Sjá pdf útgáfu

1. gr.
Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um viðurkenningu safna, með hvaða hætti slík viðurkenning er veitt, hvernig er sótt um viðurkenningu og hvaða skilyrði söfn þurfa að uppfylla til að geta öðlast viðurkenningu.

2. gr.
Veiting viðurkenningar og réttindi viðurkenndra safna.

Ráðherra veitir safni viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Öll söfn nema höfuðsöfn þurfa að sækja um viðurkenningu vilji þau falla undir ákvæði reglugerðar þessarar.

Viðurkennt safn á rétt á að nota ákveðið einkennismerki, sem safnaráð lætur útbúa.

Viðurkennt safn getur sótt um styrki úr safnasjóði.

Heimilt er að veita viðurkenndu safni styrk úr ríkissjóði til að mæta stofnkostnaði.

3. gr.
Umsóknarferli vegna viðurkenningar.

Umsókn um viðurkenningu safns skal beint til safnaráðs.

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um starfssvið, rekstrarform, eignarhald, fjár­mögnun og árlegan rekstrarkostnað ásamt stofnskrá, skipulagsskrá eða samþykkt safns­ins og önnur þau skilyrði viðurkenningar sem tilgreind eru í safnalögum og í reglu­gerð þessari.

4. gr.
Skilyrði viðurkenningar.

Til að safnaráð geti gert tillögu til ráðherra um viðurkenningu safns skal það uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Safn skal vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnunar, félags eða fyrirtækis sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi þess og skipar því stjórn. Safn skal ekki rekið í hagnaðarskyni.
  Fjárhagsgrundvöllur fyrir eðlilega starfsemi safns er skilgreindur þannig að safnið geti af eigin rammleik staðið undir faglegri starfsemi í samræmi við skilyrði gild­andi reglugerðar um viðurkenningu safna á hverjum tíma.
 2. Safn skal hafa sjálfstæðan fjárhag, aðskilinn frá öðrum rekstri eiganda. Reikn­ingar safns skulu vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Það skal árlega senda skýrslu um starfsemi sína og fjárhagslegt uppgjör til safnaráðs. Safnaráð mun gefa út leiðbeiningar um innihald skýrslunnar.
 3. Safn skal starfa eftir stofnskrá, skipulagsskrá eða samþykkt sem safnaráð hefur staðfest í samræmi við ákvæði safnalaga. Í stofnskrá, skipulagsskrá eða sam­þykkt skal m.a. tilgreina viðfangsefni og starfssvæði safnsins, og með hvaða hætti komið verður til móts við ákvæði safnalaga við lok starfsemi og ráðstöfun eigna og safnkosts. Stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skal birt í B-deild Stjórnar­tíðinda.
 4. Safn skal starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um:
  1. Húsnæði:
   1. Safn skal hafa starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti og skila afriti af því til safnaráðs sé þess óskað,
   2. eldvarnareftirlit skal gera reglulegar úttektir á húsnæði safnsins og skal skila afriti af slíkum úttektum til safnaráðs sé þess óskað,
   3. sýninga- og geymsluhúsnæði skal vera með þeim hætti að langtíma­varðveisla gripa sé tryggð.
  2. Öryggismál:
   1. Safn skal hafa öryggiskerfi í lagi, þ.e. viðvörunarkerfi vegna bruna, innbrota og raka. Staðfestingu á virkni öryggiskerfa skal skilað til safnaráðs sé þess óskað,
   2. safn skal hafa eftirlit með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsa­kynnum sínum, og mælingar skulu skráðar reglulega og upp­lýs­ingum um þær skilað til safnaráðs sé þess óskað,
   3. safn skal hafa neyðaráætlun fyrir starfsfólk, gesti og safnkost og skila afriti af henni til safnaráðs sé þess óskað.
  3. Skráningarkerfi safnmuna:
   1. Kerfi sem notuð eru til skráningar gagna hjá viðurkenndum söfnum skulu að lágmarki uppfylla skilmála safnaráðs um skráningarkerfi eins og þeir koma fram á heimasíðu safnaráðs. Uppfylli skrán­ingar­kerfi ekki skilmála safnaráðs skal safn senda safnaráði tíma­setta áætlun um úrbætur sem ráðið tekur afstöðu til.
  4. Fagleg starfsemi skal vera með eftirfarandi hætti:
   1. Söfnun: Safn skal starfa eftir söfnunarstefnu sem birt er opin­ber­lega.
   2. Skráning: Safn skal fara eftir leiðbeiningum höfuðsafns um skrán­ingu.
   3. Varðveisla: Safn skal fara eftir leiðbeiningum höfuðsafns um varð­veislu og fyrirbyggjandi forvörslu.
   4. Safn skal skila höfuðsafni stefnumörkun um starfsemi sína á fjög­urra ára fresti.
   5. Safn skal vera opið almenningi á auglýstum opnunartíma.
  5. Upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skulu vera aðgengilegar almenningi.
  6. Safn skal jafnframt stunda rannsóknir og miðlun upplýsinga um eign safn­kost og starfsemi og taka þátt í samstarfi, svæðisbundið, á landsvísu og alþjóð­lega.
 5. Safn skal veita skólanemendum sem heimsækja safnið í skipulögðum náms­ferðum aðgang án gjaldtöku.
 6. Aðgengi að húsnæði safns skal vera í samræmi við lög og reglugerðir og eins mikið tillit tekið til þarfa fólks með fötlun og kostur er.
 7. Safn skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga.
 8. Forstöðumaður safns skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt.

5. gr.
Afturköllun viðurkenningar.

Ráðherra getur afturkallað viðurkenningu safns að fenginni tillögu safnaráðs telji ráðið að safnið uppfylli ekki lengur skilyrði viðurkenningar.

Safni sem svipt hefur verið viðurkenningu er óheimilt að nota einkennismerki viður­kenndra safna.

6. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við heimild í safnalögum nr. 141/2011.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 7. október 2013.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.