Hér til hliðar má finna ýmsa fræðslu og leiðbeiningar fyrir viðurkennd söfn, en grunnrit fyrir starfsfólk viðurkenndra safna og alla þá sem starfa að varðveislu menningararfsins er Handbók um varðveislu safnkosts sem er leiðbeiningarit í tveimur bindum á íslensku fyrir sem var gefið út af Þjóðminjasafni Íslands með stuðningi Safnasjóðs.
Um er að ræða fræðsluefni sem tekur til margra þátta varðandi langtímavarðveislu efnislega hluta menningararfsins.
Fyrra bindið fjallar um grunnatriði um umhverfi í söfnum, meðhöndlun og pökkun. Einnig er fjallað um skilyrði í geymslum, öryggi safnkosts og neyðaráætlun.
Seinna bindið fjallar um varðveislu gripa eftir tegundum og efni.
Handbókin er ætluð öllum sem starfa við varðveislu menningararfsins, þar á meðal safnmönnum, skjalavörðum, fornleifafræðingum, prestum og staðarhöldurum, en nýtist einnig háskólanemum í þeim fræðigreinum sem tengjast menningararfinum.
Við undirbúning íslensku handbókarinnar var vönduð og ítarleg bandarísk handbók höfð til hliðsjónar, National Park Service Museum Handbook. Kaflar úr þessari handbók voru nýttir sem fyrirmynd að íslensku handbókinni, en forverðir og sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa þýtt og staðfært textann með íslenskar aðstæður í huga. Ritstjóri handbókarinnar er Nathalie Jacqueminet forvörður, þáverandi varðveislustjóri á Þjóðminjasafni Íslands og núverandi varðveislustjóri Listasafns Íslands.
Fyrra bindið (fyrsta útgáfa, desember 2011, önnur útgáfa febrúar 2019) var unnið í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Landbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þá hefur Þjóðhátíðarsjóður stutt dyggilega við verkefnið.
Í seinna bindinu (fyrsta útgáfa, mars 2018) er kafað dýpra í heim einstakra munategunda, s.s. pappírsgripa (skjala, bóka og listaverka), ljósmynda og málverka. Síðasti kafli þessa seinna bindis fjallar um skaðvalda en þeir eru sameiginlegt vandamál allra safna. Fjallað er í máli og myndum um uppbyggingu og hrörnun safngripa, síðan er leiðbeint um meðhöndlun þeirra, geymsluaðferðir og sýningarmáta.
Athugið: Handbókin um varðveislu safnkost er eingöngu gefin út sem PDF-skjal. Mælt er með því að hún sé lesin á netinu til að virkja tenglana í textanum (smellið á fyrirsagnirnar til að opna handbókina).
.