Viðmið frá Þjóðminjasafni Íslands
Forvarsla stuðlar að varðveislu sem skiptist í styrkjandi forvörslu og fyrirbyggjandi forvörslu. Söfn eru skyld til að sinna fyrirbyggjandi forvörslu í daglegu starfi. Í því felst að skapa ákjósanlegt umhverfi í sýningarsölum og í geymslum til að tryggja langtímavarðveislu safngripa.
Ákjósanlegt umhverfi getur verið mismunandi eftir því úr hvaða efni og í hvaða ástandi gripirnir eru. Þegar fagþekking er ekki til staðar er söfnunum bent á að leita ráðlegginga fagsfólks einkum til sérfræðinga viðkomandi höfuðsafna.
- Nauðsynlegt er að geymslurými fyrir safngripi séu skipulögð og notuð á faglegan hátt varðandi vinnubrögð og efnisnotkun:
- Nauðsynlegt er að gera áætlun um úrbætur í gripageymslum með það markmið að bæta öryggi gripa og halda umhverfi stöðugu (rakastig, hitastig) og ljósmagni í lágmarki.
- Nauðsynlegt er að búa til verklagsreglur varðandi umgang í geymslum.
- Nauðsynlegt er að stuðla að faglegri pökkun á gripum með því að nota viðurkenndar umbúðir.
- Nauðsynlegt er að búa til hilluskrá þar sem haldið er utan um staðsetningu gripa í geymslum.
- Nauðsynlegt að hafa neyðaráætlun fyrir safnkostinn. Um er að ræða viðbragðsáætlun sem unnin er í samráði við slökkviliðsmenn, þar sem viðbrögð við bruna eða vatnsleka eru skilgreind. Einnig er mikilvægt að íhuga viðbrögð vegna jarðskjálfta.
- Nauðsynlegt er að byggja upp yfirsýn yfir ástand safnskosts með því að skrá grunnmat á ástandi gripa um leið og gripirnir eru skráðir í safnkostinn.
- Nauðsynlegt er að gera áætlun um þörf fyrir styrkjandi forvörslu og fá mat menntaðs forvarðar til að forgangsraða verkefnum.
NJ 24.06.2008
Ítarlegri upplýsingar og leiðbeiningar er að finna í Handbók um varðveislu safnkosts sem má finna hér á vef safnaráðs.