Fundargerð 70. fundar Safnaráðs

21. apríl, kl. 12:00 – 14:00

Þjóðminjasafni Íslands v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerðir 67., 68. og 69. fundar voru samþykktar og undirritaðar.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Nýir fulltrúar í Safnaráði. Í framhaldi af stjórnarskiptum hjá Félagi íslenskra safna og safnmanna hefur menntamálaráðuneyti skipað nýja fulltrúa FÍSOS í Safnaráð í samræmi við tilnefningar félagsins. AlmaDís Kristinsdóttir er skipuð aðalfulltrúi félagsins og Eiríkur Páll Jörundsson varafulltrúi. Helga Bjarnadóttir hefur verið skipuð varafulltrúi Náttúruminjasafns Íslands, tilnefnd af safninu. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands og lögbundinn aðalfulltrúi safnsins í Safnaráði hefur verið skipaður varaformaður í stað Karls Rúnars Þórssonar, sem hefur vikið úr ráðinu sem aðalfulltrúi FÍSOS. Nýir fulltrúar voru boðnir velkomnir til starfa með ráðinu og fráfarandi fulltrúum þökkuð vel unnin störf í þágu Safnaráðs. Safnastarf.is. Upplýsingavefsíðan safnastarf.is, sem Safnaráð heldur úti, hefur verið tekin í notkun. Á síðunni er að finna skrá yfir safnastarf í landinu, söfn, sýningar og setur, en stofnanirnar sjálfar sjá um skráningu, viðhald og uppfærslu upplýsinga á síðunni með aðgangsorði. Þegar hafa á þriðja tug safnastofnana skráð sig á síðuna. Aðgengi fyrir alla. Fundur Þjóðminjasafns og Safnaráðs um aðgengismál á söfnum verður 23. apríl 2008. Munu fulltrúar safna á landinu öllu kynna verkefni sem miða að bættu aðgengi að söfnum á landinu. Jafnframt munu fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands og Alþjóðahúss flytja erindi um aðgengi umbjóðenda þeirra að söfnum. Umsagnir. Frkv.stj. hefur bent á Safnaráð og Náttúruminjasafn Íslands sem fagaðila hvað varðar umsagnir um málefni á sviði menningar- og náttúruminja sem eru til umræðu hjá Alþingi. Einnig benti frkv.stj. á Félag íslenskra safna og safnmanna og Félag íslenskra safnafræðinga sem umsagnaraðila. Uppbygging meistararnáms í safnafræði við HÍ. Frkv.stj. veitir starfshópi um uppbyggingu meistaranáms í safnafræði við HÍ forstöðu en starfshópurinn hefur verið starfandi frá vori 2006. Fjármögnun stofnsetningar námsins hefur verið helsta verkefni starfshópsins frá upphafi. Mikilvægur áfangi náðist nú í apríl þegar Háskóli Íslands samþykkti að leggja 4,5 millj. á ári í 4-5 ár í stöðu lektors í safnafræði við félagsvísindadeild. Féð er hluti af samningi menntamálaráðuneytis og HÍ til nokkurra ára um auknar fjárveitingar til skólans. Stefnt er að því að bjóða upp á námið frá hausti 2009. Um verður að ræða mikilvægt skref í átt að faglegri uppbyggingu safnastarfs á Íslandi. Opinber tölfræði fyrir söfn. Frkv.stj. hitti Ragnar Karlsson hjá Hagstofu Íslands til að ræða möguleika á samstarfi um söfnun og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga um safnastarf í landinu. Mun frkv.stj. vinna tillögu að spurningalista í vefkerfinu Questionpro, sem Safnaráð er áskrifandi að, og bera undir Ragnar til samþykkis. Stofnanasamningur fyrir Safnaráð. Í frh. af ákvörðun síðasta fundar ræddi  frkv.stj. við Viðar H. Jónsson hjá Ríkisendurskoðun um mikilvægi þess að hafa stofnanasamning fyrir Safnaráð. Viðar taldi stofnanasamning ekki nauðsynlegan ráðinu eins og staðan væri í dag. Íslensku safnaverðlaunin – hýsing. ICOM á Íslandi og FÍSOS óskuðu eftir því að fá að benda á Safnaráð sem hýsingaraðila fyrir ábendingar vegna Íslensku safnaverðlaunanna. MH, formaður, samþykkti að skrifstofa Safnaráð hýsti ábendingar fyrir félögin. Voru fundarmenn einróma samþykkir þeirri ákvörðun. 

3. Þjónustusamningar safna – leiðbeiningar, stofnskrár safna – leiðbeiningar, Leiðbeiningar vegna rekstrarstyrkja úr Safnasjóði. Frkv.stj. kynnti drög að leiðbeiningum um þjónustusamninga safna, stofnskrár safna og rekstrarstyrki úr Safnasjóði. Leiðbeiningarnar voru að mestu unnar af Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur, sitjandi frkv.stj. ágúst 2007-feb 2008. Leiðbeiningarnar voru samþykktar með breytingum.

4. Fundaáætlun maí -des 2008 og vettvangsferð. Þar sem nýir fulltrúar hafa tekið sæti í Safnaráði lagði frkv.stj. fram tillögu að fundaáætlun fyrir maí-des 2008, ásamt tillögu að vettvangsferð ráðsins á söfn 2008. Tillögurnar voru samþykktar. Var vettvangsferðin ákvörðuð dagana mánud. 18. og þriðjud. 19. ágúst 2008, en heimsótt verða söfn og setur á Austurlandi þessa daga. Safnaráð hefur áður farið á Reykjanes 2003, Suðurland vestra 2004, Norðurland vestra 2005 og Akureyri og nágrenni 2006. Telur ráðið vettvangsferðirnar mikilvæga leið ráðsmanna til að öðlast innsýn í starfsemi og aðbúnað safna og setra um landið.

5. Tillögur að endurskipulagningu safnamála á Akranesi. Safnaráð fékk til umsagnar tillögu að endurskipulagningu safnamála á Akranesi. Ekki voru gerðar efnislegar athugasemdir við umrædda stefnu og nýtt skipulag, en ráðið mælir eindregið með því að Byggðasafnið í Görðum haldi sjálfstæði sínu sbr. safnalög nr. 106/2001 í framtíðaruppbyggingu menningar- og safnamála á Akranesi. MH tók að sér að senda bæjarstjóra Akraness umsögn ráðsins með samhljóða umsögn Þjóðminjasafns Íslands.

6. Áæltun þýska utanríkisráðuneytisins um varðveislu menningararfs. Menntamálaráðuneyti sendi Safnaráði erindið til kynningar. Um er að ræða skilmála fyrir stuðningi við viðfangsefni á sviði áætlunar þýska utanríkisráðuneytisins um varðveislu menningar. Samþykkt var að frkv.stj. kynnti áætlunina á Safnlistanum.

7. Upplýsingar frá söfnum í kjölfar frestunar á úthlutun úr Safnasjóði 2008. Upplýsingar bárust frá Hvalamiðstöðinni á Húsavík, Sauðfjársetrinu og Byggðasafni Austur-Skaftafellssýslu. Á grunni viðbótarupplýsinga voru samþykktir eftirfarandi rekstrarstyrkir: 1,7 millj. kr. til Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík, 1,7 millj. kr. til Byggðasafns Austur-Skaftafellssýslu og 1,6 millj. kr. til Sauðfjárseturs.

8. Erindi vegna úthlutana 2008. Erindi bárust frá Nýlistasafninu og Síldarminjasafni Íslands. Á grunni viðbótarupplýsinga var samþykktur 1,7 millj. kr. rekstrarstyrkur til Nýlistasafnsins. Rekstrarstyrkur Síldarminjasafnsins var að sama skapi hækkaður úr 1,7 í 2,5 millj. kr. á grunni viðbótarupplýsinga. Samþykkt var svar við skeyti forstöðumanns Byggðasafnsins Hvols á Dalvík. Samþykkt var að óska eftir því við Eirík Þorláksson, sérfræðing á sviði safnamála hjá Lista- og safnadeild menntamálaráðuneytis, að ráðuneytið veiti heimild fyrir fundi fulltrúa Safnaráðs með formanni fjárlaganefndar. Telur ráðið afar mikilvægt að fjárveiting í Safnasjóð verði aukin til að koma til móts við þarfir safnanna og byggja upp faglegt starf. Ennfremur að ríkisfjárveitingum til safnastarfs verði í auknum mæli beint í gegnum Safnaráð, með faglegri umfjöllun og eftirliti.

9. Umsókn um styrk fyrir NODEM ráðstefnu á Íslandi. Minjasafn Reykjavíkur sendi inn ítrekun á umsókn sinni í Safnasjóð 2008, þar sem sótt var um verkefnastyrk vegna umfangsmikils verkefnis um NODEM ráðstefnu á Íslandi í desember 2009. Samþykkt var að veita 300 þús. kr. til verkefnisins. Samþykkt var að veita ekki verkefnastyrkjum til Byggðasafns Skagfirðinga og Landbúnanarðsafns Íslands, en ákveðið hafði verið við úthlutun að geyma ákvörðun um verkefnastyrki til þessara safna þar til rekstrarstyrkjum hafði verið úthlutað.

10. Umsókn Listasafns Íslands um leyfi til tímabundins útflutnings listaverks á sýningu hjá Peabody Essex Museum, Salem, MA, USA. Sótt var um leyfi til tímabundins útflutnings á verkinu LÍ 418 Jóhannes Kjarval, Sumarnótt á Þingvöllum, 1931, (100 x 150 cm). Í samræmi við meðmæli og samþykki HBR, safnstjóra LÍ, samþykkti Safnaráð útflutning. Erindinu verður vísað til afgreiðslu hjá menntamálaráðherra í samræmi við lög.

11. Höfundarréttarmál safna. Í frh. af umræðu síðasta fundar: svar barst frá menntamálaráðuneyti þar sem ítrekað er að Safnaráð sé rétti vettvangurinn fyrir samráð safna um höfundarréttarmál og vísað í heimild í safnalögum til að verja fé úr Safnasjóði til verkefna sem tengjast rekstri Safnaráðs. Samþykkt var að fá Erlu Árnadóttur hjá LEX lögmannsstofu til að skoða málið og möguleika tengda því. Í framhaldi mun starfshópur fulltrúa Safnaráðs og höfuðsafnanna taka ákvörðun um framvindu.

12. Næsti fundur og önnur mál. Önnur mál voru ekki rædd. Næsti fundur Safnaráðs var ákvarðaður skv. nýrri fundaáætlun mánudaginn 19. maí n.k. kl 15-17.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 14:00/RH