Fundargerð 75. fundar safnaráðs
20. nóvember 2008, kl. 15:00 – 17:15, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerð 74. fundar var samþykkt og undirrituð.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Óafgreidd erindi safnaráðs hjá menntamálaráðuneyti.  Tvö erindi safnaráðs eru óafgreidd hjá menntamálaráðuneyti, um er að ræða ósk um lögfræðilegt álit um túlkun safnalaga nr. 106/2001, dags. 17. nóvember 2005 og beiðni safnaráðs um heimild til fundar við formann fjárlaganefndar, dags. 19. maí 2008. Þá hefur ráðuneytið tilkynnt að erindi safnaráðs dags. 16. nóvember 2004, varðandi beinar fjárveitingar fjárlaganefndar til safna, verði ekki svarað (en mrn lokaði málinu 2005 án aðgerða). Safnasjóður skv. fjárlagafrumvarpi 2008. Farið var yfir stöðu safnasjóðs skv. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Samþykkt var að senda Alþingismönnum og menntamálaráðuneyti samantekt á upplýsingum úr grein Önnu Þorbjargar Þorgrímsdóttur í tímariti Hugvísindastofnunar HÍ, Ritinu (1/2008), sem verið hefur til umræðu meðal safnmanna undanfarna mánuði. Í greininni kemur m.a. fram að ríkisstyrkir til safnastarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu uxu um 500% á tímabilinu 2002-2008, en aukning til varðveislustofnana ríkisins (aðallega ríkissafna) og safnasjóðs var einungis 83%. Umsóknir í safnasjóð vegna 2009. Umsóknir hafa borist frá rúml. 50 stofnunum. Vinna við yfirferð og mat umsókna er hafin. Uppbygging meistaranáms í safnafræði við HÍ. Starfshópur í HÍ, sem frkv.stj. stýrir, vinnur áfram að undirbúningi námsins, m.a. upplýsingum í kennsluáætlun og  á vefsíðu. Háskóli Íslands hefur auglýst eftir lektor í safnafræði, lektor verður að öllum líkindum ráðinn í janúar. Dreifimiði vegna út- og innflutnings menningarverðmæta. Væntanlegir samstarfsaðilar eru menntamálaráðuneyti, íslenska UNESCO nefndin og tollstjóraembættið. Farið var yfir kostnaðaráætlun verkefnisins. Kostnaðaráætlun var samþykkt. Ráðist verður í hönnun, prentun og dreifingu dreifimiðanna á næstunni. Erindi Þjóðminjasafns Íslands til RÚV vegna útvarpsminja á Vatnsenda. Erindið var kynnt safnaráði til upplýsingar. Kynningarbréf frá Museumstjenesten. Erindið barst safnaráði, en einnig áframsent frá menntamálaráðuneyti. Um er að ræða kynningu á starfsemi Museumstjenesten í Danmörku. Frkv.stj. hefur kynnt erindið á Safnlistanum, tölvupóstlista safnmanna. Frá menntamálaráðuneyti: Erindi belgískrar menningarmiðstöðvar ungs fólks. Óskað samstarfs við menningarstofnanir, þ.m.t. söfn. Frkv.stj. hefur kynnt erindið á Safnlistanum. Menningarmiðstöð Þingeyinga – skráningarleyfum í SARP sagt upp. Kynnt safnaráði til upplýsingar, í ljósi mikilvægis þess, skv. safnalögum og alþjóðlegum samþykktum safna, og einnig með tilliti til mögulegs samstarfs Byggðasafns Þingeyinga og Þjóðminjasafns Íslands um fjarskráningu var samþykkt að hvetja forsvarsmenn safnsins til að endurskoða ákvörðun sína um uppsögn skráningarleyfanna. CECA ráðstefna á Íslandi 2009. Safnaráði barst bréf þar sem styrkur til verkefnisins er þakkaður og veittar upplýsingar um ráðstefnuna. CECA er deild innan ICOM, alþjóðaráð safna. Flugsafn Íslands. Frkv.stj. heimsótti Flugsafn Íslands, í boði safnsins, er Gullfaxi, fyrsta þota Íslendinga, var afhjúpaður. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á safninu. European Museum of the Year 2001 (EMYA 2010). Frkv.stj. mun senda bréf til höfuðsafna, ICOM og FÍSOS, þar sem óskað verður eftir tillögum að tilnefningum. Hugmynd að samstarfi Söguseturs og Byggðasafns Vestmannaeyja. Frkv.stj. átti fund með  forsvarsmönnum Sögusetursins 1627 en hugmyndir eru uppi um samstarf Vestmannaeyjabæjar og Sögusetursins vegna Byggðasafns Vestmannaeyja. Áætlað er að Sögusetrið taki yfir rekstur byggðasafnsins með rekstrarstyrk frá Vestmannaeyjabæ. Mikilvægt er að öryggi safnkostsins og faglegt safnastarf verði tryggt.

3. Safnamál á Akranesi. Áform eru uppi hjá Akraneskaupstað um útvistun verkefnis um rekstur Byggðasafnsins að Görðum. Mikilvægt er að öryggi safnkostsins og faglegt safnastarf verði tryggt. Safnaráð samþykkti upplýsingabréf sem sent verði sveitarstjórnum sem hafa í sinni umsjá söfn sem hljóta styrki úr safnasjóði. Ráðið sendir bréfið sem eftirlitsaðili safna sem hljóta ríkisstyrki, í samræmi við safnalög nr. 106/2001, en í bréfinu er bent á mikilvægi þess að staðið sé faglega að öllum breytingum á rekstrarformi safna, sem og þess að breytingar samræmist stjórnsýslulögum og safnalögum.

