Viðurkennt safn er safn sem hefur farið í gegnum viðurkenningarferli safnaráðs.

Samkvæmt 10. gr. safnalaga nr. 141/2011 þurfa viðurkennd söfn að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Safn skal vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnunar, félags eða fyrirtækis sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi þess og skipar því stjórn. Safn skal ekki rekið í hagnaðarskyni.
  2. Safn skal hafa sjálfstæðan fjárhag, aðskilinn frá öðrum rekstri eiganda. Reikningar safns skulu vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Það skal árlega senda skýrslu um starfsemi sína og fjárhagslegt uppgjör til safnaráðs.
  3. Safn skal starfa eftir stofnskrá eða samþykkt sem safnaráð hefur staðfest, sbr. 7. gr. Í stofnskrá eða samþykkt skal tilgreina viðfangsefni og starfssvæði safnsins. Stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
  4. Safn skal starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi. Upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skulu vera aðgengilegar almenningi.
  5. Safn skal veita skólanemendum sem heimsækja safnið í skipulögðum námsferðum aðgang án gjaldtöku.
  6. Aðgengi að húsnæði safns skal vera í samræmi við lög og reglugerðir og eins mikið tillit tekið til þarfa fólks með fötlun og kostur er.
  7. Safn skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga.
  8. Forstöðumaður safns skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt.

Samkvæmt safnalögum er hlutverk safnaráðs að fjalla um viðurkenningu safna og afturköllun viðurkenningar áður en tillögur þar að lútandi eru sendar ráðherra. Auk þess skal safnaráð setja skilmála varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf sem söfn verða að uppfylla til að fá viðurkenningu safnaráðs. Viðurkenningin er forsenda þess að söfn geti sótt um rekstrarstyrk úr safnasjóði og eingöngu viðurkennd söfn geta orðið ábyrgðarsöfn. Markmiðið með viðurkenningunni er að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.

Safnaráð skal hafa eftirlit með starfsemi viðurkenndra safna og uppfylli safn ekki skilyrði viðurkenningar getur safnaráð sent tillögu til ráðherra um afturköllun viðurkenningarinnar.

Viðurkennd söfn nota einkennismerki viðurkenndra safna sem sjá má hér að ofan.

Árlegur skilafrestur umsókna um viðurkenningu er að jafnaði 31. ágúst ár hvert.

Nánar má lesa um skilyrði safnaráðs fyrir viðurkenningu safns sem voru samþykkt á fundi ráðsins 17.09.2013 auk viðbóta við skilyrði frá 26.06.2018.

 

Áhugavert efni: