styrkupphæðina á árinu 2020.
- Vettvangsferð safnaráð 2020. Umræða um vettvangsferð safnaráðs sem verður farin í október næstkomandi.
2. Mál til ákvörðunar
- Viðbót við umsóknarferli um viðurkenningu safns. Samþykkt var að bæta við eftirfarandi klausu við mat á umsóknum um viðurkenningu safns:
Ef safn sem sækir um uppfyllir öll skilyrði viðurkenningar, þá getur komið til þess- að safnaráð sendi aðila úr eftirlitsnefnd safnaráðs, eða annan bæran aðila, til að taka út aðstöðu þess safns sem sækir um viðurkenningu. Heimsóknin myndi líta til sömu atriða og fram koma í eftirlitsskýrslum og matsskýrslum 2. hluta eftirlits safnaráðs með viðurkenndum söfnum.
- að safnaráð kalli til sérfræðing til að meta önnur gögn, sem reksturinn grundvallast á, s.s. teikningar húsnæðis, úttektir, aðgengi, leyfi eða til að taka út húsnæðið sjálft ef þörf krefur.
- Beiðni um ósk um breytingu á nýtingu styrks. Samþykkt var beiðni frá Hafnarborg um breytingu á nýtingu verkefnastyrks frá 2019
- FÍSOS -aðild fyrir safnaráð. Samþykkt var að safnaráð borgi fyrir aðild að FÍSOS fyrir þá safnaráðsmeðlimi sem ekki fá aðildina greidda af sínum vinnustað.
3. Önnur mál
Ræddur var möguleiki á seinni aukaúthlutun úr safnasjóði 2020, símenntunarstyrki fyrir viðurkennd söfn. Samþykkt var að hafa þá úthlutun og að hún yrði auglýst snemma næsta haust.
Fundi slitið 12:20 / ÞBÓ