Föstudaginn 6. mars 2020 kl. 15-17
Staðsetning: Safnahúsið

Viðstödd: Ólafur Kvaran, formaður, Anna Sigríður Kristjánsdóttir, Gunnþóra Halldórsdóttir (varamaður), Sigríður Björk Jónsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir og Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri. Haraldur Þór Egilsson, Helga Lára Þorsteinsdóttir, Hilmar Malmquist og Harpa Þórsdóttir forfölluðust.

1. Mál til kynningar

  1. Yfirlit yfir starfsemina frá síðasta fundi.
    • Safnaráð, ICOM á Íslandi og FÍSOS héldu pallborðsfund miðvikudaginn 4. mars í Sjóminjasafninu í Reykjavík, þar sem til umfjöllunar var hin nýja safnaskilgreining ICOM. Hin nýja safnaskilgreining var kynnt á aðalfundi Alþjóðaráðs safna sem haldinn var í Kyoto í Japan, í september 2019. Niðurstaða fundarins var að fresta kosningu um skilgreininguna og kalla eftir frekari ábendingum frá félagsmönnum um innhald skilgreiningarinnar. Jette Sandahl, formaður nefndar um hina nýja safnaskilgreiningu flutti erindi á fundinum og skýrði þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað og hvert er markmið núverandi vinnuhóps er um efnið. Aðrir í pallborði voru Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Margrét Hallgrímsson, þjóðminjavörður, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, doktorsnemi í safnafræði og Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði í H.Í. Rúmlega 60 manns sóttu fundinn og var honum streymt beint.
  2. Museums of Impact – kynning á verkefni. Þessum lið var frestað til næsta fundar.
  3. Tillaga safnaráðs um aðalúthlutun úr safnasjóði kynnt. 178 umsóknir bárust um styrki til eins árs að heildarupphæð 275.469.165 kr. og 23 Öndvegisumsóknir bárust að heildarupphæð árið 2020 fyrir 80.325.500 kr. og allan styrktímann 2020 – 2022 fyrir 237.712.100 kr. Tillaga hefur verið send til mennta- og menningarmálaráðherra til samþykktar.
  4. Umræðu um vinnu við stefnumótun safnaráðs, en rýnifundir hagsmunaaðila eru hafnir.
  5. Nýr starfsmaður í hlutastarfi á skrifstofu safnaráðs. Klara Þórhallsdóttir hefur hafið störf á skrifstofu safnaráðs og mun vera í 20-30 % starfi eftir atvikum. Klara hefur umfangsmikla reynslu af starfi innan safna, m.a. hjá Listasafni Reykjavíkur og hjá Hafnarborg. Klara mun vinna hjá safnaráði meðfram núverandi stöðu sinni sem verkefnastjóri hjá Kynningarmiðstöð Íslenskrar myndlistar.

2. Mál til ákvörðunar

  1. Beiðni barst frá Kveik á RÚV um afhendingu gagna vegna þáttar um varðveislumál menningarminja á landinu. Safnaráð ráðfærði sig við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna beiðnarinnar og í kjölfarið afhenti safnaráð RÚV allar matsskýrslur sem safnaráð hefur unnið vegna þriðja hluta eftirlits með viðurkenndum söfnum.
  2. Frá nefndasviði Alþingis – umsagnarbeiðni barst vegna tveggja mála; 277. máls „Tillögu til þingsályktunar um verndun og varðveislu skipa og báta“ og 308. máls „Tillögu til þingsályktunar um viðhald og varðveislu gamalla báta”. Ráðið var jákvætt gagnvart þessum tillögum og var samþykkt að senda umsagnir vegna beggja málanna.

3. Önnur mál

  • Safnaráð samþykkti að fara á leit við ICOM og FÍSOS um að kanna samstarf safnaráðs við ICOM og FÍSOS um umræðufundi og fræðslufundi á borð við fundinn um safnaskilgreininguna. Margrét Hallgrímsdóttir lét bóka að tillaga hennar væri að höfuðsöfnin yrðu með í þessu samstarfi.

Fundi slitið 17:00 / ÞBÓ