Fundargerð 101. fundar safnaráðs – úthlutunarfundur 2011
3. mars 2011, kl. 12:15 – 17:00, Þjóðminjasafni Íslands
Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir, formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Jenný Lind Egilsdóttir og Rakel Halldórsdóttir og Ágústa Kristófersdóttir framkvæmdastjórar safnaráðs. Guðný Dóra Gestsdóttir var ekki viðstödd vegna setu í bæjarstjórn Kópavogs en sveitarfélagið rekur söfn sem sækja um í safnasjóð.
1. Fjallað var um umsóknir í safnasjóð 2011. Samþykkt var tillaga að úthlutun 2011.
Úthlutun úr safnasjóði 2011 – forsendur úthlutunar:
Almennar forsendur úthlutunar úr safnasjóði 2011 voru ræddar og samþykktar:
Rekstrarstyrkir – forsendur:
Aðferð safnaráðs við útreikning rekstrarstyrks byggt á launakostnaði safns hefur verið þróuð með það fyrir augum að safn sé að uppfylla lagaleg og fagleg skilyrði fyrir rekstrarstyrk (forstöðumaður í hið minnsta 50% starfi og fjárhagsgrundvöllur tryggður) og með ákvæði stjórnsýslulaga, gagnsæi, jafnræði, samkvæmni í styrkveitingum, og árangursríkt eftirlit með nýtingu fjármuna að leiðarljósi. Í samræmi við áherslur sem tilkynntar voru í auglýsingu eftir umsóknum í safnasjóð og útgefnu Upplýsingahefti fyrir söfn vegna umsókna í safnasjóð 2011 var samþykkt að úthluta rekstrarstyrkjum eftir eftirfarandi forsendum úr ársreikningum safna 2009
Samþykkt var, í samræmi við áður tilkynntar áherslur, að veita söfnum 100 þús. kr. hækkun á rekstrarstyrk fyrir hvern gildan þjónustusamning safnsins við annað safn/setur/sýningu/stofnun og aðra starfsemi á sviði safnastarfs. Þjónustusamningur miðast við að stofnunin sem umrætt safn þjónustar nýtur fagþekkingar safnsins á safnastarfi.
Samþykkt var, í samræmi við áður tilkynnta forsendu í auglýsingu eftir styrkjum 2011, að fella niður rekstrarstyrki til safna sem hljóta rekstrarstyrk á fjárlögum. Samþykkt var að aðlögunartíma nýs úthlutunarkerfis væri lokið og því yrði söfnum sem ná ekki lágmarkslaunakostnaði vegna rekstrarstyrks ekki veittur rekstrarstyrkur – um er að ræða fjögur söfn. Samþykkt var, í samræmi við áður tilkynntar áherslur, að tekið yrði tillit til verktakavinnu og ólaunaðrar vinnu (sjálfboðastarfs) hjá þeim söfnum sem ná ekki lágmarkslaunakostnaði. Samþykkt var að með tilliti til ákvæðis 10. gr. safnalaga um að safn skyldi hafa tryggðan fjárhagsgrundvöll til að eiga kost á rekstrarstyrk úr safnasjóði, væri ekki unnt að taka tillit til sjálfboðastarfs/verktakavinnu nema sem nemur 30% af lágmarkslaunakostnaði hjá safni. Eitt safn af þeim fjórum sem ekki náðu lágmarkslaunakostnaði hlaut rekstrarstyrk þar sem tillit var tekið til sjálfboðastarfs/verktakavinnu sem nam innan við 30% af viðmiði launakostnaðar.
Verkefnastyrkir – forsendur:
Samþykkt var að leitast við að styrkja styrkhæf verkefni safna sem sækja um verkefnastyrk í safnasjóð á árinu 2011.
Umræða um umsóknir:
Tillaga að úthlutunum úr safnasjóði 2011 var samþykkt. Jenný Lind vék af fundi meðan fjallað var um umsókn Byggðasafns Borgarfjarðar.
Einn umsækjandi, Lækningaminjasafn Íslands, dró umsókn sína um rekstrarstyrk til baka.
2. Næsti fundur og önnur mál. Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH.