Miðvikudaginn 25. apríl kl. 15.00 – 17.00
Staðsetning: Safnahúsinu, Hverfisgötu.
Viðstödd: Ólafur Kvaran, formaður, Anna Sigríður Kristjánsdóttir, varaformaður, Helga Lára Þorsteinsdóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir, Harpa Þórsdóttir, Hilmar Malmquist, Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri og Eiríkur Þorláksson sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu var á fundi frá 15.00 – 16.00. Haraldur Þór Egilsson komst ekki.
1. Mál til kynningar
1.1 – Yfirlit yfir starfsemi ráðsins frá síðasta fundi.
1.2 – Gestur fundarins var Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og tengiliður safnaráðs við ráðuneytið. Sagði hann meðal annars frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023 og þeim markmiðum sem þar koma fram, auk annarra mála.
1.3 – Framkvæmdastjóri greindi frá starfi vinnuhóps um stafræna miðlun safna og kynnti niðurstöður könnunar sem var send viðurkenndum söfnum. Hugmyndir um málþing næsta haust var rætt.
1.4 – Ný persónuverndarlöggjöf (GDPR) kemur til framkvæmda þann 25. maí 2018 í Evrópu. Vernd persónuupplýsinga er talinn hluti af EES-samningnum og mun löggjöfin því verða tekin upp í íslenskan rétt. Sá hluti vefsíðu safnaráðs og verkferla sem safnaráð þarf að skoða í sambandi við nýju persónuverndarlöggjöfina, er helst þær umsóknir sem ráðið fær í gegnum Umsóknavef safnaráðs. Framkvæmdastjóri hefur verið í samskiptum við Origo vegna þessa máls og hefur átt sér stað umfangsmikil vinna hjá Origo hf. síðan í haust þar sem kortlögð er öll vinnsla í kerfum þeirra með tilliti til þeirra skilyrða sem fram koma í GDPR. Skv. GDPR ber ábyrgðaraðilum (safnaráði í þessu tilviki) að gera vinnslusamninga við vinnsluaðila (Origo hf) en viðskiptavinum Origo mun standa til boða sniðmát sem við munum nýta okkur. Einnig verða önnur kerfi skoðuð og gerðar ráðstafanir ef í ljós kemur að þar er um persónuupplýsingar að ræða sem falla undir þessa löggjöf. Við fyrstu skoðun virðist ekki svo vera, en því að safnaráð er með flesta tækniþjónustu hjá Origo, þá fáum við ráðleggingar þaðan.
1.5 – Bréf frá tveimur umsækjendum vegna aðalúthlutunar 2018 lögð fyrir safnaráð.
1.6 – Stefnumörkun um safnastarf og safnastefnur höfuðsafna. Í safnalögum nr. 141/2011 er talið eitt af verkefnum safnaráðs: „b) að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn sem send er ráðherra til samþykktar“. Rætt var skipulag þessa verkefnis, en safnaráð mun halda áfram vinnu við verkefnið á næsta ári. Ljóst er að stefnumörkun safnaráðs um safnastarf verður að byggja á stefnumörkun höfuðsafnanna sem rætt er um í 8. grein: „Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.„ Á fundinum var upplýst að Listasafn Íslands mun vinna að sinni safnastefnu í sumar og haust og Náttúruminjasafn Íslands er einnig að vinna að sinni stefnu og sér fyrir að verður tilbúin næsta vor. Þjóðminjasafn Íslands gaf út þriðju safnastefnu sína í apríl á síðasta ári, sjá: http://www.thjodminjasafn.is/media/utgafa/Thjodm_A4_Safnastefna_2017_WEB_120dpi.pdf . Því er hægt að áætla að vinna hjá safnaráði að stefnumörkun um safnastarf geti hafist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
2. Mál til ákvörðunar
– Engin mál voru á dagskrá til ákvörðunar
3. Önnur mál
Fundurinn ákvað að fara á leit við viðurkennd söfn að upplýsa safnaráð um ef breyting verður á stöðu safnstjóra, senda ætti safnaráði upplýsingar um menntun og starfshlutfall og einnig ef starfsskyldur safnstjóra breytist.
Fundi slitið kl. 16.50 / ÞBÓ