Fundargerð 69. fundar Safnaráðs

13. mars, kl. 15:00 – 17:15

Þjóðminjasafni Íslands v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, Rakel Halldórsdóttir og Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir. Halldór Björn Runólfsson og varafulltrúi hans, Júlíana Gottskálksdóttir, boðuðu forföll. Karl Rúnar Þórsson boðaði forföll.

1. Frkv.stj. (RH) var boðin velkomin til starfa eftir fæðingarorlof og staðgengli hennar (AÞÞ) þökkuð frábær störf í þágu Safnaráðs á afleysingartímanum. Umfang verkefna Safnaráðs skapar á tíðum vanda þar sem einungis er um einn starfsmann að ræða. Samþykkt var að nýta þá mikilvægu yfirsýn og reynslu sem AÞÞ hefur hlotið á afleysingartímanum með því að leita til hennar sem verktaka/sérfræðings til aðstoðar við ýmis tímabundin verkefni þegar þörf er á.

2. Gerðar voru athugasemdir við fundargerðir 67. og 68. fundar, verða þær lagaðar fram til undirritunar á næsta fundi.

3. Skýrsla framkvæmdastjóra. Útflutningur menningarminja. Staðfesting hefur borist frá menntamálaráðuneyti vegna leyfis til útflutnings útskorinna horna á sýningu í Bozar. Nýir fulltrúar FÍSOS í Safnaráði. Formleg skipun nýrra fulltrúa Félags íslenskra safna og safnmanna í Safnaráð er á lokastigi samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneyti. Fundur frkv.stj. með menntamálanefnd Alþingis. Frkv.stj. var boðaður og mætti á fund hjá menntamálanefnd Alþingis þann 11. mars og kynnti nánar athugasemdir Safnaráðs við frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og menntaskóla. Telur Safnaráð mikilvægt að vísun til samstarfs menntakerfisins og safna og annarra menningarstofnana sé í lögum þessum þar sem hefð fyrir slíku samstarfi er afar veik á Íslandi, en söfn eru mikilvæg, vannýtt leið til uppfræðslu barna og unglinga eins og oft hefur verið bent á og rannsóknir hafa sýnt. Stofnanasamningur við Safnaráð-Safnasjóð. Gerð hafa verið drög að Stofnanasamningi við Safnaráð-Safnasjóð á grundvelli samkomulags fjármálaráðherra og aðildarfélaga BHM, þar sem ríkisendurskoðun hefur spurt eftir slíkum samningi við gerð ársreikninga Safnasjóðs. Frkv.stj. var falið að kanna mikilvægi slíks samnings hjá Ríkisendurskoðun, þar sem samningurinn felur í sér ákveðna viðurkenningu á skilgreiningu Safnaráðs sem formlegrar stofnunar, en menntamálaráðuneyti hefur talið skilgreininguna ekki eiga við ráðið. Samþykkt var starfstilhögun frkv.stj. Safnaráðs, sem starfað getur allt að 20% starfshlutfalls heiman frá, í samræmi við fjölskylduvæna stefnu Safnaráðs. FRÆÐSLA FYRIR ALLA á netið. Skýrsla Safnaráðs um menntunarhlutverk safna, stöðu og stefnu, FRÆÐSLA FYRIR ALLA, er nú aðgengileg á vefsíðu ráðsins. Skýrslan er niðurstaða víðtæks samráðs starfsfólks á sviði fræðslu af söfnum alls staðar að á landinu. Vottorð til safna og samræmt útlit skýrslna. Frkv.stj. vinnur að málinu í samstarfi við hönnuð. Samstarf Hagstofu og Safnaráðs um söfnun tölfræðiupplýsinga um söfn. Frkv.stj. mun hitta fulltrúa Hagstofu á næstunni og vinna að málinu.

4. Þingsályktunartillaga um sjávarlíffræðisafn. Safnaráð fjallaði um tillögu til þingsályktunar um stofnun sjávarlíffræðisafns á Akureyri, sem jafnvel yrði nýtt höfuðsafn. Safnaráð er ekki meðal umsagnaraðila þingsályktunartillögunnar en samþykkti þó umsögn um tillöguna í samræmi við umsögn þjóðminjavarðar. Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn á sviði náttúruminja, fékk tillöguna ekki til umsagnar. Frkv.stj. var falið að upplýsa nefndarsvið Alþingis um Safnaráð og Náttúruminjasafn Íslands sem mögulega umsagnaraðila.

