Safn
Hugtakið safn er notað í þeirri merkingu að það sé stofnun eða staður sem velur, rannsakar og hefur til sýnis efnisleg og óefnisleg ummerki mannsins og umhverfi hans. Skipulag og starfsemi safna hefur í gegnum aldirnar tekið ýmsum breytingum. Viðfangsefni þeirra eru mjög fjölbreytt, markmið þeirra einnig, sem og með hvaða hætti þau starfa og hvernig þeim er stjórnað. Mörg þjóðríki hafa skilgreint hvað safn er, í lagasetningum eða með stofnanalegu fyrirkomulagi. Á Íslandi er hugtakið safn skilgreint í safnalögum nr. 141/2011. Í lögunum segir að söfn séu: „varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.“ Samkvæmt lögunum er hlutverk þeirra „að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.“ Þessi skilgreining tekur mið af skilgreiningu alþjóðaráðs safna, ICOM. Fræðilegar skilgreiningar á því hvað safn er taka oft mið af þessari skilgreiningu, en eru gjarnan með aðrar áherslur, svo sem á samfélagsleg og menntunarleg hlutverk þeirra.
Hugtakið safn er í almennri orðanotkun á Íslandi notað í mun víðtækari merkingu en hér um ræðir.
Söfnun og safnkostur (e. collecting, e. collection)
Með söfnun er átt við val, aðdrætti og að hafa í vörslu sinni efnislegar og óefnislegar heimildir fortíðar og samtíðar. Söfnun safna hefur verið skipt niður í tvennskonar virkni; virka söfnun og óvirka. Með virkri söfnun er átt við að starfsmenn safna sækist eftir ákveðnum heimildum til uppbyggingar safnkosts safnsins. Óvirk söfnun eru allar aðrar leiðir sem heimildir verða hluti af safnkosti safna, s.s. með gjöfum.
Virk og óvirk söfnun er að jafnaði gerð á grundvelli söfnunarstefnu sem söfn hafa sett sér. Í safnalögum nr. 141/2011 er söfnun eitt af skilgreindum hlutverkum safna, en þar segir að söfn skuli „stunda markvissa söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra.“ Söfn fylgja að jafnaði ákveðinni stefnu í söfnun (söfnunarstefna), sem eru viðmiðanir til mats á því hvort viðkomandi muni eða heimildir eigi að taka til varðveislu. Þær heimildir sem safnað er eru nefnd aðföng í safnastarfi. Með söfnun mynda söfn safnkost sinn. Safnkostur er því, í stuttu máli, summa allra þeirra efnislegu og óefnislegu heimilda sem safnað hefur verið.
Söfnun, skráning, varðveisla, rannsóknir, miðlun
Skilgreining ICOM, alþjóðaráðs safna, á safni er sú að safn sé „stofnun með fastan rekstur sem ekki er rekin í ágóðaskyni heldur til þjónustu við samfélagið og til framgangs þess, er opin almenningi og safnar, varðveitir, rannsakar, miðlar og sýnir – til skoðunar, menntunarauka og ánægju – það sem til vitnis er um fólk og umhverfi þess, bæði áþreifanlegt og óáþreifanlegt.“ (Siðareglur ICOM fyrir söfn).
Í safnalögum er þetta orðað svo: „Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.“ (úr 3. gr.)
Söfnun (e. collecting)
Skráning (e. cataloging)
Varðveisla (e. preservation)
Rannsóknir (e. research)
Miðlun (e. exhibition)