Uppspretta gagnlegra upplýsinga

Mikilvægt er að söfn haldi vel utan um upplýsingar um gesti sína. Telji þá og greini uppruna þeirra. Til að átta sig á hvaða hópar eru að koma í safnið og hvers konar þjónustu þeir þarfnast og hvar má gera betur.

Safnaráð bendir söfnum á tvær leiðir til að fylgjast með fjölda og uppruna gesta, einfalda safngestatalningu annars vegar og safngestakönnun hins vegar.

Safngestatalning

Safnaráð hefur gert einfalt eyðublað sem nota má við safngestatalningu hvort sem talningin fer fram á pappír eða í gegnum kassakerfi. Eyðublaðið má nálgast hér.

Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga við talningu safngesta:

  • Greina milli:
    • erlendra og innlendra gesta
    • barna og fullorðinna
    • þeirra sem greiða fullt gjald og þeirra sem greiða afslátttarkjör eins og lífeyrisþega, nemenda.
  • Telja sérstaklega þá sem ekki greiða aðgang eins og meðlimir FÍSOS, ICOM og aðrir t.d. íbúar í sveitarfélaginu, meðlimir í vinafélagi, félagar í SÍM eða annað sem við á.
  • Mikilvægt er að telja bæði fjölda skólahópa og fjölda nemenda í hverjum hóp. Gott er að greina þá hópa einnig eftir skólastigum.
  • Við aðra hópa þarf að halda bæði utan um fjölda hópa og fjölda einstaklinga auk þess að halda utan um uppruna hópanna – það er hvort um innlenda eða erlenda gesti er að ræða.
  • Rétt er að telja þá sem koma á sérstaka viðburði á vegum safnsins.Einnig er rétt að telja þá sem koma á viðburði sem aðrir sjá um í húsakynnum safnsins – fundi, veislur og þess háttar.

Best er að gera upp gestatalningu hvers dags fyrir sig og varðveita þær tölur til samanburðar.

Safnaráð biður söfn um upplýsingar úr gestatalningu í árlegri skýrslu sem viðurkenndum söfnum ber að skila til ráðsins. Mikilvægt er að tölur milli safna séu sambærilegar og því birtir ráðið þessar leiðbeiningar. Söfn sem ekki taka aðgangseyri eru hvött til að vanda til talningar gesta þó sumir flokkar detti út hjá þeim.

Safngestakönnun

Söfn sem vilja kynnast gestum sínum betur geta lagt fyrir þá kannanir af ýmsu tagi. Í slíkum könnnunum eru safngestir spurðir um allt frá menntun til neysluvenja auk þess sem þeir eru beðnir um að gefa mismunandi þáttum í starfsemi safnsins einkunn. Safnaráð hefur látið útbúa slíka könnun sem lögð var fyrir á söfnum víðsvegar um land árin 2010 og 2011. Sökum þess hve kostnaður var mikill og þátttaka lítil var hætt að leggja könnunina fyrir á vegum ráðsins en könnunin stendur þeim söfnum sem vilja nýta sér hana til boða.Hér má nálgast spurningarnarnar á íslensku og ensku.

Könnun þessi byggir á fyrirmynd frá Kulturstyrelsen í Kaupmannahöfn. Hægt er að leggja könnunina fyrir á pappír eða í tölvu. Benda má á einföld ókeypis kannanaforrit eins og QuestionPro og SurveyMonkey.

Innblástur og leiðbeiningar má finna t.d. finna hjá Visitor Studies Association og hjá Riksutställningar í Svíþjóð.