Fundargerð 106. fundar safnaráðs –
10. nóvember 2011, kl. 13:15 – 15:45, fundarherbergi í turni Þjóðminjasafns
Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Helgi Torfason, Halldór B. Runólfsson, Guðný Dóra Gestsdóttir, Jenný Lind Egilsdóttir, Rakel Halldórsdóttir frkv.stj. Gestir á fundinum: Þóra Björk Ólafsdóttir, mastersnemi í safnafræði við HÍ (í starfsþjálfun hjá safnaráði á tímabilinu), Frosti Jóhannsson framkvæmdastjóri Rekstrarfélags SARPS.
1. Málefni til umræðu og ákvörðunar:
1.0.Fundargerð 105. fundar samþykkt og undirrituð.
1.1. Skýrsla framkvæmdastjóra: Vettvangsferð safnaráðs. Vettvangsferð safnaráðs 2011frestað fram á vor vegna anna ráðsmanna. Afleysing á starfi framkvæmdastjóra. Ágústa Kristófersdóttir, sýningastjóri Þjóðminjasafns Íslands mun leysa frkv.stj. af vegna fæðingarorlofs frá 1. apríl til 30. nóvember 2012. Bruun Rasmussen – útflutningur íslenskra menningarverðmæta. Enn eru nokkrir gripir eftir í vörslu fyrirtækisins Pökkun og flutningar ehf. sem áætlað er að flytja til Danmerkur á vegum danska uppboðsfyrirtækisins Bruun Rasmussen. Ekki hefur verið sótt um leyfi til útflutnings eins gripanna. Útflutningur menningarverðmæta til Bandaríkjanna. RH ásamt Ólafi Inga Jónssyni forverði á Listasafni Íslands tóku út íslenska listmuni eftir gömlu meistarana sem flytja á til Bandaríkjanna. Var það mat ÓIJ að gripirnir féllu ekki undir lög nr. 105/2001 um útflutning menningarverðmæta og því óþarft að sækja um leyfi til útflutnings þeirra. Úttekt ríkisendurskoðunar á Náttúruminjasafni Íslands. Ríkisendurskoðun hefur hafið formlega úttekt á Náttúruminjasafni Íslands og fjárveitingum til stofnunarinnar. Rætt hefur verið við HT og RH og áætlar ríkisendurskoðun að ræða við fleiri aðila. Umsóknir í safnasjóð vegna ársins 2012. Umsóknarfrestur er útrunninn. Fjöldi umsókna hefur borist. Borið hefur enn og aftur á vandkvæðum í tengslum við rafrænt umsóknareyðublað þrátt fyrir endurbætur. Listasafn Íslands – heildarstefna á sviði myndlistar 2012-2016. Listasafn Íslands hefur formlega hafið gerð heildarstefnu á sviði myndlistar 2012-2016 í samræmi við safnalög. RH mun koma að verkefninu f.h. safnaráðs í samræmi við samkomulag við LÍ. Haustfundur listasafna 2011. Listasafn Íslands stóð fyrir haustfundi listasafna þann 31. október sl. M.a. var kynnt gerð heildarstefnu á sviði myndlistar, sem unnin verður í samstarfi við listasöfn um landið og rætt um aðlögun á SARPI 3 fyrir listasöfn, en listasöfn tóku almennt vel í mögulega nýtingu skráningarkerfisins. Höfundarréttarmál safna. ÁK hefur umsjá með verkefninu, verkefnaráðin tímabundið hjá safnaráði. Málinu miðar ágætlega áfram. Viðræður hafa staðið yfir við mennta- og menningarmálaráðuneytið um aðkomu þess að fjárhagslegum stuðningi við söfn til birtingar höfundarréttarvarins efnis á netinu. Útflutningur skákborðs sem Fischer og Spassky notuðu. Fyrirspurn barst um hvort ástæða væri til að sækja um leyfi til útflutnings eins þeirra skákborða sem Fischer og Spassky notuðu í einvígi sínu. Borðið er í eigu Páls G. Jónssonar. Málið var borið undir Lilju Árnadóttur, fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands, en taldi hún ekki ástæðu til að sækja um sérstakt leyfi til útflutnings borðsins, enda aðalborð einvígisins varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands.
1.2. Kynning Frosta Jóhannssonar á SARPI 3. Frosti Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rekstrarfélags SARPS, kynnti SARP 3, sem hefur verið í þróun undanfarin misseri. Almenn ánægja var með skráningarkerfið meðal ráðsmanna og þá möguleika sem þessi nýja uppfærsla hefur upp á að bjóða.
1.3. Nýtt útlit á vefsíðum safnaráðs. Kynntar nýjar hugmyndir hönnuðar að nýju útliti vefsíðu safnaráðs og síðunnar söfn.is, í samræmi við athugasemdir síðasta fundar. Samþykkt að óska eftir smávægilegum breytingum á útliti.
1.4. Samræmd safngestakönnun – næstu skref. ÁK hefur umsjá með verkefninu, verkefnaráðin tímabundið hjá safnaráði. Farið var yfir stöðuna, könnunin var lögð fyrir í júlí, ágæt þátttaka meðal safna. Niðurstöður júlíkönnunar væntanlegar. Októberkönnun var ekki lögð fyrir eins og áætlað var þar sem verkefnið var komið fram úr fjárhagsáætlun. Ollu þar ónákvæmar áætlanir fyrirtækisins sem sér um gerð og keyrslu könnunarinnar. Fyrirséð er að verkefnið muni ekki lengur vera hluti af starfsemi safnaráðs með nýjum safnalögum þann 1. janúar 2013. Rætt um framtíð verkefnisins með tilliti til fjárhags og framtíðarverkefna safnaráðs. Samþykkt að óska eftir tillögum frá ÁK um framtíð verkefnisins.
2. Erindi til umræðu og ákvörðunar.
2.1. Erindi frá ICOM varðandi Blue Shield verkefni. Erindi barst frá ICOM þar sem óskað er eftir samstarfi safnaráðs um Blue Shield verkefni og fjárstuðningi við verkefnið. Jákvæð umræða, safnaráð tilbúið að taka þátt í samstarfi. Í samræmi við safnalög verður fjárstuðningur ekki í formi styrks úr safnasjóði, en mögulega með þátttöku safnaráðs í verkefninu. Samstarf og fjárstuðningur háð því hvernig verkefnið þróast áfram.
2.2. Umsókn Georgs Ólafssonar um útflutning listmuna á uppboð hjá Bruun Rasmussen í Danmörku. Erindi barst frá Georg Ólafssyni þar sem óskað er leyfis til útflutnings listmuna á uppboð hjá Bruun Rasmussen í Danmörku. Leitað var sérfræðiálits hjá ÓIJ hjá Listasafn Íslands, en í áliti hans leggur hann til, í ljósi laga nr. 105/2001, að lagst verði gegn útflutningi eins verkanna. Georg Ólafsson hafði samband fyrir fundinn og hefur ákveðið að hætta við útflutning verkanna.
2.3. Umsókn Sigurlaugar Guðrúnar Gunnarsdóttur um útflutning teikningar eftir Kjarval á uppboð hjá Bruun Rasmussen í Danmörku. Erindi barst frá Sigurlaugu Guðrúnu Gunnarsdóttur þar sem óskað er leyfis til útflutnings teikningar eftir Kjarval á uppboð hjá Bruun Rasmussen í Danmörku. Leitað var sérfræðiálits hjá ÓIJ hjá Listasafn Íslands, en í áliti hans leggst hann ekki gegn útflutningi. Samþykkt að veita leyfi til útflutnings verksins.
2.4. Erindi frá Vesturbyggð – skipun fulltrúa safnaráðs í nefnd um framtíð Minjasafns Egils Ólafssonar. Fjallað um erindi Vesturbyggðar þar sem þess er óskað að safnaráð skipi fulltrúa sinn í nefnd um framtíð Minjasafns Egils Ólafssonar. Samþykkt að RH/ÁK taki hlutverkið að sér.
2.5. Umsókn Guðrúnar Öldu Gísladóttur um leyfi til útflutnings textíla úr fornleifauppgröftum í rannsóknarskyni. Erindi barst frá Guðrúnu Öldu Gísladóttur þar sem óskað er leyfis til útflutnings textíla úr fornleifauppgröftum í rannsóknarskyni. Umsagna var óskað frá sérfræðingum hjá Fornleifavernd ríkisins, sem lagðist ekki gegn útflutningi og Þjóðminjasafns Íslands, sem mælir gegn umbeðinni heimild þar sem um sé að ræða mikið magn jarðfundinna leifa til skoðunar og greiningar sem hæglega geti farið fram hér á landi. Samþykkt að nýta heimild laga nr. 105/2001 og leggjast gegn útflutningi sbr. mat sérfræðings. Í samræmi við lögin verður leitað formlegrar afstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.
2.6. Umsókn Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um leyfi til útflutnings textíla úr fornleifauppgröftum í rannsóknarskyni. Erindi barst frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur þar sem óskað er nokkurra mánaða framlengingar á leyfi til útflutnings textílasýna úr fornleifauppgröftum sem hafa verið til rannsókna erlendis. Umsagna var óskað frá sérfræðingum hjá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafns Íslands. Umsagnir beggja voru jákvæðar. Samþykkt að framlengja leyfið til 10. apríl 2012. Leyfið verður ekki framlengt umfram það.
3. Önnur mál
Önnur mál:
1) Endurskoðun FÍSOS á hlutverki og skipulagi félagsins. Samráðshópur um endurskoðun á hlutverki FÍSOS situr að störfum. Hópinn skipa GDG, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, Arndís Bergsdóttir og Bergsveinn Þórsson. Félagið skoðar möguleikann á því að ráða starfsmann til að sinna umsýslu málefna félagsins. Félagið áætlar að sækja um styrk fyrir launum starfsmannsins til mennta- og menningarmálaráðuneytis, verið að vinna greinargerð. Rætt var um möguleikann á því að starfsmaður félagsins fái aðstöðu hjá safnaráði.
RH sendi FÍSOS lista yfir samráðsverkefni safnaráðs í tengslum við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á rekstri félagsins. Fyrirséð er að verkefni safnaráðs á sviði samráðsvettvangs safna muni ef til vill ekki vera áfram hluti af starfsemi ráðsins þegar ný safnalög taka gildi þann 1. janúar 2013.
FÍSOS mun hvetja söfn til að gerast stofnanaaðilar að félaginu með hærri félagsgjöldum.
Næsti fundur var áætlaður fimmtudaginn 8. desember 2011 kl 12:15, fundi slitið kl. 15:45/RH