Fundargerð 74. fundar Safnaráðs 10. október 2008, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands.
Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.
- Fundargerð 73. fundar var samþykkt og undirrituð.
- Skýrsla framkvæmdastjóra. Ritun safnaráðs. Samþykkt var að rita framvegis heiti safnaráðs og safnasjóðs með lágstöfum í samræmi við ritun menntamálaráðuneytis á þessum heitum. Grein Önnu Þorbjargar Þorgrímsdóttur í Ritinu. Fjallað var um grein AÞÞ sem birt var í Ritinu (1/2008). Um er að ræða ádeilu á núverandi fyrirkomulag ríkis á fjárveitingum til safnastarfs. Mikilvægt er að faglegar forsendur séu að baki ákvörðunartöku og veitingu fjármuna til safnastarfs og minjavörslunnar. Höfundarréttarmál safna. Erla S. Árnadóttir hrl. vinnur að málinu. Uppbygging meistaranáms í safnafræði við HÍ. Starfshópur í HÍ, sem frkv.stj. stýrir, vinnur áfram að undirbúningi námsins. Háskóli Íslands hefur auglýst eftir lektor í safnafræði og er umsóknarfrestur til 27.október. Umsóknir í safnasjóð vegna 2009. Umsóknir eru teknar að berast, umsóknarfrestur er til og með 1. nóvember. Leyfi til útflutnings – Kevin P. Smith. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur heimilað Kevin P. Smith útflutning og rannsókn dýrafræðilegra minja úr uppgrefti við Gilsárbakka. Safnaráð vísaði erindinu til afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2001. Hugmynd að samstarfi Söguseturs og Byggðasafns Vestmannaeyja. Hugmyndir eru uppi um samstarf Vestmannaeyjabæjar og Sögusetursins1627 vegna Byggðasafns Vestmannaeyja. Áætlað er að Sögusetrið taki yfir rekstur byggðasafnsins með rekstrarstyrk frá Vestmannaeyjabæ. Safnaráð mun óska eftir nánari útlistun á eðli samstarfsins, þar sem Byggðasafn Vestmannaeyja hefur þegið styrki úr safnasjóði. Mikilvægt er að öryggi safnkosts byggðasafnsins verði tryggt. Dreifimiði vegna út- og innflutnings menningarverðmæta. Frkv.stj. hefur óskað eftir samstarfi menntamálaráðuneytis, íslensku UNESCO nefndarinnar og tollstjóraembættisins um verkefnið. Allir þessir aðilar voru jákvæðir með tilliti til samstarfs. Áætlað er að kostnaður vegna hönnunar og prentunar greiðist úr safnasjóði.
- Framkvæmdastjóri – launamál/stofnanasamningur. Stofnanasamningur hefur ekki verið gerður fyrir safnaráð, enda mat Ríkisendurskoðunar að ekki sé þörf á slíkum samningi fyrir ráðið. Samþykkti safnaráð að grunnflokkun launa framkvæmdastjóra yrði í samræmi við grunnflokkun launa sviðsstjóra skv. stofnanasamningi Þjóðminjasafns Íslands.
- Ný frumvörp til safnalaga og laga um menningararfinn. Fjallað var um ný frumvörp til safnalaga, laga um menningarminjar og laga um skil menningarverðmæta til annarra landa. Fjallað var um athugasemdir Þjóðminjsafns Íslands, Félags íslenskra safna og safnmanna og Félags íslenskra safnafræðinga. Safnaráð gerði drög að athugasemdum ráðsins við lagafrumvörpin, sem samþykktar verða í tölvupósti og sendar menntamálaráðuneyti í framhaldi. Telur ráðið mikilvægt að safnaráð haldi sjálfstæði sínu áfram og að hlutverk höfuðsafna verði skýrt. Jafnframt telur ráðið mikilvægt að fjallað verði um höfundarréttarmál á sviði safnastarfs í safnalögum.
- Þjónustu- og varðveisluhúsnæði safna. Erindinu var frestað til næsta fundar.
- Erindi frá Jesse Byock. Safnaráði barst erindi frá Jesse Byock þar sem óskað var eftir leyfi til útflutnings minja úr fornleifauppgrefti við Hrísbrú. Safnaráð vísaði erindinu til afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem um var að ræða dýrafræðilegar minjar, í samræmi við lög nr. 105/2001. Náttúrufræðistofnun hefur veitt heimild fyrir útflutningi. Safnaráð hefur áður veitt Jesse Byock leyfi til tímabundins útflutnings menningarverðmæta en þau leyfi runnu út 1. september 2008. Byock hefur þó enn í vörslu sinni 6 glerperlur og mannabeinabrot úr fornleifauppgröftum. Safnaráð benti honum á (skv. bréfi ráðsins dags. 16. september 2008) mikilvægi þess að sækja um nýtt leyfi til að halda þessum fornminjum í vörslu sinni. Enn hefur ekki borist svar. Samþykkt var að senda ítrekun sama efnis.
- Erindi frá menntamálaráðuneyti vegna erindis World Jewish Restitution Organization. Safnaráði barst eindi frá menntamálaráðuneyti þar sem vísað er til bréfs frá World Jewish Restitution Organization. Í bréfi stofnunarinnar er spurt hvort mögulega sé að finna listaverk eða önnur menningarverðmæti í íslenskum menningarstofnunum, sem nasistar eða bandamenn þeirra rændu á árunum 1933-1945. Ráðuneytið óskaði eftir því að safnaráð kynnti söfnum, sem njóta stuðnings úr safnasjóði, erindi bréfsins og að þau kanni safneign sína. Safnaráð hefur sent út bréf þessa efnis og hafa flest safnanna svarað. Engin menningarverðmæti af þessum toga eru í safnkosti þeirra.
- Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur safnaráðs verður fimmtudaginn 20. nóvember n.k. í samræmi við fundaáætlun.
Önnur mál:
Höfundarréttarmál safna. Fjallað var um mikilvægi þess að koma höfundarréttarmálum á sviði safnastarfs í farsælan farveg. Eins og staðan er í dag hindrar höfundarréttur eðlilega notkun myndefnis frá söfnum í menntunarskyni og takmarkar verulega möguleika kennara og safnkennara á miðlun íslenskrar lista- og menningarsögu til nemenda og almennings.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH