Haag-samningur UNESCO um vernd menningarverðmæta 

Ísland hefur nú staðfest Haag-samning UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka og eru aðilar að samningnum skuldbundnir til að vernda menningarverðmæti ef til vopnaðra átaka kemur en jafnframt vinna forvarnarstarf á friðartímum, t.d. með skráningu á menningarverðmætum og gerð áhættumats og viðbragðsáætlana.

Viðbragðsáætlanir fyrir safnkost

Samkvæmt lögum hefur safnaráð eftirlit með og setur reglur um húsnæði safna, þar á meðal um öryggismál viðurkenndra safna. Safnaráð fylgir því þessu verkefni eftir þegar kemur að viðurkenndum söfnum, með það að leiðarljósi að gæta að faglegri starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands og tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.

Forvarnir og viðbragðsáætlanir gegna lykilhlutverki við að tryggja menningararf okkar til framtíðar og því er mikilvægt að á hverju safni sé til viðbragðsáætlun gegn vá (e. Emergency Operations Plan) sem segir til um hvernig brugðist verður við aðsteðjandi vá svo afstýra megi áföllum.

Menningarstofnanir eiga að undirbúa viðbragðsáætlanir ef hætta steðjar að. Viðurkennd söfn munu útfæra verkefnið þannig að það taki mið af þeim hættum sem geta steðjað að íslenskum menningararfi.

Á árinu 2024 hófst verkefnið með söfnum að undangenginni undirbúningsvinnu árið áður. Unnið er með söfnum eftir landshlutum, bæði til að söfn geti leitað stuðnings hvert hjá öðru og unnið saman að forvörnum vegna áhættu sem getur verið bundin við ákveðið landsvæði. Nathalie Jacqueminet hefur sett saman fjarnámskeið þar sem valin hópur safna tekur þátt í viðbragðsáætlanagerð. Í lok námskeiðsins eru söfnin komin með viðbragðsáætlun og áhættumat í hendurnar sem eru svo endurskoðuð og uppfærð reglubundið.

Fulltrúar safna fá ítarlegt kynningarefni og leiðarvísi um gerð viðbragðsáætlana fyrir söfn auk þess hafa aðgang að samtali við helsta sérfræðing landsins í forvörnum og viðbragðsáætlanagerð safna.