Fundargerð 28. fundar Safnaráðs 1. apríl 2004, kl. 11:30-13:30, Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík
Viðstödd voru: Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Sigrún Ásta Jónsdóttir, Jónína A. Sanders, Ragnheiður H. Þórarinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.
1. RHÞ tilkynnti þá afstöðu menntamálaráðuneytisins að það telur ekki lengur þörf á því að fulltrúi þess sitji fundi Safnaráðs. Vék RHÞ af fundi við svo búið.
2. Fundargerð 26. fundar undirrituð. Athugasemdir voru gerðar við fundargerð 27. fundar, verður hún undirrituð á næsta fundi.
3. Vanhæfi ráðsmanna. Fjallað var, m.t.t. stjórnsýslulaga, um hvenær ráðsmenn skyldu teljast vanhæfir til að fjalla um málefni á starfssviði ráðsins, einkum að því er snýr að Safnasjóði, en ljóst er að tveir ráðsmanna eru einnig hagsmunaaðilar þar sem um er að ræða forstöðumenn safna sem falla undir safnalög og sækja um í Safnasjóð. Hafa umræddir ráðsmenn, JÁ og GSÁ, vikið af fundum ráðsins þegar málefni þeirra safna sem þeir veita forstöðu hafa verið rædd. Ákveðið var að frkv.stj. sendi mrn. erindi þar sem óskað er eftir lögfræðilegu áliti frá mrn. varðandi þetta.
4. Skýrsla framkvæmdastjóra. Frkv.stj. skýrði frá starfsemi ráðsins frá síðasta fundi. Frkv.stj. hefur samþykkt endanlegt uppgjör við Þjóðminjasafn Íslands v. leigu ráðsins á aðstöðu og þjónustu í feb. 2003 út 2004. Ekki voru gerðar athugasemdir við uppgjörið. Frkv.stj. situr um þessar mundir í stýrihóp um stefnumótun hjá Minjasafni Reykjavíkur.
Frkv.stj. var hvattur til að sækja um aðild að Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, sem er vettvangur ýmiss gagnlegs fróðleiks og upplýsinga um atriði er snúa að stjórnsýslu ríkisstofnana og meðferð mála.
5. Viðbrögð við úthlutun 2004. Viðbrögð við úthlutunum Safnaráðs 2004 úr Safnasjóði hafa verið sterk og neikvæðar raddir háværar. Erindi varðandi úthlutun hafa borist frá Minjasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Sveinssafni, Sauðfjársetri, Leikminjasafni Íslands, Tækniminjasafni Austurlands, Listasafni ASÍ, Listasafni Reykjavíkur og Nonnahúsi. Þá bárust umbeðnar upplýsingar er varða umsókn Listasafns Akureyrar.
Töluverð umræða varð um forsendur úthlutunarinnar og þrönga fjárhagsstöðu Safnasjóðs og þá gagnrýni sem fram hefur komið varðandi hana. Afgreidd voru tvö erindi, erindi Sauðfjárseturs og Tækniminjasafns Austurlands og samþykkt að veita þessum söfnum fullan rekstrarstyrk. Í báðum tilfellum var fyrri ákvörðun, um skertan rekstrarstyrk, byggð á ófullkomnum upplýsingum um eðli styrks frá fjárlaganefnd. Samþykkt var, vegna umfangs, að geyma frekari afgreiðslu erinda til næsta fundar.
6. Afgreiðsla styrkja. Máli frestað til næsta fundar.
7. Nodem ráðstefna á Íslandi 2005. Máli frestað til næsta fundar.
8. Samstarf Safnaráðs við Hagstofu um tölfræðiskráningu um söfn. Máli frestað til næsta fundar.
9. Talsmaður EMF á Íslandi. Máli frestað til næsta fundar.
10. Leiðbeiningar um sjálfsmat safna. Máli frestað til næsta fundar.
11. Næsti fundur og önnur mál. Ekki voru önnur mál til umfjöllunar. Næsti fundur skv. fundaáætlun er 29. apríl en samþykkt var að funda næst 23. apríl þess í stað.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:30/RH