Úthlutunarreglum má niðurhala hér.
Úthlutunarreglur safnasjóðs nr. 551/2016 staðfestar af mennta- og menningarmálaráðherra 1. júní 2016
1.gr. Hlutverk safnasjóðs
Hlutverk safnasjóðs er samkvæmt safnalögum að styrkja starfsemi safna sem undir lögin falla. Í þeim tilgangi getur sjóðurinn styrkt rekstur og skilgreind verkefni viðurkenndra safna, samstarfsverkefni slíkra safna innbyrðis og önnur verkefni. Sjóðnum er heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.
2. gr. Úthlutanir úr safnasjóði
Viðurkennd söfn önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til sjóðsins til að efla starfsemi sína. Öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna.
Safnaráð veitir umsögn um styrkumsóknir úr safnasjóði. Ráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs:
- Verkefnastyrkjum er almennt úthlutað til eins árs í senn.
- Rekstrarstyrkjum er úthlutað til eins árs; heimilt er að gera samninga til lengri tíma um rekstrarstyrki til viðurkenndra safna með fyrirvara um fjármögnun safnasjóðs.
Söfn sem eru viðurkennd samkvæmt ákvæðum safnalaga önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til sjóðsins til að efla starfsemi sína. Söfn sem hljóta rekstrarstyrk á fjárlögum skulu ekki hljóta rekstrarstyrk úr safnasjóði sama ár. Safnasjóði er heimilt að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu ár hvert í styrki til að efla rekstur viðurkenndra safna.
Hægt er að sækja um rekstrarstyrki í safnasjóð til að:
- Efla faglega starfsemi safns og treysta rekstur þess,
- styrkja nýsköpun í rekstri og starfsemi safna,
- styrkja rekstur safna sem sameinast hafa öðrum menningarstofnunum,
- treysta samstarf safna við félagasamtök, stofnanir og aðra aðila um varðveislu og miðlun menningararfs í gegnum samninga.
Öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna.
Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Skal hið viðurkennda safn vera aðalumsækjandi og ábyrgðaraðili verkefnisins. Höfuðsöfn og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu geta átt aðild að slíkum verkefnum.
Safnasjóður getur veitt styrki til alþjóðlegra verkefna sem viðurkennd söfn eru þátttakendur í.
Safnaráð getur ákveðið hvort sjóðurinn leggi áherslu á ákveðna þætti safnastarfs í úthlutun verkefnastyrkja hvers árs og skal slík ákvörðun kynnt með auglýsingu í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti.
3. gr. Auglýsing um styrki úr safnasjóði
Safnaráð auglýsir ár hvert eftir umsóknum um styrki úr safnasjóði í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti.
4. gr. Almennt um umsóknir
Umsóknum um rekstrar- og verkefnastyrki skal skilað á þar til gerðu umsóknareyðublaði safnaráðs. Séu umsóknir ekki útfylltar í samræmi við leiðbeiningar safnaráðs getur safnaráð vísað þeim frá.
Í umsókn um rekstrarstyrk skal koma fram skilgreining þeirra rekstrarþátta sem nýta á styrkinn í. Umsókninni skulu fylgja afrit af fjárhagsáætlun þess árs sem sótt er um styrk fyrir og ársreikningi síðasta rekstrarárs.
Umsókn um verkefnastyrk skal bera greinilega með sér til hvers og hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Í umsókn skulu eftirtalin atriði koma fram eftir því sem við á:
- Upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur,
- nafn þess, er annast samskipti við safnaráð vegna verkefna,
- tilgangur og markmið verkefnis,
- nákvæm lýsingu verkefnisins,
- tíma- og kostnaðaráætlun verkefnisins.
5. gr. Um mat á umsóknum
Safnaráð leggur faglegt mat á gæði umsókna um rekstrarstyrki og gerir tillögu til ráðherra um upphæð styrkja. Ekki verður sjálfkrafa gerð tillaga um styrki til allra umsækjenda sem uppfylla skilyrði laga um viðurkennd söfn heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af ráðstöfunarfé sjóðsins og fjölda og gæðum umsókna.
Safnaráð leggur faglegt mat á gæði umsókna og metur styrkhæfi með tilliti til verkefna og gildis þeirra fyrir safnastarf almennt og gerir tillögu til ráðherra um upphæð styrkja. Ekki verður sjálfkrafa gerð tillaga um styrki til allra verkefna sem standast lágmarksviðmið safnaráðs heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af auglýstum áherslum hvert ár skv. 2. gr., ráðstöfunarfé sjóðsins og fjölda og gæðum umsókna.
6. gr. Eftirlit safnaráðs
Safnaráð hefur eftirlit með að styrkir séu notaðir til þess, sem getið var í umsóknum. Að verkefni loknu kynnir styrkþegi árangur og niðurstöður fyrir safnaráði með skriflegri skýrslu innan árs frá lokum verkefnis.
Söfn sem hljóta rekstrarstyrk úr safnasjóði skulu skila sérstakri skýrslu til safnaráðs áður en greiðsla styrks næsta árs getur farið fram.
Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis, nema sérstaklega sé sótt um frestun og/eða breytingu vegna verkefnisins.
Umsókn um frest skal vera skrifleg og rökstudd. Jafnframt er heimilt að hafna umsóknum viðkomandi safns um nýja styrki þar til úrbætur hafa verið gerðar að mati safnaráðs.
7. gr. Gildistaka
Úthlutunarreglur þessar eru settar í samræmi við heimild í safnalögum og koma í stað úthlutunarreglna safnasjóðs sem staðfestar voru af mennta- og menningarmálaráðherra með auglýsingu nr. 888/2013.
Úthlutunarreglur samþykktar í safnaráði 29. september 2015.
Ólafur Kvaran formaður.
Anna Sigríður Kristjánsdóttir
Haraldur Þór Egilsson
Guðbrandur Benediktsson
Sigríður Björk Jónsdóttir.
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 1. júní 2016.
Illugi Gunnarsson.
– – –
Úthlutunarreglurnar hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.