Höfundarréttarmál safna. Frkv.stj. hefur komist að því að starfandi er nefnd í menntamálaráðuneyti sem fjallar um höfundarréttarmál. Nefndin starfar skv. reglugerð nr. 500 frá 21. apríl 2008. Frkv.stj. átti fund með Erlu S. Árnadóttur hrl. og forsvarsmönnum nokkurra safna. Kom ljóslega fram þörfin á því að koma málinu í farsælan farveg, sér í lagi hvað varðar listasöfn og nýtingu myndefnis þaðan í fræðsluskyni. Eins og staðan er í dag hindrar höfundarréttur eðlilega notkun myndefnis frá söfnum í menntunarskyni og takmarkar verulega möguleika kennara og safnkennara á miðlun íslenskrar lista- og menningarsögu til nemenda og almennings. Ljóst er að um verður að ræða töluverðan lögfræðikostnað haldi safnaráð málinu áfram eins og gerð er tillaga að. Samþykkt var, í ljósi skynsamlegrar meðferðar fjármuna ríkisins, að frkv.stj. athugaði möguleikann á því að  nefnd ráðuneytisins um höfundarréttarmál taki málið upp, með hagsmuni og lífsgæði almennings og almennt aðgengi þjóðarinnar að menningararfi að leiðarljósi.

4. Safngestakannanir. Frkv.stj. kynnti á Safnlistanum, til upplýsingar, fyrirhugað verkefni Kulturarvsstyrelsen í Kaupmannahöfn, ríkisstofnun sem fjallar heildrænt um safnamál í Danmörku, þar sem semræmd gestakönnun verður lögð fyrir gesti danskra ríkissafna og annarra safna sem hljóta ríkisstyrki þar í landi. Samþykkt var að fara í gang með svipað verkefni á íslenskum söfnum og frkv.stj. falin umsjón með verkefninu.

5. Þjónustu- og varðveisluhúsnæði safna. Frkv.stj. kynnti tillögu sína að verkefni þar sem athuguð yrði staða mála, aðstæður og uppbygging hvað varðar þjónustu- og varðveisluhúsnæði safna um landið og gerð tillaga að samvinnu og stefnu í þessum málum á hverju landsvæði. Samþykkt var að fara í gang með slíkt verkefni og frkv.stj. falin msjón með verkefninu.
  
6. Erindi frá Jesse Byock. Safnaráði barst erindi frá Jesse Byock þar sem óskað var eftir framlengdu leyfi til vörslu minja úr fornleifauppgrefti við Hrísbrú, sem skila átti fyrir 1. september 2008 skv. útgefnu leyfi safnaráðs. Jafnframt var óskað framlengingar á leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands v.  útflutnings dýrafræðilegra minja. Safnaráð vísaði erindinu til afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrufræðistofnun hefur veitt framlengda heimild fyrir útflutningi. Óskað var umsagnar frá forvörðum Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifavernd. Umsögn Þjóðminjasafns var jákvæð. Ekki hefur borist umsögn frá Fornleifavernd ríkisins. Samþykkt var að veita framlengt leyfi til eins árs vegna áframhaldandi vörslu minjanna erlendis, háð rannsóknarleyfi frá Fornleifavernd ríkisins.

7. Erindi Síldarminjasafns Íslands. Safnaráði barst erindi frá Síldarminjasafni Íslands varðandi markmið safnsins. Safnaráð samþykkti svarbréf.

8. Erindi vegna Safnahelgar á Suðurlandi. Safnaráði barst erindi frá R3-ráðgjöf, þar sem þess er óskað að ráðið styrki Safnahelgi á Suðurlandi. Samþykkt var að vísa á umsóknarferli í safnasjóð, en safnaráð auglýsir árlega eftir umsóknum í sjóðinn, frestur vegna umsókna 2009 er útrunninn.

9. Erindi frá menntamálaráðuneyti vegna erindis World Jewish Restitution Organization. Safnaráði barst erindi frá menntamálaráðuneyti þar sem vísað er til bréfs frá World Jewish Restitution Organization. Í bréfi stofnunarinnar er spurt hvort mögulega sé að finna listaverk eða önnur menningarverðmæti í íslenskum menningarstofnunum, sem nasistar eða bandamenn þeirra rændu á árunum 1933-1945. Ráðuneytið óskaði eftir því að safnaráð kynnti söfnum, sem njóta stuðnings úr safnasjóði, erindi bréfsins og að þau kanni safneign sína. Safnaráð hefur sent út bréf þessa efnis  og hafa öll söfnin svarað. Svarbréf hefur verið sent ráðuneytinu, en ekkert safnanna telur að slíka gripi sé að finna í safnkosti sínum.

10. Næsti fundur og önnur mál. Enginn fundur er áætlaður í desember, næst verður fundað í byrjun árs 2009, frkv.stj. mun senda út tillögu að fundartíma.
Önnur mál:
Náttúruminjasafn Íslands. HT kynnti drög að stefnumörkun Náttúruminjasafns Íslands fyrir árin 2008-2013. Stefnan er nú til umfjöllunar í menntamálaráðuneyti. Jafnframt kynnti HT grein um Náttúruminjasafn Íslands í Náttúrufræðingnum 2008/77, tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, þar sem hann bendir á mikilvægi þess að unnið verði markvisst að uppbyggingu safnsins.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:15/RH