Fundargerð 26. fundar Safnaráðs 29. janúar 2004, kl. 11:30,  Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík

Viðstödd voru:  Margrét Hallgrímsdóttir, Ólafur Kvaran, Jóhann Ásmundsson, Gísli Sverrir Árnason, Álfheiður Ingadóttir, Ragnheiður H. Þórarinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1.   Fundargerðir 24. og 25. fundar voru samþykktar og undirritaðar. 

2.   RHÞ greindi frá stöðu mála varðandi væntanleg formannsskipti, en ÓK mun taka við formennsku í Safnaráði af MH frá og með 1. febrúar n.k.

3.   Skýrsla framkv.stjóra.  Framkvæmdastjóri skýrði frá starfsemi ráðsins frá síðasta fundi. Safnaráð Evrópu (European Museum Forum) hefur tilkynnt Síldarminjasafninu að safnið hafi verið valið til áframhaldandi þátttöku í samkeppni um evrópsku safnaverðlaunin 2004.  Um 60% tilnefndra safna, alls 40 söfn, komust áfram í keppninni.  Úrslit verða tilkynnt á ársfundi EMF í Aþenu í byrjun maí.   Safnaráð tilnefndi Síldarminjasafnið, fyrst íslenskra safna, til keppninnar í febrúar sl.    Hefur Síldarminjasafnið óskað eftir stuðningi Safnaráðs v. kostnaðar við ferðina til Aþenu.  Mikil ánægja var meðal ráðsmanna með árangur safnsins en taldi ráðið ábyrgð Safnaráðs takmarkast við tilnefninguna og var ósk um stuðning við ferðakostnað því hafnað.
Samfara formannsskiptum mun frkv.stj. flytja skrifstofu Safnaráðs í skrifstofuhúsnæði Listasafns Íslands að Laufásvegi 12 þann 2. febrúar n.k.     
 

4.   Erindi til Safnaráðs:

a.   Erindi Byggðasafnsins Glaumbæ varðandi umsókn um styrk vegna uppsetningar geymsluaðstöðu í Minjahúsinu Sauðárkróki.  Skv. 11. gr. safnalaga er veiting stofnstyrks háð samþykki Safnaráðs á kostnaðaráætlun og húsnæði.  Ráðið samþykkti fyrirliggjandi kostnaðaráætlun og teikningar af húsnæði með fyrirvara um að öryggis- og brunavörnum og forvörslu verði sinnt á fullnægjandi hátt. 

5.   Rekstraráætlun 2004 var samþykkt. 

6.   Samþykkt Þjónustusamnings 2004.  Eins mánaðar framlenging á þjónustusamningi 2003 við Þjóðminjasafn var samþykkt og undirrituð.  ÓK tók þjónustusamning 2004 til yfirlestrar og athugunar hjá fjármálasviði Listasafns Íslands.

7.   Úthlutunarkerfi Safnaráðs.  Eftir nokkra umræðu var samþykkt að skoða hugmynd að nýju úthlutunarkerfi, til útreiknings á rekstrarstyrkjum, fyrir Safnaráð, með hliðsjón af danska úthlutunarkerfinu.  Frkv.stj. mun óska eftir upplýsingum á einföldu formi úr ársreikningi síðasta árs frá öllum umsækjendum.  Verða þessar upplýsingar hafðar til hliðsjónar við framtíðar stefnumótun. 

8.   Samstarf Safnaráðs við Hagstofu um tölfræðiskráningu um söfn sbr. tillaga Jóhanns Ásmundssonar.  Umfjöllun frestað til næsta fundar.

Næsti fundur skv. fundaáætlun er 26. febrúar 2004, en áætlað er að funda þá í heilan dag.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 14:00/RH