Höfuðsöfn eru í eigu ríkisins og eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Þau eru stofnuð með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra. Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.

Höfuðsöfn skulu hafa forustu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila. Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.

Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.

Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.

Ennfremur er hægt að kynna sér laga umhverfi safna hér.

Forstöðumenn höfuðsafna sitja einnig fundi safnaráðs stöðu sinnar vegna.