5. Málþing Safnaráðs í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands, um aðgengi allra að söfnum. Stefnt er að málþinginu á Þjóðminjasafni Íslands þann 23. apríl n.k. Bryndís Sverrisdóttir, sviðsstjóri miðlunar á Þjóðminjasafni Íslands er umsjónarmaður verkefnisins. Fulltrúar safna á landsbyggðinni, skipaðir af Safnaráði, munu flytja erindi um endurbætur á aðgengi. Safnaráð samþykkti að styrkja söfn sem senda fulltrúa lengri vegalengdir um 10.000 kr. til ferðarinnar. Stefnt er að útgáfu að málþinginu loknu.

6. Upplýsingar frá söfnum í kjölfar frestunar á úthlutun. Hvalamiðstöðin hefur óskað eftir fresti til að senda inn viðbótarupplýsingar í kjölfar frestunar á úthlutun til safnsins. Frestur var samþykktur. Upplýsingar hafa borist frá Iðnaðarsafninu. Samþykkt var að veita safninu rekstrarstyrk að upphæð 1.050 þús. kr.

7. Svar menntamálaráðuneytis við erindi Safnaráðs um höfundaréttarmál á söfnum. Menntamálaráðuneyti vísar erindi Safnaráðs um að ráðuneytið komi á fót starfshópi sem fjalli um höfundarréttarmál safna á breiðum grundvelli, aftur til ráðsins. Safnaráð telur það ekki hlutverk sitt og ráðið ekki hafa nauðsynlegar forsendur (s.s. fjármagn og aðgang að lögfræðingum) til að fjalla um svo umfangsmikið og lögfræðilega flókið málefni. Samþykkti ráðið að benda menntamálaráðuneyti á þetta ásamt því að lýsa sig reiðubúið til samráðs, svo sem til að fjalla um þetta málefni á málþingi, leita eftir röddum safnmanna um málefnið og/eða leiðbeina lögfræðinema um verkefni byggt á þessu málefni.

8. Greinargerð frá Náttúrufræðistofu Kópavogs um verkefnastyrk 2007 vegna samvinnuverkefnis um skráningarkerfi náttúrusafna. Greinargerð barst frá Náttúrufræðistofu Kópavogs um nýtingu verkefnastyrks 2007 vegna samvinnuverkefnis um skráningarkerfi náttúrusafna, en óskað var eftir henni í samræmi við skilyrði fyrir styrkveitingu. Safnaráð mun áfram fylgjast með þróun verkefnisins, sem heyra mun undir Náttúruminjasafn Íslands.

9. Erindi vegna úthlutana 2008. Erindi bárust frá eftirtöldum aðilum vegna úthlutana 2008:

Byggðasafni Dalabyggðar

Nýlistasafninu

Síldarminjasafni Íslands

Byggðasafni Þingeyinga

Hönnunarsafni Íslands.

Fjallað var um erindin og samþykkt að fela frkv.stj. að gera tillögur að svarbréfum og stuttri greinargerð um úthlutun í samræmi við umfjöllun ráðsins. Safnaráð mun samþykkja bréfin og greinargerðina rafrænt. Fjallað var einnig stuttlega um óformleg bréf sem borist hafa ráðinu.

10. Önnur mál:

Safnastefna á sviði þjóðminjavörslu fyrir árin 2003-2008. Samþykkt var að fela frkv.stj. að vinna að endurnýjun safnastefnu fyrir 2009-2012 sem útgefin verður af Safnaráði. Stefnt er að því að safnastefnan verði tilbúin til útgáfu í október.

Ný erindi:

* Upplýsingar forstöðumanns Byggðasafns Austur-Skaftfellinga vegna frestunar á úthlutun. Ekki náðist að fjalla um málið vegna tímaskorts.

* Upplýsingar Sauðfjárseturs á Ströndum vegna frestunar á úthlutun 2008. Ekki náðist að fjalla um málið vegna tímaskorts.

* Ósk Félags íslenskra safna og safnmanna og Íslandsdeildar ICOM um samstarf vegna Íslensku safnaverðlaunanna 2008. Ekki náðist að fjalla um málið vegna tímaskorts.

Næsti fundur Safnaráðs er áætlaður fimmtudaginn 17. apríl n.k. kl 15-17.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:15/RH